Skot Kári Árnason reynir að verjast marktilraun Kais Havertz, leikmanns Þýskalands og Chelsea, í leik liðanna í Duisburg í mars á þessu ári.
Skot Kári Árnason reynir að verjast marktilraun Kais Havertz, leikmanns Þýskalands og Chelsea, í leik liðanna í Duisburg í mars á þessu ári. — AFAP
HM 2022 Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mætir stórliði Þýskalands í J-riðli undankeppni HM 2022 á Laugardalsvelli á morgun.

HM 2022

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mætir stórliði Þýskalands í J-riðli undankeppni HM 2022 á Laugardalsvelli á morgun.

Íslenska liðið er með fjögur stig í fimmta og næstneðsta sæti riðilsins en Þjóðverjar eru í efsta sætinu með 12 stig. Armenína kemur þar á eftir með 10 stig, Rúmenía er með níu stig og Norður-Makedónía með átta stig í fjórða sæti riðilsins.

Þjóðverjar byrjuðu undankeppnina vel og unnu 3:0-sigur gegn Íslandi í Duisburg 25. mars áður en liðið vann 1:0-útisigur gegn Rúmeníu í Búkarest 28. mars. Þjóðverjar töpuðu svo óvænt 1:2 gegn Norður-Makedóníu í Duisburg 31. mars.

Í þessum landsleikjaglugga hafa Þjóðverjar lagt Liechtenstein og Armeníu að velli en liðið vann 2:0- sigur gegn Liechtenstein í St. Gallen 2. september áður en liðið vann stórsigur gegn Armeníu í Stuttgart, 6:0, en sigurinn skaut liðinu í efsta sæti J-riðils.

Serge Gnabry, sóknarmaður Bayern München, er markahæsti leikmaður Þjóðverja í undankeppninni með þrjú mörk og Timo Werner, sóknarmaður Chelsea, og Ilkay Gündogan, miðjumaður Manchester City, koma þar á eftir með tvö mörk hvor.

Gríðarlega reyndir

Þýskaland er sem stendur í 16. sæti styrkleikalista FIFA en liðið hefur ekki verið neðar síðan árið 2004 þegar liðið var í 19. sæti styrkleikalistans.

Hinn 56 ára gamli Hans-Dieter Flick tók við þjálfun þýska liðsins 1. ágúst á þessu ári eftir að Joachim Löw hafði stýrt liðinu frá árinu 2006.

Flick stýrði Bayern München í tvö tímabil áður en hann tók við þýska landsliðinu og gerði Bæjara tvívegis að Þýskalandsmeisturum, tímabilin 2019-20 og 2020-21. Þá gerði hann liðið að Evrópumeisturum árið 2020. Þá varð liðið einnig bikarmeistari undir hans stjórn sama ár.

Þjóðverjar hafa á að skipa gríðarlega sterkum leikmannahópi og í hópnum sem mætir á Laugardalsvöll eru átta leikmenn sem leika með Þýskalandsmeisturum Bayern München. Þá eru þrír leikmenn í hópnum sem leika með Evrópumeisturum Chelsea.

Þrátt fyrir að þýska liðið sé að ganga í gegnum ákveðna endurnýjun er meginþorri leikmannahópsins gríðarlega reyndur og leikmennirnir sem byrjuðu í 6:0-sigrinum gegn Armeníu í Stuttgart á dögunum höfðu samtals leikið 499 A-landsleiki fyrir Þýskaland.

Ísland og Þýskaland hafa þrívegis mæst í gegnum tíðina; tvívegis í undankeppni EM og einu sinni í undankeppni HM.

Tvívegis hefur Þýskaland fagnað sigri og einu sinni hafa liðin gert jafntefli, árið 2003 í undankeppni EM 2004 á Laugardalsvelli en þeim leik lauk með markalausu jafntefli.

Liðin mættust síðast í Duisburg í mars en af þeim ellefu leikmönnum sem byrjuðu þann leik fyrir Ísland eru einungis fimm í landsliðshópnum núna, þeir Hannes Þór Halldórsson, Guðlaugur Victor Pálsson, Birkir Bjarnason, Kári Árnason og Alfons Sampsted.