Vigdís Häsler
Vigdís Häsler
Eftir Vigdísi Häsler: "Eignarréttur er takmarkaður smátt og smátt með auknum kröfum frá hinu opinbera um alla mögulega hluti."

Bændur hafa náð undraverðum árangri síðustu áratugi. Þeir framleiða verðmætari vöru, af meiri gæðum, með minni notkun varnarefna og sýklalyfja, með minna umhverfisfótspori. Framleiðnivöxtur í landbúnaði hefur verið viðvarandi vegna sífelldra tækniframfara. Grunnurinn sem þessi þróun hefur hvílt á er einkaframtakið, bændur eru atvinnurekendur sem eiga sínar jarðir og rækta jarðir sínar. Þeir huga að hagsmunum framtíðarinnar og sjálfs síns.

Eignarrétturinn er hornsteinn verðmætasköpunar

Grundvöllurinn að velgengni Íslendinga á 20. öldinni var í gegnum eignarréttinn. Við kröfðumst eignarréttar að miðunum í kringum landið í kjölfar þess að þjóðin fékk sjálfstæði. Í krafti þess eignarréttar gátum við stýrt veiðum á sjálfbæran hátt og aukið verðmætasköpun. En sambærileg þróun varð einnig í landbúnaði, bara mun fyrr. Í upphafi 20. aldar var innan við þriðjungur bænda sjálfseignarbændur. Mikill meirihluti voru leiguliðar. Í kjölfar kirkjujarðasamninga við þjóðkirkjuna voru svo jarðir kirkjunnar seldar til bænda. Þannig hófst uppgangurinn í íslenskum landbúnaði.

Síðustu ár hefur svo þessi þróun gengið nokkuð til baka – illu heilli. Eignarréttur er takmarkaður smátt og smátt með auknum kröfum frá hinu opinbera um alla mögulega hluti. Tilkynna þarf til sveitarfélagsins ef það á svo mikið sem byggja hænsnakofa. Sumir vilja að bændum verði fyrirskipað að fylla ofan í skurði sem eru á jörðum þeirra á eigin kostnað. Þetta er óheillaþróun og hennar má sjá stað í opinberum tölum, en fjármunir sem hið opinbera setur í eftirlit með landbúnaði hefur margfaldast á síðustu þrjátíu árum á meðan stuðningur við landbúnað hefur farið minnkandi. Styðjum frekar nýsköpun og hugvit frekar en sívaxandi eftirlitsiðnað.

Skýrari og einfaldari reglur

Réttara væri að hið opinbera beitti sér frekar fyrir einföldun á meginreglum um ráðstöfun lands í stað þess að byggja upp síflóknari eftirlitskerfi. Með innleiðingu tæknilausna á sviði rekjanleika mætti auka aðhald markaðarins með starfsháttum þannig að neytendur geti sent skýrari skilaboð um hvað þeir telja æskilega búskaparhætti. Íslenskur landbúnaður hefur alla tíð aðlagast markaðsaðstæðum á hverjum tíma, þó að vitanlega séu ekki teknar handbremsubeygjur í þeirri grein. Á tímum þar sem örar breytingar eru á neysluháttum, loftslagi og viðskiptum þarf að hvetja bændur til að fjárfesta í nýsköpun og til að þeim sé það kleift þarf að draga úr sem kostur er þeirri byrði sem pappírsflóð eftirlitsaðila og fylgjandi kostnaður felur í sér.

Þannig getum við virkjað hið frjálsa framtak bænda í þágu aukinnar verðmætasköpunar úti um land allt.

Höfundur er framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.

Höf.: Vigdísi Häsler