Ágúst Ingi Rossen fæddist á Akranesi 19. janúar 1997. Hann lést á Odense Universitetshospital í Danmörku hinn 7. ágúst 2021. Foreldrar hans eru Marteinn Steen Rossen, f. 14. nóvember 1973, og Ásta Laufey Ágústsdóttir, f. 16. mars 1976. Ágúst Ingi var annar í röðinni af fjórum systkinum, þau eru Aldís Ýr Rossen, f. 21. október 1994, í sambandi með Hrannari Hallgrímssyni, f. 31. maí 1987. Dóttir Aldísar er Harpa Dögg Rossen, f. 24. júní 2013; Eigil Ernir Rossen, f. 13. júní 2002; og Tinna Rut Rossen, f. 20. april 2004.

Ágúst bjó á Akranesi til níu ára aldurs. Fjölskyldan flutti þá til Danmerkur þar sem Ágúst lauk grunnskóla og stúdentsprófi og stefndi á framhaldsnám.

Haldin var minningarathöfn í heimabæ hans í Danmörku hinn 17. ágúst sl.

Útför hans fer fram frá Akraneskirkju 7. september 2021 klukkan 13.

Að vera foreldri er mikilvægasta hlutverk sem okkur er úthlutað í þessu lífi, ég er óendanlega þakklát fyrir það hlutverk. Á sama tíma sé ég ekki sanngirni í því að sitja hér og reyna að finna orð yfir það sem engin orð ná yfir. Að missa barnið sitt fylgir engin uppskrift eða hvernig við sem eftir sitjum eigum að finna fótfestu aftur. Þú kvaddir þennan heim snöggt og óvænt eftir hjartastopp þann 7. ágúst. Í sömu andrá varð okkar versti ótti sem foreldrar að veruleika. Við sveiflumst nú í vanmætti á milli sorgar og örvæntingar og þess að minnast þín með gleði og þakklæti fyrir þann tíma sem við fengum saman.

Daginn sem ég fékk þig fyrst í fangið var yndislegt upphaf á nýrri tilveru í stóru hlutverki. Dagurinn sem þú kvaddir þennan heim var erfiðasta upphaf á nýrri tilveru með óendanlega erfiðu verkefni. Ég vildi gjarnan vera laus við þetta nýja verkefni, ég er hræddari við það en þegar ég fékk það hlutverk að vera mamma þín. 24 ár eru ekki langur tími, eins og þínir jafnaldrar og vinir áttir þú framtíðina fyrir þér með mörg plön og framtíðaráætlanir.

Þú varst sá af ykkur systkinunum sem hefur oftast haldið okkur foreldrunum á tánum. Ég hef alltaf sagt að þú sért okkar útgáfa af Emil í Kattholti. Lítill glókollur með hjarta úr gulli sem vill öllum vel en kemur sér oftar en ekki í vandræði með uppátækjum sínum. Óréttlæti var það versta sem þú vissir og varð oft grundvöllur fyrir heitum umræðum og rökræðum sem var eins og íþrótt fyrir þér.

Á þessari stundu velti ég fyrir mér tilgangi lífsins og trú. Fyrir stuttu sátum við fram á nótt og ræddum lífið og tilveruna, þ.ám. trúna. Glottandi með blik í auga sagðir þú: „Mamma, þú veist það er þér að kenna að ég trúi ekki á Guð. Þú sagðir að það væri alltaf hægt að biðja til guðs og að hann heyrði bænirnar okkar – ég bað kvöld eftir kvöld eins fallega og ég gat um dót sem mig langaði svo í og sagði meira að segja hvar það væri hægt að kaupa það. Dótið kom aldrei og þá hætti ég bara að trúa á þennan kall, hann var ekkert til.“ Þetta lýsir svo vel hversu bókstafleg töluð orð voru í þínum heimi þegar þú varst yngri. Á þessum árum enduðu líka allar þínar bænir á „að eilífu afi“ því þetta „amen“ hafði enga þýðingu.

