Magdalena Soffía Ingimundardóttir fæddist 30. desember 1932 á Ísafirði. Hún lést 12. ágúst 2021.

Foreldrar Magdalenu voru hjónin Ingimundur Ögmundsson, útgerðarmaður og byggingameistari, f. 1881, d. 1968, og Jóhanna Sigríður Jónsdóttir, húsfreyja og verkakona, f. 1892, d. 1980.

Alsystur Magdalenu: Halldóra Sigríður, f. 1930, d. 1999, og Auðbjörg, f. 1934. Eldri hálfbróðir sammæðra var Halldór Ingimar. Eldri hálfsystkini samfeðra, öll látin: Árni, Sigurbjörg, Erlingur, Ingvi Jens, Oddgeir, Haukur, Sigurgeir, Þórunn, Auðbjörg.

Magdalena giftist 25. apríl 1957 Hermanni G. Jónssyni lögfræðingi, f. 25.5. 1921, d. 14.9. 1997. Foreldrar hans voru Jón Bjarnason, f. 1887, d. 1977, og Anna Kristófersdóttir, f. 1891, d. 1967, frá Hörgsdal á Síðu. Nokkru eftir lát Hermanns eignaðist Magdalena vin, Níels Brimar Jónsson, f. 1942, d. 2004.

Börn Magdalenu og Hermanns eru: 1) Jóhanna, f. 15.6. 1952, gift Jean-Pascal Pouyet, f. 15.6. 1952, dóttir þeirra: Anna Magdalena, f. 24.12. 1983. 2) Auður, f. 29.7. 1957, gift Þóri Kristinssyni, f. 1.12. 1965, dóttir þeirra: Þórhildur Elfa, f. 11.12. 1994, sambýlismaður Ólafur Þórðarson. Sonur Þóris: Karl Gissur, f. 1.10. 1990, sambýliskona Anna Kristín Kristinsdóttir. 3) Birgir, f. 18.8. 1963, kvæntur Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, f. 29.5. 1968, börn þeirra: a) Jakob, f. 12.8. 1998, sambýliskona Sólveig Einarsdóttir, dóttir þeirra: Herdís, f. 3.11. 2020, b) Hanna Sigþrúður, f. 23.3. 2004, c) Davíð f. 21.1. 2006. Sonur Sigríðar Ingibjargar: Natan, f. 10.12. 1991. 4) Anna, f. 11.6. 1965, sambýlismaður Ingólfur Klausen, f. 14.3. 1960, dóttir þeirra: Sigrún, f. 7.11. 2005. Sonur Ingólfs: Kristján Óttar, f. 8.8. 1991, kvæntur Kristrúnu Brynju Þorsteinsdóttur, sonur þeirra: Þórólfur Theódór, f. 6.4. 2020, sonur Kristjáns: Eyvindur Páll, f. 10.3. 2013.

Magdalena ólst upp á Ísafirði. Hún lauk landsprófi frá Gagnfræðaskólanum á Ísafirði, lærði við Húsmæðraskólann á Akureyri og lauk starfsnámi í bókhaldi. Magdalena og Hermann bjuggu fyrstu árin á Ísafirði, síðar á Akureyri og í Hafnarfirði, lengi á Akranesi, en lengst af í Reykjavík. Magdalena var ávallt útivinnandi, síðast hjá Orkuveitu Reykjavíkur.

Magdalena var virk í félagslífi og kvenfélagsstarfi og gegndi margvíslegum trúnaðarstörfum á þeim vettvangi, svo sem fyrir Kvenfélag Akraness, Samband borgfirskra kvenna, Kvenfélagasamband Íslands, Bandalag kvenna í Reykjavík (BKR) og Thorvaldsensfélagið. Magdalena ritstýrði nokkrum afmælisritum, síðast afmælisriti Kvenfélagasambands Íslands árið 2000. Magdalena var jafnréttissinnuð, sat í jafnréttisnefnd BKR í fjölda ára og átti hún frumkvæðið að stofnun Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna hjá BKR árið 1995. Hún var formaður ferðanefndar BKR og skipulagði ferðir erlendis í samstarfi við ferðaklúbbinn Garðabakka.

Útför Magdalenu hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Elsku besta Magdalena amma.

Ég heiti eftir þér og það er mikill heiður. Þú varst fimmtug þegar ég fæddist og ég var eina barnabarnið í ellefu ár. Elsta dóttir þín, mamma mín, er íslensk og pabbi minn franskur, ég ólst upp í Frakklandi. Ég kom þó mjög oft til Íslands og dvaldi hjá þér. Stundum með mömmu eða með fjölskyldunni, en mjög oft vorum við bara tvær, þannig að það er óhætt að segja að þú hafir verið eins og mamma mín.

Þú sagðir mér sögur um vistina í Bolungarvík og um það hvernig þú dast í sjóinn og klifraðir í klettum og fjöllum þegar þú varst lítil. Og um það þegar þú varst viðstödd barnsfæðingu. Þú varst svo heilluð af því að hafa búið hjá hamingjusömum hjónum, sem elskuðu hvort annað í fallegu hjónabandi. Þetta var „lífsins besti skóli“.

Þú brostir svo fallega og augun þín ljómuðu þegar þú talaðir um ástina eða þegar ég talaði um strákamál. Þú sagðir mér frá afa Hermanni, hvað hann hugsaði vel um börnin og hvernig hann tók þátt í heimilisstörfum, sem var svo sérstakt á þeim tíma. Þú kenndir mér hvað það er mikilvægt fyrir konur að stíga fram og vera sjálfstæðar. Þú varst alltaf svo glæsileg og flott! Þú varst lengi að velja þér föt og áttir þau svo mjög lengi. Silkislæða, varalitur og lakkaðar neglur voru þín einkenni. Hvað þér fannst gaman að dansa! Ung dansaðir þú alla nóttina og drakkst bara vatn, „dansinn og gleðin gefur manni orku“ sagðir þú. Ekki gastu verið hrifin af karlmanni sem kunni ekki að dansa.

