Jóhann L.Helgason
Jóhann L.Helgason
Eftir Jóhann L. Helgason: "Hvernig stendur á því að fólk getur ekki fengið þessa skoðun ókeypis hjá Landspítalanum, og um leið sparast miklir fjármunir fyrir ríkissjóð?"

Hvernig má það vera að árum saman hefur efsta hæð Landspítalans verið lokuð vegna myglusvepps, í öllum þeim vandræðum sem heilsugæslan er í? Er kassinn tómur? Er eitthvað þarfara við skattpeninga þjóðarinnar að gera en að hafa heilsugæslu Íslendinga í heilsusamlegu húsnæði, ég held að allir geti verið sammála því, nema kannski nokkrir afburðaheimskir stjórnmálamenn, sem nóg er af.

Við Íslendingar notum mikið flottar slagorðasetningar eins og „löndin sem við berum okkur saman við“. Ef einhver setning er ofnotuð og oft á tíðum innihaldslaus þá er það þessi setning. Sannleikurinn er nefnilega sá að íslensk stjórnsýsla er engu öðru lík, allavega ekki miðað við þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við.

Smádæmi: 1. Íslenska ríkið setur 25% minna fé í hina opinberu heilsugæslu en nágrannaþjóðir okkar, miðað við verga þjóðarframleiðslu. Þess vegna er vandinn uppsafnaður og þyrfti í byrjun góða innspýtingu upp á 100% í minnsta falli til að laga stöðuna.

2. Íslensk stjórnsýsla býður þjóðinni upp á dýrustu og verstu húsnæðislán, fyrirtækjalán og einkalán sem fyrirfinnast á byggðu bóli.

3. Íslendingum er boðið upp á ónýtan gjaldmiðil sem hvergi er tekinn gildur í hinum siðmenntaða heimi og aðeins nothæfur á fróni voru.

Segir ekki dæmið um gamla bensínskattinn allt sem segja þarf um íslenskan ríkisrekstur? Skattur sem var og er enn lagður ofan á bensínverðið sem á svo að nota til að endurbyggja vegakerfið, en þeir peningar voru alltaf teknir úr peningakassanum og settir í annað. Þess vegna voru þeir peningar aldrei eyrnamerktir vegaframkvæmdum en látnir renna beint inní ríkissjóð og þannig er svo létt að láta þá hverfa í annað. Íslensk stjórnsýsla og efnahagsstefna er auðvitað öll í skötulíki.

Vegaskatturinn er 35-40 ára gamall að minnsta kosti og sagt er með þó nokkurri vissu að ef peningarnir hefðu verið settir í vegina frá upphafi værum við Íslendingar að aka hringveginn á flottum fjögurra brauta þjóðvegi eins og þeir gerast bestir.

Í Englandi er öll heilsugæsla ókeypis og hefur verið síðan 1933 eða um það bil. Eitt af því fáa sem Margaret Thatcher tókst ekki að eyðileggja, furðulegt nokk. Auðvitað á hún að vera endurgjaldslaus á Íslandi. Að blanda saman ríkisrekstri og einkarekstri hvað heilsugæsluna varðar verður aldrei annað en eitthvert mjög ruglingslegt, ósanngjarnt, ófullkomið og bjagað kerfi.

Dæmi: Í dag er tveggja til þriggja ára bið eftir mjaðmaliðaraðgerð hjá Landspítalanum en fyrir 1,3 miljónir og stuttan biðtíma hjá einkaspítala. Þetta eru mjög kvalafull veikindi og ekki mönnum bjóðandi að bíða svo lengi eftir aðgerð. En þeir sem eiga pening fá þetta gert fljótt og vel hjá einkageiranum. „Peningarnir tala“ heitir það víst. En bíðum nú við; öll eftirmeðferðin lendir á ríkinu, það er nú ekki fullkomnara en það hjá einkageiranum. Það þarf að aðskilja þetta tvennt algerlega. Þeim sem vilja stofna og reka einkasjúkrahús á auðvitað að vera það alveg frjálst, en það þýðir að alla meðferð, frá a-ö, þarf sjúklingurinn að fjármagna sjálfur. Ríkið á ekki að neinu leyti að skipta sér af einkareknum sjúkrahúsum eða sjúklingum þeirra.

Annað dæmi: Maður fer til heimilislæknis sem bendir honum á Hjartamiðstöðina. Hjartarannsókn heitir það. Hjartalínurit tekið, síðan ómskoðun og viðtal við lækni. Þessi skoðun tekur um það bil 30 mínútur í allt og kostar með heimsóknargjaldi um 54.000 kr. Þar af er hlutur sjúklings um 17.500 kr., sem eru miklir peningar fyrir eldri borgara, sem er langstærsti hópurinn í þessari rannsókn.

Þarna er ríkið að borga fyrir þessa 30 mínútna rannsókn 36.500 kr., sem auðvitað renna ljúft inn í einkareksturinn. Hvernig stendur á því að fólk getur ekki fengið þessa skoðun ókeypis hjá Landspítalanum, og um leið sparast miklir fjármunir fyrir ríkissjóð? Svona má lengi telja og væri það alveg til að æra óstöðugan að reyna að fá einhverja skynsamlega útkomu úr þessu samsulli ríkis og einkageirans.

Í Gautaborg einni eru starfandi 30-40 íslenskir læknar. Hvað skyldu þeir vera margir í landinu öllu eða á Norðurlöndunum til samans? Margir þeirra fóru ekki aftur til Íslands eftir sérfræðinám, aðrir fóru til Íslands en svo til baka til Svíþjóðar, eins og gengur stundum til. En helsta ástæðan fyrir þessum brottflutningi lækna frá Íslandi er ekki launaliðurinn heldur allar hinar ástæðurnar; skipulag og stjórnun miklu betri, aðstaðan og tækjakosturinn töluvert betri, og svo hugsanlega aðalástæðan; meðferð sjúklinganna sjálfra.

Eitt dæmi frá Íslandi: Krabbameinsveikt fólk fær ekki notið bestu lyfja sem til eru í dag á hinum alþjóðlega markaði þar sem þróunin er mjög ör; þykja of dýr svo notast er við ódýrari lyf sem annars staðar hafa verið lögð til hliðar. Læknir sem vill taka starf sitt alvarlega getur auðvitað ekki starfað undir þessum kringumstæðum.

Höfundur er eldri borgari.

Höf.: Jóhann L. Helgason