Birgir Guðmundsson
Birgir Guðmundsson
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Nýta skal hnattræna strauma í búferlaflutningum til borganna til eflingar sjálfbærri byggð úti um land á Íslandi. Samkvæmt því ber að skilgreina Akureyri og nærliggjandi svæði sem annað borgarsvæði, það er til viðbótar við höfuðborgarsvæðið. Þetta er tillaga starfshóps á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sem í gær skilaði honum skýrslu sem ber yfirskriftina Svæðisbundið hlutverk Akureyrar.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Nýta skal hnattræna strauma í búferlaflutningum til borganna til eflingar sjálfbærri byggð úti um land á Íslandi. Samkvæmt því ber að skilgreina Akureyri og nærliggjandi svæði sem annað borgarsvæði, það er til viðbótar við höfuðborgarsvæðið. Þetta er tillaga starfshóps á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sem í gær skilaði honum skýrslu sem ber yfirskriftina Svæðisbundið hlutverk Akureyrar.

Bryddað er upp á ýmsu í tillögum starfshópsins sem Birgir Guðmundsson, prófessor við HA, fór fyrir. Aðaltillagan er sú að Akureyri verði í byggðastefnu stjórnvalda flokkuð sem svæðisborg með ábyrgð og skyldur sem þjóni íbúum og atvinnulífi norðanlands og eftir atvikum á landsvísu. Akureyri verði sérstakt byggðastig milli höfuðborgarinnar og stærri þéttbýliskjarna úti um land og fái því aukið vægi í samskiptum við ríkisvaldið. Aðrar þær tillögur sem settar eru fram má segja að séu sprottnar af hugmyndinni um svæðisborg. Ein er sú að reglulegt millilandaflug fari í fastan farveg sem fyrst, önnur að ágreiningur um flutningsleiðir raforku inn á Eyjafjarðarsvæði verði leystur svo næg orka til atvinnuuppbyggingar á svæðinu verði fyrir hendi. Einnig að menningarstarfi, skólum og norðurslóðaverkefnum verði tryggðar auknar fjárvetingar og Sjúkrahúsið á Akureyri verði skilgreint sem háskólasjúkrahús. Sömuleiðis er lagt til að stjórnsýsla ríkisins verði efld á Akureyrarsvæðinu og skoðað verði að staðsetja nýja starfsemi á vegum ríkisins þar.

Í skýrslu og tillögugerðum er byggt á ýmsu fræðilegu efni, sem að stórum hluta var unnið af Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri auk þess sem sérfræðingar ýmissa stofnana lögðu í púkkið.

Áhugaverðum valkostum fjölgar

„Ég tel að nálgun á byggðamálin sé mjög fersk, þótt hún standi á gömlum merg,“ segir Birgir Guðmundsson. „Stóra málið er að nýta sér og stýra hreyfiöflum sem hafa verið í gangi í vestrænum þjóðfélögum frekar en að reyna að vinna gegn þeim. Í stað þess að hafa áhyggjur af því að byggð þjappist saman í borgarsamfélag á suðvesturhorninu er einfaldlega lagt til að borgarsamfélag hér fyrir norðan sé eflt og þannig slegnar margar flugur í einu höggi. Byggð dreifist um landið, áhugaverðum valkostum í borgum fjölgar og samkeppisstaða Íslands gagnvart útlöndum styrkist þegar fólk hefur val milli tveggja ólíkra borgarsamfélaga. Það má eiginlega segja að þetta steinliggi.“