Ég var svo heppin að fá að fara ein með þér í frí, til Krítar, Portúgals, Mallorka... Eftir langan sólardag gerðum við okkur fínar og fórum út að borða. Alltaf labbandi ef mögulegt var svo við gætum notið heitu kvöldanna sem þú elskaðir svo mikið! Flestir héldu að þú værir mamma mín. Við hlógum að því og svo fékk ég alltaf að panta piparsteik og ís. Þú fékkst þér rauðvínsglas og skálaðir á hverju einasta kvöldi fyrir lífinu og tilverunni, með þessi tindrandi augu sem gátu fyllst af svo mikilli ást að maður táraðist. Enda táraðist ég alltaf þegar við kvöddumst í dyrunum áður en ég fór til Frakklands. Þú knúsaðir mig, horfðir í augun á mér og sagðir „I love you inn í merg“. Hálfa leiðina til Keflavíkurflugvallar var ég meyr og svo smátt og smátt tók franska lífið við. Þetta hefur verið minn veruleiki alla tíð, löng tímabil í París án þín og svo þessar dýrmætu stundir á Íslandi heima hjá þér og með þér.

Ég fylgdist með þér vinna mikið, taka að þér stór verkefni, alltaf tilbúin að læra eitthvað nýtt. Ég sá þig berjast fyrir því sem þér fannst rétt, algjör baráttukona og leiðtogi, stolt og þrautseig. Ótrúlega félagslynd og áttir ævilöng og sterk sambönd við aðra. Ég er þakklát fyrir hvað þú varst mér mikil fyrirmynd og fyrir gildin sem þú innrættir mér, þau fylgja mér í lífinu. Báðar rísandi krabbar í steingeit, ég finn innst inni hvað við erum ofsalega líkar og hvað stór hluti af því hver ég er, kemur frá þér. Þú sagðir við mig „brostu við lífinu og lífið mun brosa við þér“.

Ég mun alla vega brosa til þín þar sem þú ert.

Anna Magdalena.

Elsku Magdalena amma – því þú varst Magdalena áður en þú varst amma og þér þótti mikilvægt að vera kölluð Magdalena amma en ekki amma Magdalena – það er skrýtið að hugsa til þess að geta ekki lengur kíkt við í tebolla og fengið heitar gerbollur sem þú áttir alltaf til og voru hálfgert einkennismerki þitt. Þú sagðir að þú gæfir ekki barnabörnunum sætindi og óhollustu, þú værir sko ekki þannig amma, en í staðinn bauðstu gæðastundir, hlýju og nóg af knúsum. Það var svo notalegt að sitja við eldhúsborðið þitt og spjalla um allt og ekkert og mér þótti ótrúlega dýrmætt að heyra frá lífi þínu og störfum en það kenndi mér svo margt um lífið og tilveruna og fyrir það verð ég alltaf þakklát.

Ein af fyrstu minningum mínum af þér er þegar við fórum saman í strætó – og þvílík ævintýraferð sem það var. Þú fórst nefnilega alltaf þínar eigin leiðir og kenndir mér að með þrautseigju er oftast hægt að komast á leiðarenda og ná markmiðum sínum. Sem barn leit ég upp til þín og fannst þú alltaf vera svo fín – með óaðfinnanlegar lakkaðar neglur, rúllur í hárinu og rauðan varalit – þó að eflaust sé það nú ákveðin glansmynd. Þannig ætla ég samt að minnast þín og reyna að tileinka mér að vera djörf, ákveðin og afdráttarlaus – eins þú varst. Það vekur upp ljúfar minningar að hugsa til þess þegar þú lakkaðir mínar neglur samhliða þínum og bauðst mér að fara í bað til þess að gera mig fína líka og straukst svo fæturna mínar til þess að hjálpa mér að sofna.

Í seinni tíð kynntist ég þér sem konunni sem barðist af eldmóði fyrir kvenréttindum og jafnrétti, konunni sem sem sat í stjórn kvenfélaga og sinnti alls kyns nefndarstörfum, konunni sem starfaði hjá Orkuveitunni og kenndi sér sjálf á tölvur, konunni sem var klár með tölur og sinnti gjaldkerastörfum fyrir húsfélagið, og svo ótal-, ótalmargt fleira. Í þér fann ég bæði fyrirmynd og góða vinkonu en í huga mér varst þú alltaf ímynd kvenskörungs sem lét ekkert stoppa sig og fékk sínu fram sem mér þykir svo aðdáunarvert. Minningin um þig hvetur mig þess að láta í mér heyra og taka pláss og það er sennilega besta veganestið sem þú gafst mér til þess að takast á við lífið.

Elsku Magdalena amma takk fyrir allar góðu stundirnar, minningarnar og lífslexíurnar. Takk fyrir alla tebollana og jólakjólana. Takk fyrir sögurnar sem þú sagðir mér fyrir svefninn og opinn faðminn. Takk fyrir barnabarnaboðin og desemberboðin sem einkenndust af heitu súkkulaði, pönnukökum og perutertu. Mest af öllu vil ég þó þakka þér fyrir hvað þú reyndist mér vel og sýndir mér alltaf mikla ást og hlýju.

Þórhildur Elfa.