Hrósar sigri Zabihullah Mujahid, talsmaður talíbana, fagnaði sigri þeirra í Pansjír-dalnum í gær og varaði Afgana við því að rísa upp gegn talíbönum.
Hrósar sigri Zabihullah Mujahid, talsmaður talíbana, fagnaði sigri þeirra í Pansjír-dalnum í gær og varaði Afgana við því að rísa upp gegn talíbönum. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Talíbanar sögðust í gær hafa náð valdi á Pansjír-dalnum, síðasta vígi þeirra andspyrnuhreyfinga sem enn stóðu gegn yfirráðum þeirra í Afganistan.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Talíbanar sögðust í gær hafa náð valdi á Pansjír-dalnum, síðasta vígi þeirra andspyrnuhreyfinga sem enn stóðu gegn yfirráðum þeirra í Afganistan. Zabihullah Mujahid, helsti talsmaður talíbana, sagði að landið væri nú loksins laust úr „kviksyndi stríðsins“ og varaði við því að tekið yrði hart á frekari uppreisnum gegn yfirráðum þeirra.

Talíbanar birtu myndband á samfélagsmiðlum, þar sem sjá mátti hvítan fána hreyfingarinnar dreginn að húni við ríkisstjórabústaðinn í Pansjír-dalnum. Þá mátti einnig sjá táknrænar myndir og myndbönd af vígamönnum talíbana standa við andlitsmynd af Ahmad Shah Massoud, sem leiddi andspyrnuna gegn þeim á 10. áratug síðustu aldar, og var búið að eyðileggja myndina.

Segjast halda baráttunni áfram

Talsmenn andspyrnuhreyfingarinnar þvertóku hins vegar fyrir að talíbanar hefðu tekið dalinn, en viðurkenndu að sveitir þeirra hefðu orðið fyrir miklu mannfalli um helgina. Þar á meðal var einn af helstu herforingjum þeirra, Abdul Wudod Zara. Engu að síður héldu þeir því fram að vígamenn sínir væru enn reiðubúnir til átaka. Ahmad Massoud, sonur Ahmads Shah, kallaði í gær eftir því að Afganar innan sem utan Afganistans „risu upp“ gegn talíbönum.

Sagði Massoud í útvarpsávarpi að vígamenn sínir myndu standa með hverjum þeim sem vildi taka upp vopn gegn talíbönum, og með hverjum þeim sem vildi grípa til mótmæla.

Pansjír-dalurinn er 115 kílómetra langur, og hefur hann reynst nær óvinnandi vígi í átökum síðustu fjögurra áratuga í Afganistan. Dalurinn er umkringdur snæviþöktum fjöllum sem gefa þeim sem þar eru góða stöðu til þess að verjast.

Leyfa konum að fara í háskóla

Talíbanar eru nú í óðaönn að mynda nýja ríkisstjórn í Afganistan. Þeir hafa heitið því að stjórnarhættir sínir verði mildari en þeir voru á árunum 1996-2001, en þá voru réttindi kvenna skert til mikilla muna.

Menntamálaráðuneyti talíbana tilkynnti í gær að konum yrði nú leyft að sækja háskóla, með þeim skilyrðum að áfangar yrðu kynjaskiptir, eða í það minnsta að kennslustofum yrði skipt í tvennt með tjaldi.

Þá verður kvenkyns stúdentum gert að vera í kufli og með andlitsslæðu, niqab. Ekki verður hins vegar gerð krafa um að þær klæðist búrku, sem hylur allt andlitið.