Ari Freyr Skúlason, landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu, átti mjög áhugaverða innkomu í leik Íslands og Norður-Makedóníu í undankeppni HM á Laugardalsvelli á sunnudaginn síðasta. Vinstri bakvörðurinn kom inn á í stöðunni 0:2 á 66.
Ari Freyr Skúlason, landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu, átti mjög áhugaverða innkomu í leik Íslands og Norður-Makedóníu í undankeppni HM á Laugardalsvelli á sunnudaginn síðasta.

Vinstri bakvörðurinn kom inn á í stöðunni 0:2 á 66. mínútu fyrir Guðmund Þórarinsson og lét strax til sín taka. Tólf mínútum eftir að Ari kom inn á minnkaði Ísland muninn og á 84. mínútu jafnaði Andri Lucas Guðjohnsen metin í 2:2, eftir að títtnefndur Ari hafði unnið boltann í vörn íslenska liðsins.

Svo ég haldi nú áfram að vitna í viðtöl eftir sjálfan mig hér í Bakverði Morgunblaðsins þá tók ég áhugavert viðtal við Ara eftir 0:4-tap Íslands gegn Englandi á Wembley í Þjóðadeild UEFA í nóvember á síðasta ári.

„Það er eitt að spila einhvern fínan fótbolta með félagsliðinu sínu því það þýðir ekki að þú sért að fara að gera það með landsliðinu. Landsliðið snýst um vilja, dugnað og að vinna hver fyrir annan og það hefur haldið okkur gangandi undanfarin ár. Við erum með frábæra og hæfileikaríka leikmenn sem hafa unnið leiki fyrir okkur upp á sitt eindæmi en þeir hafa alltaf skilað sínu og unnið sína vinnu fyrir landsliðið,“ sagði Ari meðal annars í viðtalinu.

Þessi ummæli rifjuðust upp fyrir mér með innkomu Ara enda var hann afar duglegur að bæði öskra og hvetja liðsfélaga sína áfram eftir að hann kom inn á. Þá kom ákveðin trú inn í liðið með innkomu hans, þessi sama trú og hefur fylgt liðinu á tvö stórmót.

Núna er ákveðin endurnýjun í gangi og hún mun klárlega taka einhvern tíma og eflaust lengri tíma en fólk þorði að gera sér grein fyrir. Leikmenn eins og Ari Freyr Skúlason verða áfram mikilvægir hlekkir í þessari endurnýjun því við þurfum einfaldlega leikmenn sem vita fyrir hvað íslenska landsliðið stendur á meðan reynsluminni leikmenn eru að fóta sig á stærsta sviðinu.