[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Fjármála- og efnahagsráðherra hefur skilað til Alþingis skýrslum sem Þorgerður K. Gunnarsdóttir og fleiri alþingismenn óskuðu eftir um annars vegar stöðu lífeyrissjóða í hagkerfinu og hins vegar um lántökur ríkissjóðs á næstu árum.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur skilað til Alþingis skýrslum sem Þorgerður K. Gunnarsdóttir og fleiri alþingismenn óskuðu eftir um annars vegar stöðu lífeyrissjóða í hagkerfinu og hins vegar um lántökur ríkissjóðs á næstu árum.

Már Guðmundsson, hagfræðingur og fyrrverandi seðlabankastjóri (2009-2019), vann skýrsluna um stöðu lífeyrissjóða í hagkerfinu.

Már fjallar meðal annars um erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða.

Á árunum 2017-2019 hafi kaup á gjaldeyri numið 7-9% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar af sölu vöru og þjónustu en fallið niður í 5,5% 2020.

Hlutdeild erlendra eigna sjóðanna hafi aukist frá afnámi hafta og hafi verið komin í 34% í lok júní.

Aðrir þættir skýri veikingu

„Veiking krónunnar á þessum árum á sér að mestu aðrar skýringar, fyrst og fremst aðlögun eftir mikla styrkingu á árunum áður og áföll í ferðaþjónustu, fyrst fall WOW og síðan kórónuveirukreppan. Tölurnar staðfesta það sem hafði orðið vart við á fyrri tíð að sjóðirnir hafa tilhneigingu til að draga úr erlendum fjárfestingum þegar gengi krónunnar veikist umtalsvert. Vaxandi hlutdeild erlendra eigna lífeyrissjóða þarf því ekki að vera uppskrift á skaðlegan gengisóstöðugleika,“ skrifar Már og bendir á að það sé hlutverk Seðlabankans að vaka yfir fjármálastöðugleika.

Már skrifar að erlend fjárfesting sjóðanna geti stuðlað að áhættudreifingu og þannig haft jákvæð þjóðhagsleg áhrif. Hún sé hins vegar engin allsherjarlausn og henni geti fylgt áhætta, þar með talið gjaldmiðlaáhætta fyrir sjóðfélaga.

Færir Már rök fyrir nauðsyn þess að þróað verði líkan um „flókið samspil lífeyrissjóðanna og þjóðhagslegra þátta“. „Hér með er því sett fram sú ábending að slíkt líkan verði smíðað í samvinnu stjórnvalda og Landssamtaka lífeyrissjóða og það verði síðan notað af báðum aðilum sem hjálpartæki við stefnumótun,“ skrifar Már jafnframt.

Þá telur Már vísbendingar um að 50% þak á gjaldmiðlaáhættu hamli erlendum fjárfestingum sjóðanna – þegar hlutfallið sé komið vel yfir 40% leggi sjóðirnir ekki í að fara hærra „af ótta við að lækkun á gengi krónunnar geti fleytt þeim yfir 50% markið og þeir verði því brotlegir gegn reglum“. Afleiðingin sé að erlendar fjárfestingar sjóðanna verði minni en heppilegt sé út frá sjónarmiðum um áhættudreifingu og þjóðhagslegt jafnvægi. Því beri að skoða að hækka þessi mörk eða afnema þau samhliða reglubreytingum.

Breytir ekki heildarmyndinni

Skýrsluhöfundur var jafnframt beðinn um að meta hversu mikið lífeyrissjóðir geti átt af skuldum ríkissjóðs án þess að hætta verði á að söfnunarkerfi lífeyrisréttinda breytist í raun í gegnumstreymiskerfi.

„Núverandi hlutdeild opinberra skulda í eignum íslenskra lífeyrissjóða er ekki það veruleg í þjóðhagslegu samhengi að hún breyti í grundvallaratriðum söfnunareðli meginstoðar lífeyriskerfisins,“ skrifar Már en sjóðirnir hafa lánað ríkissjóði fé í kórónukreppunni.

Analytica vann hina skýrsluna sem fjallar um lántökur ríkissjóðs á næstu árum. Fór Yngvi Harðarson hagfræðingur fyrir skýrslugerðinni en greiningin er gerð á forsendum fjármálaáætlunar 2022-2026.

Nettólántaka 989 milljarðar

Fram kemur í skýrslunni að fjármögnunarþörf ríkissjóðs nemi samtals rúmum 1.700 milljörðum króna á tímabilinu 2021-26 en að frádreginni endurfjármögnun eldri lána nemi ný fjármögnunarþörf ríkissjóðs um 989 milljörðum á sama tímabili.

Analytica leggur svo fram tvær sviðsmyndir um samsetningu ríkissjóðs í árslok 2020 og 2026, þegar fjármálaáætlunin rennur sitt skeið, og er í báðum gert ráð fyrir „að langstærsti hluti nýrrar fjármögnunar ríkissjóðs verði með útgáfu óverðtryggðra ríkisbréfa“.

Síðan er vikið að sjálfbærni skuldasöfnunar ríkissjóðs í kjölfar kórónukreppunnar, annarrar mestu niðursveiflu í VLF síðan 1945.

„Til að meta þann halla sem telja má sjálfbæran þá þarf hins vegar að miða við vænt vaxtastig árið 2026 og skuldahlutfall í lok þess árs. Niðurstaða útreikningsins er sú að frumhalli má ekki vera hærri en sem nemur 0,9% af landsframleiðslu. Áætlaður frumafgangur ársins 2026 nemur hins vegar 0,4% af landsframleiðslu. Niðurstaðan er því sú að miðað við áætlaða stöðu ársins 2026 þá er ríkissjóður fjárhagslega sjálfbær miðað við fjármögnun í óverðtryggðum ríkisbréfum. Skuldasöfnun í takt við þá sem áætluð er árin 2021–2024 er það hins vegar augljóslega ekki til lengdar,“ segir þar m.a.

Jafnvel þótt lífeyrissjóðir myndu fjármagna að fullu halla ríkissjóðs til næstu ára telur Analytica hæpið að um stórt skref í átt til gegnumstreymiskerfis væri að ræða.

Því er samhljómur varðandi síðastnefnda atriðið hjá báðum skýrsluhöfundum.