Loftur Runólfsson fæddist á Strönd í Meðallandi 30. desember 1927. Hann lést á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Klausturhólum, Kirkjubæjarklaustri, 24. ágúst 2021.

Foreldrar Lofts voru hjónin Guðlaug Loftsdóttir, f. 18. apríl 1906, d. 15. febrúar 1997, og Runólfur Runólfsson, f. 21. apríl 1904, d. 26. október 1933. Eftir andlát Runólfs bjó Guðlaug um árabil á Strönd með föður sínum, Lofti Guðmundssyni, uns Loftur, sonur hennar, tók við búsforráðum. Systkini Lofts voru: Guðlaug, f. 7. apríl 1929, húsmóðir og lengi matráðskona við Þinghólsskóla (nú Kársnesskóla) í Kópavogi, d. 26.2. 2016. Maður hennar var Magnús Jónsson, lengi starfsmaður Olíufélagsins hf., f. 22. júlí 1929, d. 17. júní 2013. Börn þeirra eru Loftur Óli flutningabílstjóri, f. 1959, og Íris ritari, f. 1963, d. 2015. Gunnar, bóndi á Rofabæ II og á Strönd, f. 2. september 1930, d. 14. september 2011.

Loftur átti alla tíð heimili sitt á Strönd en á yngri árum fór hann um þriggja vetra skeið í fiskvinnslu í Reykjavík. Hann var oddviti Leiðvallahrepps um áratugaskeið og gegndi margháttuðum trúnaðarstörfum fyrir sitt heimahérað.

Útför Lofts fer fram frá Langholtskirkju í Meðallandi í dag, 4. september 2021, og hefst hún kl. 14.

Kær vinur og félagi er látinn.

Margs er að minnast þegar litið er yfir farinn veg samskipta við Loft Runólfsson, höfðingjann á Strönd í Meðallandi. Að leiðarlokum er mér efst í huga söknuður og þakklæti fyrir áralanga vináttu og heilladrjúg samskipti í nær 67 ár.

Aðeins átta ára gamall var ég sendur í sveit að Strönd og fór án nokkurrar fylgdar með rútu frá Reykjavík austur að Flögu í Skaftártungu og þar tók á móti mér afasystir mín Sigríður og kallaði mig Svein frá Fossi (eftir föðurafa mínum) sem mér fannst skrýtið þá. Sama kvöld var ég fluttur niður að Strönd þar sem Guðlaug húsfreyja og synir hennar Loftur og Gunnar tóku afar vel á móti mér. Það var mikil gæfa fyrir mig að auðnast að dvelja hjá þeim næstu fimm sumrin og læra að vinna og meta bændurna og landið. Þar kynntist ég gömlu sveitarmenningunni bæði í vinnubrögðum og mat. Þeir bræður voru t.d. snillingar í verkun kópskinna og allar hurðir útihúsa voru þaktar spýttum skinnum á vorin. Eftir tveggja ára sendingar selskinna spurði kaupandi þeirra Loft hvort hann vildi ekki fara að fá greitt fyrir þau. Sendu mér traktor með sláttuvél var svarið. Mér var síðan treyst 9 ára gömlum til að aka dráttarvélinni um sumarið.

Á þessum árum var ég mættur í sveitina löngu áður en vorprófin hófust í Laugarnesskólanum og ég skilaði mér aldrei til baka, fyrr en komið var fram á vetur. Faðir minn féll frá nokkrum mánuðum áður en ég kom að Strönd og Loftur gekk mér að mörgu leyti í föðurstað og þetta voru ein mín bestu manndómsár.

Loftur lagði mönnum og málefnum gott eitt til og féll vel inn í það orðspor sem fer af Skaftfellingum að þeir séu hógværir og orðvarir. Hann var gæddur miklum mannkostum, góðum gáfum og vinafastur, sannur Íslendingur. Hann kom til dyranna nákvæmlega eins og hann var klæddur og tjáði skoðanir sínar umbúðalaust. Hann hafði ríka réttlætiskennd og var samur við háa sem lága og var höfðingi í sínu héraði. Líf og starf Lofts tengdist með afgerandi hætti landbúnaði og sveitarstjórnarmálum, því hann var oddviti um langt árabil auk fjölda trúnaðarstarfa á öðrum vettvangi. Loftur byggði upp nýtt íbúðarhús og rak fyrirmyndar blandað bú á jörðinni. Hann beitti sér fyrir mörgum framfaramálum í sveitinni, kom á vatnsveitu og barðist fyrir auknum varnargörðum til að verja byggðina fyrir Kötluhlaupum og síðast en ekki síst fyrir bættum samgöngum í sveitinni. Embættismenn sem áttu samskipti við Loft sögðu mér oft að munnlegir samningar við Loft oddvita stæðu ávallt eins og stafur á bók. Loftur var hafsjór af fróðleik um sögu héraðsins, ógnarvald jökla og fallvatna og baráttuna við sandinn, hinn landsins forna fjanda. Við ræddum oft saman á liðnum áratugum og það sem ég sóttist einkum eftir var að rifja upp sameiginlegar minningar okkar frá fyrri tíð. Það voru forréttindi að kynnast honum og minningin um góðan dreng lifir.