Ég hugsa með trega til okkar síðustu samverustundar þegar ég skutlaði þér til vina þinna brosandi og kátum. „The passenger“ með Iggy Pop glumdi í hátölurunum og nú sit ég og velti fyrir mér hvort þú hafir haft hlutverk farþegans í þessu lífi og hvert okkar ferðalagi er heitið. Lagið hljómaði líka í huga mér í fluginu og síðustu ferð okkar yfir hafið. Ég sat með þig í fanginu/duftkerið við gluggann og grét. Textinn segir: „He looks through the window, what does he see? He sees the silent hollow sky; he sees the stars come out tonight“ (Hann horfir út um gluggan, hvað er það sem hann sér? Hann sér þöglan og auðan himin; hann sér/horfir á stjörnurnar birtast í nótt).

Ég veit þú fylgist með og heyrir í okkur. Það sem við grátum í dag eru minningar sem framkalla bros og hlýju í framtíðinni. „Love you mom“ var það síðasta sem þú sagðir við mig, ég gæfi mikið fyrir að heyra þig segja þetta aftur.

Við sjáumst í sumarlandinu, ástin mín. Þín

mamma.

Elsku Ágúst okkar.

Þú ert svo innilega elskaður og þín er svo sárt saknað.

Þú ert alltaf í huga okkar, í hjarta geymdur en aldrei gleymdur.

Ég aldrei hef lofað að brautin sé bein,

né blómstígar gullskrýddir alla leið heim.

Ég get ekki lofað þér gleði án

sorgar,

á göngu til himinsins helgu borgar.

En ég hefi lofað þér aðstoð og styrk,

og alltaf þér birtu þó leiðin sé myrk.

Mitt ljúfasta barn ég lofað þér hef,

að leiða þig sjálfur hvert einasta skref.

(Höf. ókunnur.)

Ástarkveðjur

Mamma, pabbi, Aldís, Eigil, Tinna og Harpa.

Elsku drengurinn okkar. Við þökkum fyrir samfylgdina, sem var allt of stutt, og allar minningarnar sem ylja okkur um ókomna tíð.

Við minnumst hins fallega bross þíns og söknum hlýja faðmlagsins og góðu stundanna með þér.

Glókollur

Sofðu nú sonur minn kær,

senn kemur nótt.

Úti hinn blíðasti blær,

bærist svo hljótt.

Út í hið kyrrláta kvöld,

kveð ég minn óð,

sem fléttast við öldunnar

fegurstu ljóð.

Í svefnhöfgans sætleika inn,

svífi þín önd.

Gæti þín glókollur minn,

guðs milda hönd.

Dýrlegum draumheimi' í

dvel þú um stund,

uns morgunsól blíðlega brosir

mót blómstrandi grund.

(Birgir Marinósson)

Við vitum að þú tekur á móti okkur í sumarlandinu, sjáumst seinna elsku glókollurinn okkar.

Amma og afi á Esjó,

Ingibjörg Sigurþórsdóttir og Ágúst Ingi Eyjólfsson.

Elsku yndislegi Ágúst Ingi, orð fá því ekki lýst hvað hjörtu okkar eru brotin af sorg. Hugsunin um það að við fáum ekki að sjá þig aftur, faðma þig að okkur og njóta lífsins með þér er óbærileg. Við erum svo heppin að hafa fengið að hafa þig í lífi okkar, öll gleðin sem fylgdi þér. Þú varst alltaf svo yndislegur, fjörugur og uppátækjasamur.

