Spár um myndun nýrrar ríkisstjórnar eru erfiðar vegna flokkafjöldans. Fækki kjósendur flokkum minnkar óvissan.

Að spá í hvaða flokkar myndi stjórn að loknum kosningum er jafnan spennandi enda er kosningakerfið þannig að mjög ólíklegt er að einn flokkur nái meirihluta á þingi. Hlutfallskosningar knýja flokka til að stilla saman strengi að þeim loknum þótt þá greini á um málefni í kosningabaráttunni.

Annars staðar á Norðurlöndunum eru bláar og rauðar blokkir, flokkabandalög hægra eða vinstra megin við miðju um stjórnarmyndun, hljóti blokkin til þess nægilegt fylgi kjósenda. Hér eru línur ekki eins skýrar.

Á viðreisnarárunum (1959-1971) lá þó ljóst fyrir að Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur mundu starfa saman að kosningum loknum, fengju þeir til þess fylgi. Í kosningum 1999 og 2003 lá í loftinu að eftir þær myndu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur starfa saman í ríkisstjórn hefðu þeir þingstyrk til þess.

Stundum eru óyfirstíganlegir múrar á milli flokka. Utanríkis- og öryggismál útilokuðu lengi samstarf milli Sjálfstæðisflokks og Alþýðubandalags. Eftir undirskriftasöfnun Varins lands fyrri hluta árs 1974 breytti Alþýðubandalagið hins vegar um stefnu í varnarmálum. Brottfarar varnarliðsins var ekki lengur krafist við gerð stjórnarsáttmála eins og sannaðist þegar framsóknarmaðurinn Ólafur Jóhannesson myndaði þriggja flokka vinstri stjórn árið 1978.

Ný afstaða Alþýðubandalagsins til öryggismála varð til þess að hugmyndinni um „sögulegar sættir“ með stjórn sjálfstæðismanna og alþýðubandalagsmanna var hreyft í Morgunblaðsgreinum okkar Styrmis Gunnarssonar um áramótin 1979/1980.

Síðan kom það svo flatt upp á okkur að Gunnar Thoroddsen sagði skilið við þingflokk sjálfstæðismanna og myndaði stjórn með Alþýðubandalagi og Framsóknarflokki í febrúar 1980. Til málsbóta fyrir stjórnina nefndi hann meðal annars að í blaðagreinum hefði verið gefið grænt ljós á samstarf við alþýðubandalagsmenn.

Fyrsta „hreina vinstri stjórnin“, það er stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna (VG) undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur, Samfylkingu, sat meira af vilja en mætti í heilt kjörtímabil, 2009-2013. Stjórnarflokkarnir guldu afhroð í lok kjörtímabilsins.

Samfylkingin hefur síðan ekki borið sitt barr. Nú hallar hún sér að Pírötum og keppir um fylgi til vinstri við Sósíalistaflokkinn. Logi Einarsson flokksformaður hafnar stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Samfylkingin hefur aðeins einu sinni frá stofnun árið 2000 staðið í heilt kjörtímabil að baki ríkisstjórn. Allt yfirbragð flokksins ber merki reynslu- og agaleysis.

Undir forystu Katrínar Jakobsdóttur náði VG að festa sig í sessi sem ábyrgur stjórnmálaflokkur. Katrín er fyrsti forsætisráðherrann sem leiðir þriggja flokka stjórn í heilt kjörtímabil. Þetta er ekki áreynslulaust fyrir forsætisráðherrann og flokk hennar. Tveir þingmenn VG heltust úr lestinni á kjörtímabilinu. Annar fór til Pírata og hinn til Samfylkingar. Þingmenn þurfa úthald til að þola staðfestuna sem felst í stuðningi við sömu ríkisstjórn í fjögur ár.

Vegna fjölgunar þingflokka eftir kosningar 2017 var erfiðara en ella að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Samstarf þriggja flokka eða fleiri þurfti til að stjórna landinu. Ábyrgir stjórnmálamenn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tóku höndum saman og gengu til samstarfs í stjórn sem hefur stýrt þjóðarskútunni í ofviðri og siglt henni á eins kyrrum sjó og unnt er í heimsfaraldri.

Hagstofa Íslands segir að samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir 2020 hafi landsframleiðsla ársins numið 2.941 milljarði króna og dregist saman að raungildi um 6,5% frá árinu 2019. Til samanburðar er þess getið að samdrátturinn varð mestur árið 2009 þegar hann nam 7,7%. Þegar síldin hvarf af Íslandsmiðum dróst landsframleiðslan saman um 5,5% árið 1968.

Ekkert sambærilegt uppnám hefur orðið í stjórn landsins vegna kórónuveirunnar og varð á árunum 2009 til 2013 þegar „hreina vinstristjórnin“ háði brösótta glímu við efnahagssamdráttinn. Með neyðarlögum og samningum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn frá haustinu 2008 hafði hún þó góð tæki í höndunum. Höfuðathygli stjórnarforystunnar beindist raunar að gæluverkefnum hennar: uppbroti á stjórnarskránni; aðild að ESB og aðför að kvótakerfinu. Öll runnu verkefnin út í sandinn.

Stjórnmálaflokkar takast enn á um þessi mál. ESB-aðild er jaðarmál með stuðningi Samfylkingar og Viðreisnar sem leggur mikla áherslu á sérhagsmuni andstæðinga krónunnar. „Nýja stjórnarskráin“ frá 2011 sem hafnað var af alþingi fyrir kosningar 2013 lifir sem sameiginlegt jaðarmál Pírata og Samfylkingar og nýtur samúðar Viðreisnar.

Til að blekkja kjósendur kynnir formaður Viðreisnar þessa jaðarpólitík sem miðjustefnu við lítinn fögnuð formanns Framsóknarflokksins sem segir enga „miðjuflokkastjórn“ verða til án sín.

Í stíl Gróu á Leiti er látið í veðri vaka að það sé „á allra vitorði“ að núverandi stjórnarflokkar séu „í óformlegu kosningabandalagi“. Með neikvæðri afstöðu til þess býður stjórnarandstaðan sex flokka ríkisstjórn að fyrirmynd úr ráðhúsi Reykjavíkur. Þar er stjórnleysið slíkt að hvorki er staðið rétt að útboðum né framkvæmdum í þágu grunnskólabarna svo að ekki sé minnst á fjármálastjórnina.

Sé ekkert haldbærara að hafa gegn ríkisstjórnarflokkunum en að þeir kunni að starfa áfram saman að kosningum loknum er málefnafátæktin mikil.

Valdið er kjósenda. Vilji þeir þennan flokkafjölda á þingi, verður hann og mikil óvissa um stjórnarmyndun.

Björn Bjarnason bjorn@bjorn.is

Höf.: Björn Bjarnason bjorn@bjorn.is