Veitingamaðurinn Arnór Bohic er hér með konu sinni Paola Cardenas en hún er frá Síle og Kólumbíu.
Veitingamaðurinn Arnór Bohic er hér með konu sinni Paola Cardenas en hún er frá Síle og Kólumbíu. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stemningu frá Mið- og Suður-Ameríku má nú finna á Laugavegi en þar er nýr veitingastaður sem ber nafnið Selva. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

Á horni Laugavegs og Bergstaðastrætis er hægt að gleyma íslenskum raunveruleika um stund því þegar gengið er inn um dyrnar á Selva er vel hægt að ímynda sér að maður sé staddur fyrir sunnan miðbaug. Selva er glænýr veitingastaður og bar sem sérhæfir sig í réttum og suðrænum kokteilum frá Mið- og Suður-Ameríku. Seiðandi latíntónlist fyllir loftið, stemningin er óneitanlega kósí og framandi réttir suðrænu álfunnar eru á diskum gesta, sumir þeirra hangandi á sérstökum spjótum.

Frá Kúbu til Argentínu

Arnór Bohic, eigandi og framkvæmdastjóri Selva, hefur verið í veitingageiranum í 27 ár en hann byrjaði átján ára sem barþjónn en lærði síðar veitingarekstur í hótelskóla í Sviss. Hann er afar ánægður með viðtökurnar en opnað var fyrir mánuði.

„Það er búið að ganga gríðarlega vel og fólk er ánægt með matinn og segir að nú sé komið nýtt bragð í bæinn. Það er líka ánægt með stemninguna en við spilum latíntónlist. Hugmyndin var að opna mið- og suðuramerískan stað en orðið Selva þýðir frumskógur í Amazon. Við innréttuðum staðinn svolítið með það í huga og höfum hér grænan plöntuvegg og bambustré er hér uppi á efri hæð,“ segir Arnór.

„Mig langaði að koma með nýtt konsept í matarmenninguna, en ég hafði verið í eitt ár sem skiptinemi í Venesúela og einnig hálft ár í Mexíkó. Í þessum löndum kynntist ég suðuramerískri menningu sem ég hef alltaf verið gríðarlega hrifinn af, bæði tónlistinni og matnum. Kona mín er frá Síle og Kólumbíu þannig að ég þekki vel þennan heimshluta. Kokkarnir hér eru frá Suður-Ameríku, annar frá Síle og hinn frá Venesúela,“ segir Arnór og segir þau fara vítt og breitt um álfuna í matargerðinni.

„Við leikum okkur með rétti í raun alveg frá Kúbu og niður til Argentínu. Við höfum valið rétti sem fólk kannski þekkir en sett okkar mark á þá. Þetta eru réttir sem gaman er að deila en margir réttir eru bornir fram skemmtilega á spjótum. Hér er allt lagað frá grunni; öll deig og allar sósur.“

Sextíu tegundir af rommi

Mikið úrval drykkja má finna á barnum, bæði vín, kokteila og romm.

„Á barnum er þjónn frá Kúbu að hrista kokteila. Selva er líka bar og hér eru margir góðir suðrænir kokteilar. Það verður opið hér til tvö um helgar þegar takmarkanir hætta og þá verður hér barstemning fram eftir nóttu. Öll vínin okkar eru frá Suður-Ameríku og erum við með skemmtilegasta rommsafnið í bænum. Við erum komin með yfir sextíu tegundir af rommi,“ segir Arnór.

„Hér hefur verið alveg fullt um helgar,“ segir Arnór og bætir við að opið sé frá klukkan fimm alla daga nema mánudaga.

„Spjótin okkar eru vinsæl og líka hjúpaðar ostastangir. Sósurnar eru líka gríðarlega góðar,“ segir Arnór sem deilir svo með lesendum nokkrum velvöldum uppskriftum.

Lambaspjót með kóríandersósu

Fyrir 4-6

1 kg lambaprime

200 gr Chipotle-sósa

20 gr timjan

20 gr hvítlauk, smátt skorinn

150 gr ólífuolía

salt og pipar

Skerið kjötið í 2 cm teninga. Blandið saman Chipotle-sósu, timjan, hvítlauk, olífuolíu, salti og pipar í skál og setjið kjötið út í. Blandið vel saman. Látið liggja í ísskáp í að minnsta kosti klukkustund og jafnvel yfir nótt.

Þræðið bitanna á spjót og grillið í nokkrar mínútur þar til meyrt og gott.

Kóríandersósa

4 hvítlauksrif, skorið gróft

2 fullir bollar fersk kóríanderlauf

4 meðalstórir jalapeños, fræhreinsuð

1 tsk. sjávarsalt

1 tsk. kardimommur

¾ tsk. cumin

½ tsk. rauðar piparflögur, má vera meira

¾ bolli ólífuolía

Blandið hráefnum saman og berið fram með lambaspjótunum.

Mama ceviche

Forréttur fyrir 10-12

1 kg þorskflök

8 stk. lime

8 stk. rauður chillipipar

4 stk. hvítur laukur

50 gr. ferskt kóríander

smá salt

dass af ólífuolíu

Hreinsið og skolið þorskflökin og þerrið með eldhúspappír.

Skerið í litla kubba, ½ sentimeter á hverja hlið.

Skerið laukinn og kóríander smátt.

Skerið chillipiparinn í tvennt og hreinsið fræin úr. Skerið síðan smátt.

Setjið fiskinn í stóra skál og kreistið lime safann yfir og látið standa í um fimmtán mínútur í kæli. Bætið síðan saman við lauk, chilli og kóríander og hrærið saman.

Smakkið með salti og smá ólífuolíu. Berið fram kalt.

Arepitas-bollur

1 kg P.A.N. maísmjöl

200 gr rifinn halloumi-ostur

100 ml Achiote-olía

1 l vatn

15 g salt

Setjið mjölið og salt í skál og hellið vatni yfir. Hnoðið og bætið við vatni ef nauðsynlegt. Þegar deigið er orðið nokkuð þétt í sér, bætið við olíu og osti og hnoðið áfram.

Búið svo til litlar bollur sem eru flattar út. Steikið í 3-5 mínútur.

Bollurnar fara vel með ýmiss konar meðlæti, annaðhvort ofan á eða eins er hægt að skera rauf í bollurnar og setja eitthvað gott inn í, kjöt, ost eða grænmeti.

Pinacolada

3 cl dökkt romm

6 cl kokoskrema (2 stórar msk.)

9 cl ananassafi

5-7 ananas bitar

2 cl af lime-safa, kreistum

2 cl af sykursírópi

kanill á hnífsoddi

6 klakar

Setjið öll hráefnin í bullet-blandara og blandið þar til komin er kremuð áferð á drykkinn. Hellið svo í stórt glas með auka klaka, röri, kokteil regnhlíf og rauðu kokteilberi.