Ekki þarf að kvarta undan tilbreytingaleysi kosninga hvert sem litið er

Næstu þrjár vikur gætu orðið næsta sögulegar þegar horft er til hugsanlegra úrslita þriggja kosninga.

Fyrst víkur sögunni til Noregs. Kannanir og spár þar benda til þess að samsteypustjórnin sem Hægriflokkurinn hefur leitt, undir forystu formannsins Ernu Solberg, muni nú loks verða að láta í minni pokann, en hún hefur gegnt embætti forsætisráðherra Noregs í tæp átta ár. Verði sú niðurstaðan, þá muni væntanlega taka við samsteypustjórn Jafnaðarmanna og annarra vinstri flokka og Jonas Gahr Störe leiðtogi kratanna loks hreppa stól forsætisráðherra. Störe hafði, fyrir valdtíma Ernu, gegnt ráðherraembættum í stjórnum Stoltenbergs, lengst sem utanríkisráðherra. En hann hafði þar áður verið helsti aðstoðarmaður Gro Harlem Brundtland forsætisráðherra á löngu valdaskeiði hennar.

Miklar sviptingar hafa orðið á fylgi flokka í Noregi síðustu mánuðina, en líklegt verður að telja að staðan þar sé orðin bærilega stöðug, nú þegar aðeins tæp vika er til kjördags.

Og þá má horfa á ný til Þýskalands, og sjá að þar er síst minni titringur þegar horft er til þess sem nú er líklegast að gerist í kosningum eftir þrjár vikur.

Merkel kanslari réð mestu um það hver skyldi fá að keppa að því sem flokksleiðtogi að verða nýr kanslari Þýskalands og þar með æðsti stjórnandi ESB í raun.

Í fyrstunni virtist sem Merkel hefði fundið verðugan arftaka, en nú þremur vikum fyrir kosningar virðast vonir hans að verða að engu, og að minnsta kosti tvær grímur eru teknar að renna á Angelu Merkel til viðbótar við allar hinar grímurnar á veirutíð.

Fyrsta slysið hjá nýja leiðtoganum varð þegar þýskir forystumenn fóru til að kynna sér hin miklu tjón sem orðið höfðu vegna flóða í landinu. Þrautreyndir stjórnmálamenn gættu þess að ganga um súrir á svip og með bauga undir augum í samræmi við sviðsmyndina sem þeir voru staddir í. Enginn þeira var síglápandi á úrið sitt, eins og Biden hefði gert við þessar aðstæður. En reynsluleysið náði einum. Fjöldi mynda birtust í öllum miðlum af nýja foringjanum gangandi um rústuð svæði landsins hlæjandi og flissandi svo helst minnti á sérkennilega framgöngu Kamalla Harris varaforseta Bandaríkjanna við sambærileg tilefni.

Armin Laschet kanslaraefni baðst nú afsökunar í bak og fyrir og lofaði að haga sér aldrei aftur með svo ógætilegum hætti. Það þýðir á máli stjórnmálmanna, að hann myndi tryggja að lenda aldrei aftur á svo neyðarlegum myndum.

En Armin Laschet dvaldi ekki lengi sem iðrandi syndari í Paradís. Rannsakendur og snuðrarar ráku næst augun í að Laschet hefði fyrir 12 árum gerst sekur um „ritstuld“ í bók sem hann gaf út í eigin nafni. Leiðtoginn hefur nú beðist afsökunar á þessu og lofað að lesa sína eigin bók rækilega yfir til að kanna hvort fleiri slysaskot væri þar að finna. Persónufylgi leiðtogans hefur nú þegar hrunið niður og flestir þýskir leiðtogar, stórra og smárra flokka, hafa skotist upp fyrir fylgi hans. Þessi „glæpur“ er reyndar næsta algengur í Þýskalandi og hafa ráðherrar og önnur fyrirmenni misst virðulega titla og embætti af því tilefni. Þess er reyndar skemmst að minnast að leiðtogi þýskra Græningja var á mikilli stjórnmálalegri siglingu fyrir aðeins fáeinum mánuðum og töldu spár og spekingar svo komið, að fátt gæti komið í veg fyrir að hún yrði næsti kanslari Þýskalands.

En þá komst upp að hún hafði gerst fingralöng með sama hætti og jafnvel verri og nýi leiðtogi Kristilegu flokkanna.

Fylgið hrökk hratt af henni og hún var grænni í framan og allt um kring en hún hafði áður verið í forystusæti Græningja.

Eins manns dauði er annars brauð í pólitíkinni eins og dæmin sanna. Og nú er flokkur þýskra sósíaldemókrata sem þurft hafði lengi að lepja fylgið úr skel rokinn upp í fylgi og bendir nú margt til að hann muni jafnvel fá afl og atbeina til þess að eiga næsta kanslara Þýsklands í oddvitasæti nýrrar vinstristjórnar.

Og á Íslandi virðast 9 flokkar ætla að merja þingsæti, sem lofar ekki góðu fyrir stöðugleika í landinu og er því orðið snúið að geta sér til um hvað verða vill í landinu því. Það þarf því að hafa augun víða hjá sér.