Legsteinn Muggs.
Legsteinn Muggs.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Jón Kr. Ólafsson: "Ég vona að legsteinn Muggs í Suðurgötukirkjugarði, sem gerður var af Elof Christian Risbye verði tekinn ærlega í gegn, okkur öllum til sóma."

Guðmundur Thorsteinsson (Muggur) listmálari fæddist á Bíldudal 5. september 1891 og er sem betur fer dáður af öllum sem komnir eru til vits og ára. Björn Th. Björnsson listfræðingur, sem kunni sögu Muggs manna best, kallaði hann gulleplið frá Bíldudal. Ég undirritaður er svo sannarlega sammála Birni, því víst var hann það. Hann er að mínum dómi listrænt stolt okkar, sem hér erum fædd og uppalin, og öllum sem láta sig svona mál varða. Öllum sem ekki ganga með lokuð augu fyrir því sem göfgar hug og hönd. Muggur var okkar fyrsti kvikmyndaleikari er hann lék Ormar Örlygsson í kvikmyndinni Sögu Borgarættarinnar 1919. Hann fékkst við alla hluti sem til myndlistar horfðu, og var gamanvísnasöngvari, gamanleikari og allt sem nöfnum tjáir að nefna. Muggur var hugljúfur listamaður. Hann var eins og hvítur fugl fljúgandi, en snemma merktur feigð sinni, þannig að hann flaug ævinlega með vængbroddinn í bárum dauðans, það gerði léttlyndi hans svo stórkostlegt og angurværð hans svo þunga og svo sanna.

Mér hefur verið tjáð að myndlistarsýning verði um Mugg á Listasafni Íslands. Hér á Bíldudal var reistur minnisvarði honum til heiðurs 5. september 1981, á 90 ára afmælinu. Þrír menn stóðu fyrir því; Magnús K. Björnsson oddviti, Guðmundur Hermannsson sveitarstjóri og Jón Kr. Ólafsson söngvari.

Lágmynd af Mugg gerði Guðmundur Elíasson og blágrýtisdrangur sem ber uppi lágmyndina er frá S. Helgasyni steinsmiðju.

Að endingu þetta: Ég vona að legsteinn Muggs í Suðurgötukirkjugarði, sem gerður var af Elof Christian Risbye og hann sendi frá Kaupmannahöfn til Íslands með skipi, verði tekinn ærlega í gegn, okkur öllum til sóma. Kominn er tími til, því nú mun ég undirritaður fara að hætta þessu viðhaldi sem ég hef sinnt um 40 ára skeið á hinu glæsilega listaverki Risbyes.

Höfundur er söngvari, Bíldudal.

Höf.: Jón Kr. Ólafsson