Valdimar Össurarson
Valdimar Össurarson
Eftir Valdimar Össurarson: "Ekkert „séríslenskt“ loftslag er yfir Íslandi. Stjórnvöld hafa brugðist stuðningi við íslenskar tæknilausnir á hnattrænum loftslagsvanda."

Ný skýrsla Loftslagsnefndar SÞ staðfestir geigvænlega þróun loftslagsmála og skýrir betur en áður áhrifin á lífríki jarðar og samfélagið. Flest heimsríki hafa mótað sér stefnu sem miðar að minni losun gróðurhúsalofttegunda. Þau byggja aðgerðir sínar á Parísarsamkomulaginu en vilja ganga lengra.

Allir vita að lausn vandans er tvíþætt: Annars vegar þarf að draga úr losun með þekktum úrræðum, t.d. með því að minnka losun frá samgöngum, byggð, landnotkun og atvinnurekstri. Hitt atriðið er jafn mikilvægt; að nýta og efla nýjar tæknilausnir sem stuðla að orkuskiptum; hverfa frá brennslu jarðefnaeldsneytis en taka í staðinn upp endurnýjanlega og „hreina“ orkuframleiðslu.

Íslensk stjórnvöld hafa einblínt á losunarþáttinn en látið sem tæknilausnir hreinorku komi þjóðinni ekki við. Ráðamenn eru óþreytandi að hampa þeirri staðreynd að hérlendis telst mestöll orkuframleiðsla vera með sjálfbærum hætti. Á sama tíma berja stjórnvöld niður allt íslenskt framtak til þróunar nýrrar tækni í orkuframleiðslu. Með því svíkja stjórnvöld Parísarsamkomulagið, sem segir í 10.grein að ríki skulu styðja tækniþróun til orkuskipta á heimsvísu þó hennar sé ekki brýn þörf í heimalandinu. Íslensk stjórnvöld líta framhjá mikilvægri staðreynd:

Ekkert „séríslenskt“ loftslag er yfir Íslandi. Stjórnvöld hafa brugðist stuðningi við íslenskar tæknilausnir á hnattrænum loftslagsvanda.

Í aðdraganda Parísarsamkomulagsins kölluðu íslensk stjórnvöld eftir tæknilausnum og hugmyndum. Ég hóf þá vinnu að þróun hverfils til nýtingar á sjávarfallastraumum. Ég setti markið hærra en aðrir þróunaraðilar, því mínir hverflar munu nýta algenga strauma við annes (1-2,5 m/sek) meðan skrúfuhverflar þurfa mun harðari straum sem er sjaldgæfari. Mínir hverflar verða meiri að umfangi, en einfaldleiki þeirra mun gera þá samkeppnisfæra um hagkvæmni; samkvæmt því sem prófanir benda til. Hér er um einstaka tækniþróun að ræða; og einstök tækifæri fyrir Íslendinga.

Engin stefna ríkir hérlendis um sjávarfallanýtingu og hafa stjórnvöld lagst gegn slíku, þrátt fyrir að sjávarorka sé stærsta orkuauðlind landsins; orka komandi kynslóða. Íslenskir samkeppnissjóðir tóku samt vel í þessa þróun í byrjun og fékk verkefnið í fyrstu stuðning Tækniþróunarsjóðs og Orkusjóðs. Þegar það var komið af stað hættu þessir sjóðir stuðningi sínum; þrátt fyrir að verkefnið væri á áætlun og hefði staðið undir öllum væntingum, og gott betur en það. Frá miðju sumri 2018 hefur verkefninu verið synjað um allan stuðning. Engin rök eru fyrir þessu háttalagi; ástæður sem gefnar eru fyrir synjunum eru ósamhljóða og órökstuddar og augljóst að þær byggja m.a. á fordómum og óeðlilegri hagsmunagæslu.

Stjórnvöld stofnuðu nýjan samkeppissjóð; Loftslagssjóð, sem ætlað var að styðja loftslagsúrræði. Sjóðurinn fæst hinsvegar einkum við að styrkja ýmislegt sem ekkert kemur að gagni við lausn loftslagsvandans og vill ekki styðja þessa nýju orkutækni. Loftslagssjóður stendur því hvorki undir nafni né nauðsynlegu hlutverki; hann er jafn gagnslaus og aðrir sjóðir Rannís í þessum efnum.

„Sjávarorka er stærsta vannýtta uppspretta jarðar af endurnýjanlegri orku“, segir í nýlegri skýrslu alþjóðasamtakanna REN21. Sjávarorka hefur marga kosti framyfir aðra orkukosti s.s. vindorku. T.d. má með öryggi spá fyrir um orku hvers staðar á hverjum tíma; engin sjón- eða hljóðmengun fylgir orkuframleiðslunni og lífríki stafar ekki hætta af henni. Fæst þróuð ríki eru jafn dofin og áhugalaus og íslensk stjórnvöld um þessa orkuauðlind framtíðar. Miklum og ört vaxandi fjármunum er víða varið til þróunar á þessu sviði; í fullvissu þess að sá sem fyrstur kemur fram með hagnýta lausn mun helst njóta þess ávinnings, ekki síður en Sádiarabía og Noregur hafa grætt á sinni olíu til þessa. Nú þegar er sjávarfallaorka keyrð inn á raforkunet víða um heim; alls yfir 527 MW og eykst á hverju ári. Sjávarorkutækni verður sífellt þróaðri og nærtækari möguleiki. Nú hafa Færeyingar tekið langt framúr Íslendingum, en fyrirtækið Minesto rekur sjávarfallavirkjanir til framleiðslu inn á þarlent raforkunet. Sunnan við okkur eru stórar virkjanir við skosku eyjarnar, og vestan Íslands eru stórvirkjanir í undirbúningi við Nova Scotia.

Eftir sitja Íslendingar, vegna skilnings- og aðgerðaleysis okkar stjórnvalda. Íslenskt hugvit og framtak er barið niður og hrakið úr landi, líkt og skuttogarinn sem er íslensk uppfinning.

Hérlendis er talin þörf á verulegri aukningu raforkuframleiðslu vegna orkuskipta í samgöngum. Viljum við framleiða þá orku með því að sökkva víðernum undir vatn eða reisa skrækjandi vindmylluskóga í óspilltri náttúru? Hví ekki að nýta orkuna í sjávarföllum landsins með aðferðum sem ekki skapa neinn umhverfisvanda?

Fram undan eru þingkosningar og skora ég á kjósendur að inna frambjóðendur og flokka eftir stefnu og úrræðum í málefnum sjávarorku.

Höfundur er frumkvöðull í sjávarorkutækni. valorka@simnet.is