Símon Vestarr
Símon Vestarr
Eftir Símon Vestarr: "Eigum við að kjósa ráðamenn sem skella skollaeyrum við skoðunum almennings við hvert einasta tækifæri til að gera vini sína og auðugri?"

Mig langar að tala við þig um frelsi, kæri lesandi. Þetta orð sem birtist á strætóskýlum undir brosi Áslaugar Örnu og bláu Déi. Líkurnar á því að þú komir úr sömu pólitísku átt og ég – kommaskratti úr Breiðholtinu – eru kannski ekki miklar en mér finnst kominn tími til að fólk komi upp úr skotgröfunum sínum annað slagið og ræði grundvallaratriði sem fólk frekar en sem flokksdýr. Eitt af þeim er, sem fyrr segir, frelsi. Ég held við munum komast að því að við eigum fleira sameiginlegt en virðist í fyrstu.

Lýðræðishugsjónin er í grunninn mjög einföld – sú meginregla að fólk hafi burðina og réttinn til að haga sínum málum eftir eigin höfði. Þetta byggir á því trausti að almenningur hafi vit á því hvernig stjórna eigi landinu og að þjóðarviljinn skipti höfuðmáli í stefnumörkun. Okkur sem viljum láta kjósa okkur ber því skylda til að taka mið af almenningsálitinu en sum okkar eru orðin svo samdauna forréttindastöðu okkar að svoleiðis hlutir skipta okkur ekki máli lengur. Annað hvort það eða við höldum bara að við vitum allt betur en fólkið í landinu. Fjármálaráðherra er eitt alversta dæmið um slíkan aðalshroka.

Þegar við reynum að meta hvers virði þetta „frelsi“ er sem Bjarni og félagar eru að bjóða okkur upp á er best að miða við hversu ötull fjármálaráðherrann hefur verið við að taka mark á almenningsálitinu. Við nánari skoðun kemur í ljós að innlegg okkar þykir oftast alsendis óþarft í ljósi vitsmunalegra yfirburða fjármálaráðherra.

Almenningur vill meira fé til Landspítalans en Bjarni veit betur. Almenningur hafnar einkarekstri í heilbrigðiskerfinu en Bjarni veit betur. Almenningur er andvígur sölu bankanna en Bjarni veit betur. Almenningur vill að hin ríku greiði hærri skatta en Bjarni veit betur.

Þetta er sem sé allt frelsið: Frelsi til að láta selja undan okkur ríkiseigur án okkar samþykkis og frelsi til að hlífa eignastéttinni við þeim skattbyrðum sem við viljum að hún taki á sig til að létta á okkur hinum. Bjarna Benediktssyni gæti ekki verið meira sama um það hvað þjóðin vill og í hans meðförum er orðið frelsi innantómt áróðursverkfæri.

Ísland er að sönnu land tækifæranna. Hér fá hrægammasjóðir og áhættufjárfestar tækifæri til að braska með það sem hinn almenna launamanneskja treystir mest á; húsnæði (og innan skamms heilbrigðisþjónustu og menntun líka ef Sjálfstæðisflokkurinn fær sínu fram). Hér fá fyrirtæki eins og Samherji tækifæri til að koma kvótanum út úr bæjarfélögum á landsbyggðinni og stunda arðrán sitt óáreitt árum saman innan og utan landsteinanna án þess að stjórnvöld standi upp af sófanum til að gera nokkurn skapaðan hlut í því. Jú, reyndar hringdi ráðherra í Þorstein Má til að sjá hvernig hann hefði það þegar upp komst um Namibíuævintýrið.

Hvaða tækifæri standa eignalausu launafólki til boða? Að fara inn á uppsprengdan húsnæðis- eða húsaleigumarkað með okurlán á bakinu og vona það besta? Að kjósa alltaf þá sem ljúga því að okkur að við séum frjáls á meðan þeir moka í hirslur forríkra vina sinna úr sameiginlegum auðlindum okkar? Nei, lesandi góður. Ef þú ert launamanneskja eða með sjálfstæðan rekstur í smærri kantinum þá er Bjarni ekki með þér í liði og var það aldrei. Ég held þú vitir það jafnvel og ég. Besta leiðin til að vekja hann og alla hina hrokagikkina til meðvitundar er að kjósa okkur sósíalistana. Ég skora á þig að gera það einu sinni. Ef nógu margir gera það líður ekki á löngu uns Bjarni fer að hunskast til að hlusta aðeins betur á þjóðina.

Þá verður það reyndar kannski um seinan fyrir hann.

Höfundur er í öðru sæti á lista Sósíalistaflokks Íslands í Reykjavík suður. simonhjalta@gmail.com

Höf.: Símon Vestarr