Við kveðjum nú mikilhæfan mann með söknuði og þakklæti fyrir að hafa fengið að njóta samvistanna við hann.

Sveinn Runólfsson.

Lofti á Strönd kynntist ég á síðustu árum hans. Sr. Sigurjón Einarsson prófastur, góðvinur okkar beggja, leiddi okkur saman. Þeir voru þá báðir á elliheimilinu á Klaustri. Nú kveðja þessir höfðingjar með mánaðarbili, á tíræðisaldri báðir. Lofts hafði ég oft heyrt að góðu getið. Við munum hafa sést fyrst sumarið 1962 þegar ég drap niður fæti á Hóli í Efri-Ey í örstuttri sumardvöl. Strönd er næsti bær við. Loftur var þá að rýja fé sitt ásamt öðrum bændum í Útsveitinni áður en það færi í sumarhaga. Þau stuttu skipti gleymdust fljótt.

Strönd er einn Sandabæjanna á eystri bakka Kúðafljóts. Jörðin var byggð úr landi Rofabæjar um miðja 19. öld. Þar hefur löngum verið myndarbú, margt fjár, vel ræktað og þjóðleg reisn yfir öllu. Loftur var af þriðju kynslóð ábúenda þar. Á langri ævi bætti hann jörðina og hýsti svo að sómi var að. Þegar búskap lauk fyrir fáeinum árum og afkomandi enginn sá hann það eitt ráð að skila eiganda jörðinni, ríkissjóði. Uppbygging og endurbætur voru hátt metnar svo að honum þótti veski sitt gildna um of og vandi að koma því í lóg á elliheimilinu. Svo vel tókst til að ungum granna kom þá í hug að nýta jörðina til ræktunar og bæta húsakost. Til þess naut hann stuðnings Lofts. Björt ljós verða því aftur í gluggum á Strönd og er það vel.

Loftur á Strönd naut trausts og sæmdar í sveit sinni. Hann var lengi oddviti Leiðvallarhrepps, leysti margan vanda hreppsbúa og rak erindi þeirra hjá yfirvöldum. Honum fórst það allt vel. Hann var annars ekki mikill á förum. Hann var dýravinur, kirkjurækinn og launfyndinn, stundaði búskap sinn af samviskusemi, var heimakær, líka eftir að hann varð einbúi. Margt afrek vann hann á Meðallandsfjörum þegar skip strönduðu þar áður fyrr.

Ég tók nýlega saman þátt um stutta dvöl mína í Meðallandi 1962. Hana mundi ég skýrt og hafði dregið ýmis föng til. Ég leitaði líka heimildarmanna. Þeir voru orðnir fáir, en drýgstur reyndist mér Loftur á Strönd. Seint og snemma gat ég spurt hann um smæstu atriði en hann ansaði þó því aðeins að hann vissi svarið upp á hár. Síðastliðið sumar dvaldist ég nokkra daga í Meðallandi og fórum við Loftur þá um alla sveit, að bökkum Kúðafljóts við Sandasel, út til strandar við Skarðsfjöruvita og inn með Eldvatni að Feðgum og Botnum. Veðrið lék við okkur og hinn einstæði fjallahringur skartaði sínu fegursta, frá Hjörleifshöfða að Öræfajökli. Sennilega var þessi för ein hin síðasta sem hann fór um sveitina sem fóstraði hann í meira en níutíu ár. Loftur þekkti öll örnefni og bæjarstæði, búskaparhætti og búendur. En svo frómur var hann í orðum að aldrei hallaði á neinn, aðeins knappur fróðleikur á föstum grunni. Þannig eru Meðallendingar flestir, og raunar Skaftfellingar, orðvarir, kurteisir, áreiðanlegir, greiðviknir. Notalegri mann en Loft á Strönd hef ég varla hitt. Hann var heilsteyptur maður. Stutt kynni við hann reyndust mér dýrmæt. Fyrir þau er þakkað með þessum orðum.

Blessuð sé minning Lofts Runólfssonar, bónda á Strönd.

Helgi Bernódusson.