Hvíta-Rússland Maria Kolesnikova myndaði hjarta með höndunum í gær til að sýna baráttuhug sinn.
Hvíta-Rússland Maria Kolesnikova myndaði hjarta með höndunum í gær til að sýna baráttuhug sinn. — AFP
Maria Kolesnikova, einn af leiðtogum mótmælanna í fyrra gegn Alexander Lúkasjenkó, forseta Hvíta-Rússlands, hlaut í gær ellefu ára fangelsisdóm fyrir þátttöku sína í skipulagningu mótmælanna. Annar sakborningur, Maxim Znak, hlaut tíu ára dóm.

Maria Kolesnikova, einn af leiðtogum mótmælanna í fyrra gegn Alexander Lúkasjenkó, forseta Hvíta-Rússlands, hlaut í gær ellefu ára fangelsisdóm fyrir þátttöku sína í skipulagningu mótmælanna. Annar sakborningur, Maxim Znak, hlaut tíu ára dóm.

Þau voru sökuð um að hafa ógnað þjóðaröryggi Hvíta-Rússlands og reynt að sölsa undir sig völdin með mótmælunum, en þau spruttu upp eftir að Lúkasjenkó lýsti yfir sigri í umdeildum forsetakosningum í fyrra.

Vesturveldin fordæmdu fangelsisdómana í gær einum rómi. Evrópusambandið lýsti því yfir að dómurinn yfir tvímenningunum væri „gróf vanvirðing“ við mannréttindi þeirra, og bresk stjórnvöld sögðu ákvörðun dómsins vera „árás á verjendur lýðræðisins.“

Bandaríska utanríkisráðuneytið sagði fangelsisdómana sýna að stjórn Lúkasjenkós bæri enga virðingu fyrir frelsi og mannréttindum Hvít-Rússa.

Kolesnikova, sem eitt sinn spilaði á flautu í fílharmóníuhljómsveit Hvíta-Rússlands, var einn af þremur helstu skipuleggjendum mótmælanna í fyrra ásamt Svetlönu Tikhanovskaya, forsetaframbjóðanda stjórnarandstöðunnar, og Veroniku Tsepkalo, en þær tvær flúðu báðar land í fyrra þegar Lúkasjenkó lét berja niður mótmælin.

Útsendarar KGB, hvítrússnesku leyniþjónustunnar, reyndu að vísa Kolesnikovu úr landi í september í fyrra með því að ræna henni á götu úti og keyra að landamærum Úkraínu. Reif hún vegabréf sitt til þess að koma í veg fyrir brottvísun sína.

Tikhanovskaya sagði í gær að Kolesnikova og Znak væru þjóðhetjur og hrósaði þeim fyrir að hafa ekki látið bugast.