Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:
Gráhærður er þessi gumi.
Gnæfir við loftið hann Tumi.
Æðstur er sá meðal Ása.
Oft mun um hafdjúpin rása.
Eysteinn Pétursson svarar: „Hér er hár. Vona að enginn hneykslist, þótt síðasta línan sé svolítið í anda séra Hallgríms sáluga um stuðlasetningu“:
Hár er gráhærður gumi.
Grannur og hár er hann Tumi.
Æðstur er Hár meðal Ása.
Um djúpin hárinn mun rása.
Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:
Hár er sá gráhærði gumi.
Gríðar hár vera mun Tumi.
Hár nefnist höfðingi Ása.
Hár mun um sædjúpin rása.
Þá er limra:
Hallbera gamla á Heiði
tók hraustlega í lurginn á Eiði
og hárreytti þann
hárprúða mann,
sem reitti hana til reiði.
Þá er ný gáta eftir Guðmund:
Dropar lofti duttu úr,
uns dundi á með helliskúr.
Hrökk ég upp af svefni súr
og samdi gátu í moll og dúr:
Léttur blær sér lyftir hér.
Löðrungur er veittur þér.
Heyskapur þá hafinn er.
Hraður nú í brjósti mér.
Helgi R. Einarsson skrifaði mér: „Ég var að koma heim frá bænum Garða við Garðavatn með gönguhóp sem við hjónin erum í. Skrapp áðan í sund og þessar urðu til á braut 3 í Lágafellslaug:
Ferðalok
Glæsilegur Garðabær
gleður þessa og hina,
þar ég lyfti glasi í gær
og gladdist meðal vina.
Með sorg í hjarta heim því fló,
holdið aumt og brunnið,
en verst af öllu þykir þó
að það er af mér runnið.“
Hinrik Bjarnason sendi mér þessa stöku:
Ósigrar og atvik ljót
ekki breyta hinu:
Á stundum dáða; við storm og grjót
ég stend með landsliðinu.
Um Hegranes í Skagafirði var kveðið:
Hegranes er herleg sveit,
hlaðin með græna skóga.
sjá má þar í svörtum reit
sauðaþjófa nóga.
Halldór Blöndal
halldorblondal@simnet.is