Fjölskylda Pétur hér með börnunum sínum, Sigríði og Helga.
Fjölskylda Pétur hér með börnunum sínum, Sigríði og Helga. — Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
Um síðustu helgi var í Safnahúsinu á Húsavík opnuð sýning Péturs Jónssonar ljósmyndara þar í bæ, sem var valinn Listamaður Norðurþings 2020 . Pétur hefur myndað stærstu stundir margra kynslóða Norðlendinga og búið til skólaspjöld og fleira.

Um síðustu helgi var í Safnahúsinu á Húsavík opnuð sýning Péturs Jónssonar ljósmyndara þar í bæ, sem var valinn Listamaður Norðurþings 2020 . Pétur hefur myndað stærstu stundir margra kynslóða Norðlendinga og búið til skólaspjöld og fleira.

Pétur er fæddur á Suðureyri við Súgandafjörð árið 1941. Hann fór sautján ára til náms í Reykjavík en að því loknu, árið 1962, stofnaði hann ljósmyndastofu á Húsavík; og hefur rekið hana síðan. Á þeim tíma tæpu sextíu árum hafa orðið miklar breytingar í ljósmyndum. Framan af voru myndirnar svarthvítar og handlitaðar. Síðar varð Pétur annar tveggja ljósmyndara sem fyrstir framkölluðu ljósmyndir í lit á Íslandi. Síðar kom stafræna ljósmyndatæknin, sem öllu hefur breytt. Þá tækni tileinkaði Pétur sér snemma. „Ég hef kynnst öllu í ljósmyndatækni. Myndað á glerplötu og síma og allt þar á milli,“ segir Pétur við Morgunblaðið.

Aðdragandinn að sýningu Péturs er langur sbr. að hann var listamaður heimabyggðar sinnar á síðasta ári. Samkomutakmarkanir vegna veirunnar lokuðu á sýningarhaldið, en loks var lag. Á sýningunni eru alls 45 myndir.

„Mér finnst sýningin koma vel út og mannlífið sem ég hef myndað í áratugi nýtur sín vel,“ segir Pétur. Sýninguna settu upp dóttir Péturs, Sigríður, kvikmyndafræðingur og útvarpsmaður, og tengdadóttirin, Patra Tawatpol.

Þá er við Gamla Bauk, veitingastað við Húsavíkurhöfn, uppi önnur sýning með gömlum myndum sem Pétur hefur unnið í tölvu. Yfirskriftin þar er Frá fátækt til fengsældar og sýnir brot úr útgerðarsögu Þórs og Stefáns Péturssona, sem voru útgerðarmenn og kunnir borgarar á Húsavík. Upplýsingar um myndirnar má nálgast á sýningarstað með símaappi. sbs@mbl.is