Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður stýrihóps Landspítala, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, tóku í gær fyrstu skóflustungu að nýrri rannsóknarbyggingu Landspítala. Húsið verður vestan Læknagarðs HÍ, 17.400 fermetrar að flatarmáli.
„Framkvæmdir hér á svæðinu hafa gengið vel og færa okkur nær því markmiði að hér verði tekið í notkun nýtt þjóðarsjúkrahús árið 2026,“ segir Svandís Svavarsdóttir.
Háfell ehf. sinnir jarðvinnu við rannsóknarhúsið og lýkur því verkefni í byrjun nýs árs. Þá fljótlega hefst uppsteypan. Stutt er í að vinna við bílastæða- og tæknihúsið hefjist ásamt uppbyggingu bílakjallara.
„Þjónusta við sjúklinga mun taka stórstígum framförum með starfsemi í rannsóknarhúsinu,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. sbs@mbl.is