Þjóðhátíð Aðaltekjulind ÍBV hefur ekki skilað neinu tvö ár í röð.
Þjóðhátíð Aðaltekjulind ÍBV hefur ekki skilað neinu tvö ár í röð. — Morgunblaðið/Ófeigur
„Þjóðhátíð hefur verið stærsta fjáröflun ÍBV og það er eiginlega óyfirstíganlegt þegar hún bregst tvö ár í röð,“ sagði Haraldur Pálsson, framkvæmdastjóri ÍBV íþróttafélags. Hann segir að í Vestmannaeyjum búi einungis 4.400 íbúar.

„Þjóðhátíð hefur verið stærsta fjáröflun ÍBV og það er eiginlega óyfirstíganlegt þegar hún bregst tvö ár í röð,“ sagði Haraldur Pálsson, framkvæmdastjóri ÍBV íþróttafélags. Hann segir að í Vestmannaeyjum búi einungis 4.400 íbúar. „Samt erum við með yngri flokka starf í öllum flokkum karla og kvenna í handbolta og fótbolta. Við höfum niðurgreitt æfingagjöldin og mætt á mjög mörg mót úti um allt land og niðurgreitt ferðir og annan þátttökukostnað heimilanna í bænum.

Auk þess höfum við verið með fjögur lið í efstu deildum karla og kvenna í handbolta og fótbolta og verðum það vonandi áfram. Það fylgir því mikill kostnaður að búa hér svo langt frá öðrum þegar kemur að þátttöku í þessum deildum.“

Haraldur sagði að það hefði verið rætt að draga úr niðurgreiðslum vegna æfingagjalda og ferðakostnaðar. Það mundi koma sér mjög illa fyrir tekjulágar barnafjölskyldur og gæti dregið úr fjölda iðkenda. Það yrði mjög vond niðurstaða að öllu leyti. Vestmannaeyjabær kom til móts við félagið í fyrra svo ekki þurfti að grípa til niðurskurðar þá.

Haraldur kvaðst hafa rætt við yfirmann almannavarna í Vestmannaeyjum og lýst áhyggjum af áhrifum opnunar landamæranna fyrr í sumar. Þær áhyggjur voru taldar ástæðulausar en niðurstaðan varð samt sú að útihátíðir um verslunarmannahelgina voru bannaðar. Hann kveðst hafa upplýsingar um að stjórnvöld í Noregi og Svíþjóð hafi komið til móts við útihátíðir sem voru felldar niður þar og bætt þeim upp tekjutap að miklu leyti. Nú sé því beint til íslenskra stjórnvalda að grípa til svipaðra ráða.

Ræddu við þrjá ráðherra

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja, kynnti nýlega bæjarráði drög að minnisblaði frá ÍBV um fjárhagsstöðu félagsins vegna áhrifa Covid á tekjur þess. Ljóst er að tekjutap vegna niðurfellingar þjóðhátíðar tvö ár í röð hefur mikil áhrif á rekstur félagsins, sérstaklega barna- og unglingastarf.

Fulltrúar ÍBV og bæjarstjóri hafa kynnt menntamálaráðherra, sveitarstjórnarráðherra og fjármálaráðherra þá alvarlegu stöðu sem ÍBV er í vegna takmarkana sem ríkisstjórnin setti og komu í veg fyrir að þjóðhátíð væri haldin. gudni@mbl.is