[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HM 2023 Gunnar Egill Daníelsson gunnaregill@mbl.

HM 2023

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari A-landsliðs kvenna í knattspyrnu, þurfti að glíma við jákvæðan höfuðverk þegar hann valdi hóp sinn fyrir erfitt verkefni gegn ríkjandi Evrópumeisturum Hollands í undankeppni HM 2023 síðar í mánuðinum. Holland fylgdi Evrópumeistaratitlinum árið 2017 eftir með silfurverðlaunum á HM 2019 og hefur fjölda heimsklassaleikmanna á að skipa.

Fyrir utan Söru Björk Gunnarsdóttur, fyrirliða íslenska liðsins, sem ber barn undir belti og er því ekki leikfær, stóðu allir þeir leikmenn sem Þorsteinn vildi velja í hópinn honum til boða.

„Það er enginn leikmaður sem var ekki klár í verkefnið eins og staðan er í dag. Það eru allar heilar sem ég var með í huga. Það eru margir leikmenn á góðum stað og margir að taka góð skref. Ég held að framtíðin sé björt,“ sagði Þorsteinn á teams-fjarfundi með blaðamönnum í gær.

Hann sagði að þrátt fyrir að valið hefði reynst sér erfitt væri það jákvætt hversu margir góðir leikmenn gerðu tilkall til sætis í hópnum. „Þetta var erfitt val. Það voru margar sem komu til greina og eru í framför, sem er gott fyrir okkur.

Það er líka gott fyrir okkur að það sé samkeppni um að komast í þetta lið. Þetta sýnir að við höfum úr leikmönnum að velja, þetta er ekki sjálfvalið. Það eru leikmenn sem gera kröfu á að komast í þetta lið og það er bara gott fyrir okkur að hafa úr mörgum leikmönnum að velja.“

Valin eftir tveggja ára hlé

Fjórar breytingar eru á hópnum frá síðasta verkefni, sem voru tveir vináttuleikir gegn Írlandi um miðjan júní. Varnarjaxlinn þaulreyndi Sif Atladóttir snýr aftur í leikmannahópinn eftir að hafa komið sér á gott ról að undanförnu í kjölfar barnsburðar en hún lék síðast landsleik fyrir tæpum tveimur árum.

„Sif er á góðum stað. Hún er búin að vera að vinna sig hægt og rólega í sitt besta form og er komin á þann stað að ég tel gott að taka hana inn núna og sjá það sjálfur hversu góð hún er,“ sagði Þorsteinn um hana á fundinum, en vængmaðurinn Hlín Eiríksdóttir kemur einnig inn í hópinn og miðvörðurinn Guðrún Arnardóttir sömuleiðis.

Ungstirni í hóp í fyrsta sinn

Þá er ógetið hinnar 17 ára gömlu Amöndu Andradóttur, sem leikur sem miðjumaður og kantmaður hjá Vålerenga í Noregi og var valin í íslenska A-landsliðshópinn í fyrsta sinn. Þannig vildi til að Amanda, sem á norska móður og íslenskan föður, Andra Sigþórsson fyrrverandi landsliðs- og atvinnumann, var einnig valin í norska U19-ára landsliðið á dögunum.

„Við vorum búin að velja hana í hópinn fyrir þetta verkefni og undirbúa það allt saman. Blaðamannafundurinn átti að vera á föstudaginn en ég var sjálfur með Covid og losnaði ekki úr einangrun fyrr en á föstudagskvöldið. Þegar í ljós kom að hún var líka valin í U19-ára hóp Noregs þurfti hún bara að taka ákvörðun um hvað hún vildi gera,“ sagði Þorsteinn á fundinum.

Aðdragandann að valinu á Amöndu útskýrði hann þannig: „Ég ætlaði að hitta Amöndu og fara á leik með henni í Noregi í byrjun ágúst en það er víst eitthvað í gangi í heiminum sem kom í veg fyrir það. Ég átti svo fund með pabba hennar hér heima 9. ágúst síðastliðinn.

Þá ræddi ég málin og fór yfir hlutina með honum. Ég lagði spilin á borðið og fór yfir hvernig við lögðum hlutina upp með hana. Svo þegar það kemur í ljós að Noregur velur hana líka ræddi ég sjálfur við hana í síma og sagði henni mína hlið á málum, mína skoðun og framtíðarsýn. Út frá því tekur hún svo þessa ákvörðun.“

Þótt Þorsteinn gæti ekki lofað Amöndu mínútum, ekki frekar en öðrum leikmönnum, í leiknum gegn Hollandi sagði hann hana vera spennandi leikmann sem væri stöðugt að bæta sig. „Amanda getur orðið virkilega góð, er með flottar spyrnur og góðan leikskilning. Hún þróast og þroskast vel og er í góðri framför. Vonandi heldur hún áfram að bæta sig svo hún geti nýst okkur,“ sagði Þorsteinn á fundinum.

Andrea best í 17. umferðinni

Andrea Rut Bjarnadóttir miðjumaður úr Þrótti í Reykjavík var að mati Morgunblaðsins besti leikmaðurinn í 17. umferð úrvalsdeildar kvenna í fótbolta sem var leikin á laugardag og sunnudag. Andrea lék mjög vel með Þrótturum sem lögðu ÍBV 3:2 í fjörugum leik en hún skoraði tvö síðari mörkin, sigurmarkið rétt fyrir leikslok, eftir að hafa lagt upp fyrsta mark liðsins. Hún fékk tvö M í einkunn hjá blaðinu.

Einn annar leikmaður fékk tvö M í umferðinni en það var Aerial Chavarin, framherji Keflvíkinga, sem skoraði dýrmætt mark liðsins í jafnteflisleik gegn Íslandsmeisturum Vals. Arna Sif Ásgrímsdóttir fyrirliði Þórs/KA er í liði umferðarinnar í áttunda skipti á tímabilinu og Amber Michel markvörður Tindastóls í sjötta sinn en Tindastóll á þrjá leikmenn í liðinu eftir frækinn 3:1-útisigur gegn Selfyssingum.