Spjall Katrín Jakobsdóttir, Stefán E. Stefánsson og Andrés Magnússon rýna í niðurstöður nýjustu könnunar MMR sem birt var í Morgunblaðinu á mánudag. Mælist flokkur Katrínar með 7 þingmenn en hlaut 11 fyrir fjórum árum.
Spjall Katrín Jakobsdóttir, Stefán E. Stefánsson og Andrés Magnússon rýna í niðurstöður nýjustu könnunar MMR sem birt var í Morgunblaðinu á mánudag. Mælist flokkur Katrínar með 7 þingmenn en hlaut 11 fyrir fjórum árum. — Morgunblaðið/Eggert
Í fyrramálið birtist fyrsta viðtalið af níu í þættinum Dagmálum sem tekin eru við forystumenn þeirra stjórnmálaflokka sem tilkynnt hafa framboðslista í öllum kjördæmum.

Í fyrramálið birtist fyrsta viðtalið af níu í þættinum Dagmálum sem tekin eru við forystumenn þeirra stjórnmálaflokka sem tilkynnt hafa framboðslista í öllum kjördæmum.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og forsætisráðherra, er fyrsti viðmælandi þeirra Andrésar Magnússonar og Stefáns Einars Stefánssonar en þeir munu í sameiningu ræða við leiðtogana hvern í sínu lagi. Sama dag og viðtölin birtast á mbl.is er birtur útdráttur úr þeim á síðum Morgunblaðsins.

Dagmál eru streymisþáttur á mbl.is sem opinn hefur verið áskrifendum Morgunblaðsins frá því þeir hófu göngu sína í mars síðastliðnum. Þættirnir, sem hver rekur annan fram að kosningum, verða hins vegar opnir öllum notendum mbl.is og er það gert í kynningarskyni á þáttagerðinni undir merkjum Dagmála. Hefur hún mælst afar vel fyrir meðal áskrifenda og í þessari viku lítur 150. þátturinn dagsins ljós.

Farið í saumana á helstu málum

Í viðtölunum við forystufólk flokkanna er áhersla lögð á að fara ofan í saumana á stefnumálum sem kynnt hafa verið kjósendum og einnig gerð tilraun til þess að varpa skýru ljósi á afstöðu þeirra til stórra álitaefna sem uppi eru og móta munu stjórnmálin á komandi árum. Má þar nefna heilbrigðismál, umhverfismál og ekki síst hvernig flokkarnir sjá fyrir sér að fjármagna rekstur ríkissjóðs sem enn er rekinn með talsverðum halla.

Í kosningavikunni verður forystufólkið einnig boðað í kappræður sín á milli og munu þær umræður einnig eiga sér stað undir merkjum Dagmála. Sá háttur verður hafður á að hópnum verður skipt í tvennt og verða því kappræðurnar birtar í tvennu lagi. Er það gert til þess að gefa hverjum og einum flokki svigrúm til þess að koma skilmerkilega á framfæri stefnumálum sínum og áherslum en einnig gagnrýni á stefnumið þeirra sem etja við þá kappi.