Ólafur Guðlaugur Viktorsson fæddist 9. janúar 1949. Hann lést 25. ágúst 2021. Foreldrar hans voru Ólöf Anna Ólafsdóttir, fædd 1929, látin 2005 og Viktor Þorkelsson, fæddur 1923, látinn 1994. Systkini Ólafs voru: Steinar, fæddur 1952, Bergljót, fædd 1957, látin 2009, Hafsteinn, fæddur 1965.

Ólafur giftist eftirlifandi eiginkonu sinni Guðnýju Jóhönnu Tryggvadóttur 31. des. 1974. Dætur þeirra eru: Ólöf Guðrún Ólafsdóttir, fædd 4. des. 1977, sambýlismaður Michael Krogh Sørensen. Synir þeirra: Júlíus Aron, fæddur 2006, Magnús Þór, fæddur 2017 og Ásbjörn Atli, fæddur 2019. Anna Margrét Ólafsdóttir, fædd 11. júní 1982, gift Jóhanni Vilhjálmssyni. Börn þeirra: Jóhanna Guðrún, fædd 2009, Ólafur Bjarni, fæddur 2013 og Vilhjálmur Andrés, fæddur 2014.

Úför Ólafs fer fram frá Akureyrarkirkju 7. september 2021 og hefst athöfnin kl. 13.

Mig langar með nokkrum orðum að minnast Ólafs Guðlaugs Viktorssonar, eða Óla frænda eins og ég kallaði hann alltaf. Við vorum systkinasynir og þótt aldursmunurinn væri 14 ár á milli okkar var mikil vinátta okkar í milli. Það var langt á milli okkar, hann búandi á Akureyri og ég í Reykjavík og svo á Ísafirði. En samskiptin okkar voru í gegnum síma. Það var alltaf gaman að heyra í Óla, hann var hress í bragði og gat sagt mér sögur frá fyrri tíð úr fjölskyldunni og sagði oft skemmtilega frá og við gátum hlegið saman. Við hringdumst á nokkrum sinnum á ári og yfirleitt um áramót. Ekki má gleyma ófáum kosninganóttum sem við töluðum saman. Já hringingarnar á kosninganótt voru algengar enda ræddum við oft um stjórnmál. Við studdum nú ekki sömu flokka lengst af, ég kratinn en hann var meira til vinstri. En síðustu misseri vorum við að ná betur saman, hann var orðin hlynntari Evrópusamstarfi.

Þegar ég átti leið um Akureyri í gegnum árin kíkti ég í heimsókn til hans ef hann var í bænum. En aldrei lét Óli verða að því að koma til Ísafjarðar í heimsókn. Enda var hann nú ekki mikið fyrir að ferðast í sínum frítíma, hefur eflaust fengið nóg af því í sinni vinnu. Óli var heimakær, en hann sagði mér að sér þætti gaman að fá sitt fólk í heimsókn er það ætti leið um Akureyri.

Hann kom reyndar aldrei á Ísafjörð á sinni ævi, þrátt fyrir að vera ættaður þaðan. Hann sagði mér að hann átti að fara á Ísafjörð í sambandi við vinnu, en flugvélin sem hann var í varð að nauðlenda á leiðinni og aldrei varð neitt úr hans Ísafjarðarheimsókn.

Ég hef nú trú á því að við hittumst fyrir hinum megin.

Ég sendi Guðnýju, Guðrúnu Ólöfu, Önnu Margréti og fjölskyldum þeirra mínar innilegustu samúðarkveðjur. Megi góður guð vernda þær í sorg þeirra. Blessuð sé minning Óla frænda.

Gylfi Þór Gíslason.

Óli Viktors eins og hann var kallaður er látinn eftir erfiða baráttu. Þessi yfirvegaði og góði maður er farinn alltof snemma.

Vinkona okkar hjóna, Guðný Tryggvadóttir, e.t.v. væri réttara að segja besta vinkona konunnar minnar, raunar jafnaldra okkar beggja, tryggðatröll og alheil í gegn eins og sagt er, alla jafna í góðu skapi og húmoristi af lífi og sál. Og það var árið 1973 sem Guðný kom norður á Akureyri með kærastann Ólaf G. Viktorsson, þá búsettan í Reykjavík, en Siglfirðing að upplagi. Þau höfðu þá nýlokið námi.

Ólafur eða Óli eins og hann var ævinlega kallaður var þá rétt búinn að ljúka námi í rafeindavirkjun/símvirkjun og þau skötuhjú hann og Guðný settust að hér fyrir norðan og hann fór að vinna hjá Símanum við viðgerðir á útsendingarbúnaði og neyðarvöktun, sá um senda sjónvarpsins en Guðný sem kjólameistari.

Fljótt fóru gömlu vinkonurnar að hittast og kynntumst við Óli um leið, þ.e. fengum að fljóta með.

Þótt við Óli værum ekki líkir hvað varðar flest sem skilur milli feigs og ófeigs gátum við alveg dundað okkur við músík og vorum við ófeimnir við að þenja græjurnar; ELO, Supertramp, Queen, Boston, Pink Floyd, Backman Turner Overdrive og þess háttar bönd, já við vorum báðir rokkarar og spiluðum hátt og hressilega, ja vægast sagt mjög hátt.

Framan af átti ég stærri hátalarabox og stærri magnara en Óli og fann ég fljótt að honum fannst þetta frekar bölvað.

Og hann var ekki ánægður fyrr en hann bakaði mig í hvoru tveggja, bæði krafti og desíbelum, hann birtist þarna einn daginn með 250 W magnara og risahátalarabox og svo bauð hann okkur heim út í Skjaldarvík þar sem þau bjugga þá og við blöstu þessar líka svaka græjur, hann gjörsamlega eyddi „Kidda Gunn“ þannig að ég komst aldrei upp að hlið hans aftur í þessum brasa.

Óli var fremur lokaður persónuleiki en kurteis og sagði venjulega ekki mikið en vildi þó spjalla af og til; nr. 1 um bíla, nr. 2 um músík.

Einhver hefði sagt Óla vera dálítinn einfara, jafnvel frekar stressaðan og oft eins og órólegan, en hann lét mjög sjaldan á því bera, en átti það til að fara að ganga um gólf ef honum var farið að leiðast.

Samskipti okkar fjarlægðust ögn síðustu árin en við vorum engu að síður góðir vinir allt til enda.

Óli og Guðn ý eignuðust tvær yndislegar dætur sem búa erlendis, ég bið Guð að blessa fjölskyldu Óla Viktors og bið dætur þeirra, Ólöfu og Önnu Margréti, að passa upp á mömmuna sína og verða henni ljós til alls góðs.

Guð blessi minningu Óla Viktors.

Kristján Gunnarsson og Jóna Árnadóttir.