Við frændurnir áttum það til að hafa líf og fjör í kringum okkur og urðu prakkarastrikin ófá. Héldum öllum í kringum okkur á tánum og áttum það til að gera systur okkar og frænkur frekar pirraðar á okkur. Það voru þó allir frekar fljótir að jafna sig á því. Allur sá tími sem við frændur gátum eytt í bílskúrnum hans afa á Esjó. Það voru ófá vopnin sem voru smíðuð, svo hlupum við með þau út um allt Akranes og á eftir vinum okkar að slást við þá. Þegar við gistum saman hjá ömmu og afa fengum við tveir oftar en ekki að labba saman út á Bónusvídeó að leigja okkur vídeóspólu og kaupa okkur nammi, tíminn sem fór í það að velja mynd og kaupa nammi gat oft verið nokkuð langur. Eftir að þið fjölskyldan fluttuð út til Danmerkur kom ég ekki nema þrisvar til ykkar, minningarnar um þær ferðir eru hinsvegar nokkuð margar. Við fórum saman í Legoland sem var æðislegt, sérstaklega þegar við fórum á skólatíma og það voru engar raðir í nein tæki og fórum við í sama tækið tíu sinnum í röð. Þegar þú náðir að plata mig í eitt tækið þar sem maður velur sjálfur hvað það gerir, þú valdir einungis það að láta tækið snúast á hvolf og stilltir það á hraðasta snúning, mér fannst það æðislegt og þér fannst það alveg hrikalega fyndið.

Sólargeislinn minn, það sem ég var ánægð með „litla frænda“, litla Emil í Kattholti. Sama hversu gamall þú varst orðinn og þó að þú værir orðinn helmingi stærri en ég varstu alltaf litli frændi í mínum huga. Faðmlögin þín voru svo notaleg, skipti ekki máli hversu fullorðinn þú varst, þú komst alltaf hlaupandi á móti manni með þín hlýju faðmlög sem gleymast aldrei. Það sem þú gast verið pirrandi en það var þó ekki lengi í einu, þið frændur áttuð það til að koma og eyðileggja allt sem við frænkurnar voru að leika. Ég vildi að þú gætir séð hann Eggert Elís litla frænda þinn núna, hann á það til að minna mig svo á þig „Emil í Kattholti“, prakkarasvipurinn sem hann setur upp rétt áður eða eftir að prakkarastrikin hafa verið gerð þá sé ég bara þig í honum. Er nokkuð viss um að þú værir stoltur af honum frænda þínum.

Við erum svo þakklát fyrir allan þann tíma sem við fengum með þér, þó svo að langt hafi verið á milli okkar síðustu árin þá gleymum við ekki þeim tíma sem við áttum með þér, elsku Ágúst okkar.

Elsku Ásta, Matti og fjölskylda, við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Góða nótt minn litli ljúfur,

mitt ljósið bjarta,

líf mitt hefur öðlast tilgang með þér.

Þú átt sömu þrána í þínu hjarta,

þrána sem um eilífð mun fylgja mér.

(Jóhanna G. Erlingsson)

Auður Ósk Sigurþórsdóttir og Sæmundur

Sigurþórsson.

Laugardagurinn 7. ágúst er dagur sem ég gleymi aldrei.

Þann dag fengum við fjölskyldan þær fregnir að yndislegur 24 ára systursonur minn hefði farið í hjartastopp og þrátt fyrir að öll viðbrögð og aðstæður hafi verið þannig að hann hefði ekki átt að deyja þá gerðist það samt. Síðustu vikur hef ég virkilega verið að reyna að átta mig á að þetta hafi bara í alvöru gerst. Mér finnst þetta allt svo óraunverulegt.

Ágúst Ingi var rosalega skemmtilegur strákur með ljóst hár, blá augu og risa spékoppa þegar hann brosti. Hann var verulega stríðinn en vildi ekki særa neinn. Hann var vinur vina sinna og var tilbúin að vaða eld og brennistein fyrir ástvini sína.

