Paul Pogba og félagar í franska landsliðinu eru ríkjandi heimsmeistarar í knattspyrnu.
Paul Pogba og félagar í franska landsliðinu eru ríkjandi heimsmeistarar í knattspyrnu. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Arsène Wenger leggur til að HM í knattspyrnu verði haldið á tveggja ára fresti.

Frakkinn Arsène Wenger, þróunarstjóri alþjóðaknattspyrnusambandsins (FIFA), leggur til að heimsmeistaramótið í knattspyrnu verði haldið á tveggja ára fresti. Þetta kom fram í viðtali við hann í franska blaðinu L'Equipe á föstudaginn. Hann stingur einnig upp á því að undankeppni vegna HM og EM fari fram í einum og sama glugganum að hausti.

Meginreglan yrði sú að undankeppnin færi fram í beit að hausti, til dæmis í október, og síðan yrði stórmót að sumri, að loknum tímabilum félagsliðanna. Þess á milli yrðu leikmennirnir um kyrrt hjá félagsliðum sínum sem myndi kalla á mun færri ferðalög, auk þess sem minna rof kæmi í deildarkeppnir hinna ýmsu landa. Wenger sér fyrir sér að leikjum í undankeppnum yrði fækkað og að lögbundin hvíld, 25 dagar hið minnsta, tæki við eftir lokakeppnina að sumri. Hann sér fyrir sér að þetta nýja fyrirkomulag taki gildi árið 2028.