Úr bæjarlífinu
Sigmundur Sigurgeirsson
Selfossi
„Umferðin hefur verið framar vonum, einkanlega eftir að landamærin opnuðust,“ segir Elísabet S. Jóhannsdóttir Sörensen, eigandi Gesthúsa á Selfossi, um rekstur tjaldmiðstöðvarinnar í sumar. Elísabet hefur rekið Gesthús í sextán ár af þeim 30 sem fyrirtækið hefur verið með starfsemi við Engjaveginn á Selfossi. Þar eru allmörg ágæt tjaldsvæði sem hafa notið vinsælda, tvö stærri hús til útleigu ásamt 22 herbergjum í smáhýsum, sem öll hafa verið gerð upp nýverið.
Elísabet segir að mest hafi hún fengið erlenda ferðamenn í gistingu í sumar. „Íslendingarnir voru færri nú en í fyrrasumar, þeir leituðu greinilega austur á land í blíðuna,“ segir hún. „Þetta gerðist mjög hratt eftir að útlendingarnir byrjuðu að streyma hingað til landsins í júní, en þeir eru fyrst og fremst í húsbílum og slíkum bílum sem hægt er að sofa í. Einhverjir eru þó í tjöldum, ekki síst stærri hópar,“ bætir hún við. Spurð um hvað mætti kalla sérstöðu staðarins segir hún það bæði vera staðsetninguna, miðsvæðis þar sem ferðamenn sæktu verulega í vinsæla ferðamannastaði á Suðurlandi, og einnig að öll aðstaða í Gesthúsum væri góð. Dyggði þar að nefna nægan aðgang að rafmagni og vatni, inniaðstöðu svo sem eldhús og matsal og fleira. „Svo finnst útlendingunum gott að komast í heitar sturtur,“ segir Elísabet.
Hún telur umsagnir fólks á erlendum ferðamannasíðum gera mikið fyrir aðsóknina. „Við fáum frábærar umsagnir þar.“
Nú þegar hausta tekur breytist samsetning ferðamannanna, en Gesthús býður upp á þjónustu allt árið, þótt vissulega sé aðsóknin mest á sumrin. „Í venjulegu árferði eru hér um 10 til 15 bílar á dag á tjaldsvæðinu yfir vetrarmánuðina.“ Elísabet segir það ekki breyta miklu þótt illa viðri, áfram sé spurt eftir þjónustunni yfir háveturinn. „Þá hringi ég bara í mann sem kemur og mokar tjaldsvæðið svo viðskiptavinirnir komist að,“ segir Elísabet að lokum.
Nýja íþróttahöllin á Selfossi er nú að verða tilbúin og er gert ráð fyrir að hún verði afhent ungmennafélaginu til afnota þann 27. september næstkomandi. Upphaflega stóð til að opna húsið fyrir notkun um síðastliðna verslunarmannahelgi í tengslum við ungmennalandsmót UMFÍ en líkt og þekkt er var hætt við mótið vegna fjöldatakmarkana. Enn er unnið að frágangi innanhúss þar sem verið er að koma fyrir tjöldum sem munu aðskilja frjálsíþróttasvæðið frá knattspyrnuvellinum en dráttur varð á að sá búnaður kæmi til landsins. Að sögn Gissurar Jónssonar, framkvæmdastjóra UMF Selfoss, ríkir mikil eftirvænting hjá félagsmönnum að fá húsið í sínar hendur enda verður um gríðarlega bót á aðstöðu iðkenda. Reiknar Gissur með að starfsemi hefjist strax í húsinu enda sé tímatafla tilbúin og búið að auglýsa æfingatíma í húsinu, bæði hjá knattspyrnudeild og frjálsíþróttadeild.
Þá mun knattspyrnuakademía og frjálsíþróttaakademía Fjölbrautaskóla Suðurlands hafa aðstöðu í því á morgnana. Hvað varðar aðra starfsemi í húsinu segir Gissur að gert sé ráð fyrir að almenningur geti nýtt tartan braut sem liggur kringum gervigrasið til æfinga og hreyfingar en þar verði hver á sína ábyrgð. Þá mun verða aðstaða til lyftinga sem allar deildir geta nýtt sér sem mun létta á slíkri aðstöðu sem er til staðar í íþróttahúsinu Iðu við FSu. Gissur segir að ekki sé enn ráðgert að leigja húsnæðið út fyrir aðra starfsemi en hann telur það koma til greina í framtíðinni. Húsið sjálft er rúmlega sexþúsund fermetrar að stærð og þar er búið að koma fyrir hálfum knattspyrnuvelli. Hægt verður að stækka húsið síðar.
Penninn/Eymundsson hefur tekið að sér rekstur upplýsingamiðstöðvar ferðamanna á Selfossi, sem þjónustar bæði Svf. Árborg og Flóahrepp. Mun upplýsingamiðstöðin verða í nýju verslunarhúsnæði í miðbænum á Selfossi í svokölluðu Egilshúsi.
Samningur sveitarfélagsins Árborgar og Pennans/Eymundsson hefur verið samþykktur og gildir hann út árið 2022 og í honum felst meðal annars umsjón með upplýsingaskjá og kynningarbæklingum, upplýsingagjöf til ferðafólks og samstarf við ferðaþjónustuaðila á svæðinu.
Tveir aðilar sýndu verkefninu áhuga þegar auglýst var eftir rekstraraðila. Áður hafði upplýsingaþjónustu við ferðamenn verið sinnt í bókasafninu við Austurveg eftir að hafa verið á nokkurskonar vergangi um nokkurt skeið. Fyrir reksturinn greiðir Árborg rekstraraðilanum tæpar fimm milljónir króna á ári.