Hann byrjaði snemma að púkast og skildi ekki þetta „föss“ í okkur fullorðna fólkinu þegar við vorum eitthvað að reyna að segja honum til eða skammast í honum. Besta dæmið um það er þegar við systur bjuggum hlið við hlið á Garðabrautinni. Hann þá fjögurra ára átti að vera í næturpössun hjá frænku sinni, en snemma um morguninn vakna ég og Ágúst er horfinn, ég leita og finn hann hvergi en þá hafði hann bara laumað sér heim til sín af því að hann vildi sofa í sínu rúmi. Og það var næg ástæða fyrir hann. Hann var okkar Emil í Kattholti, bæði hvað varðar útlitið og uppátækin.

Ég sé hann alveg fyrir mér með stríðnisbrosið og tilbúin í rökræður um alla heimsins hluti. Ég er samt ekki viss um hvað hann myndi segja við því sem frænkan hans er að hugsa núna. En engu að síður veit ég að hann hefði verið meira en til í að taka umræðuna við mig.

Þegar þau fjölskyldan fluttu til Danmerkur árið 2006 var hann fljótur að finna sig bæði hvað varðar tungumálið, vini og skóla. Hann kláraði grunnskólann í Tistrup og svo stúdentinn í Esbjerg og var kominn með plön um næstu skref, en örlögin höfðu einhver önnur plön.

Ég skil ekki alveg hvaða plön það gætu mögulega verið en ég veit þó að ég er þakklát fyrir að eiga margar góðar minningar um hann, þær hjálpa.

Alltaf talaði hann um að Akranes væri „heima“ og nú er hann kominn heim.

Ávallt elskaður, aldrei gleymdur.

Inga Maren Ágústsdóttir.

Lítill drengur ljós og fagur, stríðinn, glettinn, alltaf brosandi, eins og lítill Emil í Kattholti.

Þannig eru mín fyrstu kynni af þér, elsku Ágúst minn.

Eftir að þið fjölskyldan fluttuð til Danmerkur fylgdist ég með þér í gegnum mömmu þína og hitti þig að sjálfsögðu þegar ég kom í heimsókn.

Alltaf varstu jafn ljúfur og fallegur eins og þegar ég hitti þig fyrst.

Líka þegar þú komst í heimsókn til vina þinna og fjölskyldu á Íslandi og ég hitti þig á förnum vegi, þá gastu kallað og veifað úr langri fjarlægð, brosmildur og einlægur í kveðju þinni til vinkonu mömmu þinnar.

Ég vil trúa því að þér sé ætlað stórt verkefni í sumarlandinu fyrst þú ert tekinn svona snemma frá fjölskyldu þinni og vinum.

Verkefni sem réttsýnn, brosmildur glókollur getur einn tekið að sér.

Elsku Ásta mín og Matti, Aldís og Harpa, Eigil, Tinna, Inga amma og Gústi afi, Erna amma og Eigil afi og aðrir ástvinir, æðri máttur gefi ykkur styrk í harmi ykkar. Minningin um yndislegan dreng lifir með okkur.

Elsku Ágúst, þar til seinna.

Kveðja,

Sonja.

Aldrei hefur manni fundist lífið jafn ósanngjarnt og akkúrat núna. Þrátt fyrir það verðum við að minna okkur á að þakka fyrir allar þær stundir sem við áttum í gegnum árin og hversu mikil forréttindi það voru að fá að eiga í honum „bróður“ og traustan vin.

Öll fíflalætin og þau einlægu samtöl sem við frændsystkinin áttum saman skildu alltaf mikið eftir sig. Eftir á að hyggja finnst manni svolítið eins og heimurinn hafi verið að segja manni að kunna að meta það og njóta þess á meðan við gátum.

Það er stórt skarð í „systkinahópnum“ sem mun alltaf minna okkur á þennan frábæra, ljúfa og stríðna dreng sem hefði átt að fá að verða samferða okkur svo miklu lengur.

Við vitum nú samt að Ágúst mun halda áfram að verða samferða okkur systrum frá öðrum stað, halda áfram að gera grín að okkur og ranghvolfa svo augunum þegar við verðum of mjúkar.

Inga Helga og Linda María.