Gísli Sigurðsson
Gísli Sigurðsson
Eftir Gísla Sigurðsson: "Misrétti kynjanna er raunverulegt og baráttan gegn því er háð á mörgum vígstöðvum."

Þorsteinn Sæmundsson brást skjótt við hér í Mogganum í gær til andmæla við tungutakspistli mínum frá því á laugardaginn. Það er misskilningur hjá Þorsteini að kvenréttindabarátta byggist á misskilningi. Misrétti kynjanna er raunverulegt og baráttan gegn því er háð á mörgum vígstöðvum. Hún byggist m.a. á því að afhjúpa hvernig misréttinu er viðhaldið með ýmsu sem er inngróið í menningu okkar, s.s. ofbeldishegðun, hrútskýringum og tungutaki. Þar er kynjanotkun tungumálsins ekki undanskilin. Þá er sérstakt að Þorsteinn skuli eiga von á að ég breyti þýðingu Biblíunnar; einkum er hann hissa að ég breyti ekki orðinu „falsspámenn“. Ekki er á mínu valdi að breyta Biblíunni þannig að Þorsteinn verður að snúa sér annað með þá bæn. Hann spyr hins vegar hvort ég telji að „konur tilheyri mannkyninu“. Ég vissi ekki að hægt væri að hafa skoðun á því – en það er á reiki hvort orðið „maður“ vísi alltaf í gjörvalla mannkindina eða bara í karlana. Í skáldsögunni „Maður og kona“ á orðið bara við karlana en í Hávamálum á það við okkur öll: „Maður er manns gaman.“ Þá segir Þorsteinn „hrósverð“ þau leiðu mistök sem urðu hér á blaðinu þegar júlípistli mínum var óvart breytt í samræmi við þá pólitísku réttlínuhugsun að nota karlkyn þegar vísað er í kynblandaðan hóp fólks. Sú breyting var að sjálfsögðu ekki í samræmi við ritstjórnarstefnu blaðsins eins og ég áréttaði sl. laugardag og sérstakt að Þorsteinn skuli hrósa slíkri skoðanahreinsun. Þorsteinn lýkur viðbrögðum sínum á að gera málfræðilega athugasemd við Biblíuna með tilvísun í málfræðinginn Björn Guðfinnsson. Enn og aftur biðst ég undan því að eiga aðild að því ágreiningsefni.

Höfundur er íslenskufræðingur. gislisi@hi.is