Landnám Ingibjörg Áskelsdóttir forvörður ryksugar rústir landnámsbæjarins sem eru einhverjar merkustu fornminjar sem fundist hafa á Íslandi.
Landnám Ingibjörg Áskelsdóttir forvörður ryksugar rústir landnámsbæjarins sem eru einhverjar merkustu fornminjar sem fundist hafa á Íslandi. — Ljósmynd/Birna María Ásgeirsdóttir
Rústirnar á Landnámsýningunni í Aðalstræti 16 í Reykjavík voru nú í vikunni hreinsaðar og lagfærðar af forvörðum.

Rústirnar á Landnámsýningunni í Aðalstræti 16 í Reykjavík voru nú í vikunni hreinsaðar og lagfærðar af forvörðum. Rústirnar sem fundust við framkvæmdir árið 2000 eru uppistaða sýningarinnar sem var opnuð árið 2007, sem sýnir vel varðveittan skála frá landnámi ásamt veggbroti sem hlaðið var fyrir 874. Forvörsluaðferðir fyrir opnun sýningarinnar á sínum tíma voru flóknar en hafa dugað vel.

Nokkuð af torfbrotum rústarinnar hafa losnað á síðustu árum, bæði má þar kenna um tímanum og fikti forvitinna gesta. Í þeirri vinnu sem unnin er þessa dagana, er rústin hreinsuð, laus brot límd niður og að lokum er rústin vökvuð með kísilefni sem að bindur torfið til framtíðar. Við vökvunina verður mikil uppgufun etanóls og því hefur sýningin verið lokuð síðustu daga, en verður opnuð aftur á morgun, 5. september.

Í starfi síðustu daga var moldarveggur, sem fannst við fornleifauppgröft nærri aldamótum, sprautaður með efni sem heitir Teos. Efnið bindur jarðveg og þéttir. Í sýningunni eru rústir bæjar, sem öskulög staðfesta að var byggður fyrir árið 874. Þá hófst landnám Norðmanna á Íslandi, þegar Ingólfur Arnarson og Hallveig Fróðadóttir komu fyrst og byggðu sér bæ í Reykjavík, segja heimildir. sbs@mbl.is