Guðmunda Magnea Friðriksdóttir, til heimilis í Reykjanesbæ, fæddist í Ystabæ á Látrum í Aðalvík 5. janúar 1925. Hún lést á Hrafnistu, Nesvöllum, 23. ágúst 2021.

Foreldrar hennar voru Friðrik Finnbogason, f. 1879, d. 1969 og Þórunn María Þorbergsdóttir, f. 1884, d. 1975. Guðmunda var yngst af 17 systkinum sem nú eru öll látin.

Hinn 27. maí 1950 giftist hún Valgeiri Sigurðssyni frá Reykjavík. Foreldrar hans voru Sigurður Jósef Ólafsson, f. 1898, d. 1948 og Áslaug Jóhannsdóttir, f. 1900, d. 1964.

Guðmunda og Valgeir bjuggu í Keflavík allan sinn búskap, lengst af í Hátúni 5. Þau áttu 8 börn:

1. Laila Jensen, f. 1946, gift Sigurði Halldórssyni, f. 1945. Börn þeirra: a)Brynja, f. 1966. b) Magnús, f. 1969. c) Valgeir, f. 1969, d. 1970. Þau eiga 4 barnanabörn og 4 barnabarnabörn.

2. Sigurður, f. 1949, kvæntur Bjarneyju Gunnarsdóttur, f. 1951. Börn þeirra: a)Valgeir, f. 1977. b) Gunnar, f. 1978.

3. Óli Þór, f. 1951, kvæntur Elínu Guðjónsdóttur, f. 1952. Börn þeirra: a) Ásta, f. 1968. b) Valgeir, f. 1971. c) Elín María, f. 1978. d) Áslaug, f. 1980, d. 2000. Þau eiga 6 barnabörn og 1 barnabarnabarn.

4. Áslaug, f. 1952, gift Robert D. Williams, f. 1954. Börn þeirra: a) Katrín, f. 1972, faðir hennar er Garðar Tyrfingsson. b) Robert Daniel, f. 1977. c) Marianna Patricia, f. 1981, d. 2010.

5. Friðrik Már, f. 1953. Var kvæntur Ingigerði Guðmundsdóttur, f. 1954, d. 2016. Börn þeirra: a) Ingi Garðar, f. 1973. b) Guðmunda Magnea, f. 1979. c) Sandra Dögg, f. 1989. Hann á 5 barnabörn.

6. Gunnar Valgeir, f. 1957, kvæntur Cristinu Bodinger-de Uriarte, f. 1955.

7. Herborg, f. 1963, gift Guðjóni Guðmundssyni. Börn þeirra: a) Ingimundur, f. 1990. b) Eyþór, f. 1995. Þau eiga 2 barnabörn.

8. Guðrún, f. 1966.

Guðmunda eða Mumma eins og hún var kölluð fæddist og ólst upp á Látrum í Aðalvík. Hún gekk þar í barnaskóla en þurfti að gera hlé á námi þar sem hún veiktist af mænuveikinni og þurfti að jafna sig eftir þau veikindi. Hún flutti til Akureyrar til að klára nám frá Gagnfræðaskóla Akureyrar og útskrifaðist 1945 með hæstu einkunn. Hún flutti síðan til Keflavíkur og starfaði í verslunum þar áður en hún hóf búskap og eignaðist sín börn og var hún heimavinnandi húsmóðir eftir það, þar sem barnahópurinn var stór. Hún starfaði í mörg ár við ýmis félagsstörf, sérstaklega hjá Sjálfsbjörg á Suðurnesjum og í Kvenfélaginu.

Útför Guðmundu fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 7. september 2021, kl. 13.

Streymt verður frá útför: https://www.facebook.com/groups/gudmunda

Stytt slóð:

https://tinyurl.com/yxrrvsx2

Hlekk á streymi má finna á:

https://www.mbl.is/andlat

Í dag kveðjum við okkar ástkæru mömmu. Hún ólst upp í Aðalvík þar sem samgöngur voru ekki alltaf greiðfærar og eina leiðin var sjóleiðin. Mamma talaði alltaf vel um æsku sína þar og fengum við að heyra margar góðar sögur þaðan. Hún ljómaði alltaf þegar talað var um Aðalvíkina og höfum við systkinin farið í margar ferðir þangað og skiljum hana vel

Mamma veiktist af mænuveikinni þegar hún var 10 ára og þurfti að vera ein að heiman í nokkra mánuði í endurhæfingu. Hún var fötluð eftir það og þurfti að aðlagast því en lét það ekki aftra sér í neinu ef hún gat og þurfti að læra að vera þolinmóð og sagði oft maður gerir bara gott úr því sem maður hefur.

Hún flutti til Keflavíkur 1945 þar sem amma, afi og mörg systkini hennar bjuggu. Mamma ætlaði alltaf að verða kennari en á þeim tíma var erfitt að fá herbergi á leigu í Reykjavík og síðan kynnist hún pabba 1946. Fljótlega fæddist fyrsta barnið og fjölskyldan stækkaði ört. Það var mikið líf og fjör á stóru heimili. Eldri systkinin slógust meira en þau yngri, kannski sem betur fer fyrir mömmu og fórum við fljótt að hjálpa til á heimilinu með yngri systkinin og heimilisverkin.

Mamma var róleg að eðlisfari, alltaf glöð, kát og brosmild og alltaf gott að heimsækja hana og spjalla um daginn og veginn. Hún las alltaf mikið, hinar ýmsu bókmenntir og fylgdist með fréttum innanlands og að utan.

Það var oft mjög gestkvæmt á heimilinu. Systkini hennar bjuggu mörg í næstu götum við okkar og ef hún var ekki heima, þá gátum við fundið hana hjá þeim.

Mamma var líka spákona, spáði í bolla fyrir okkur og aðra. Hún sá ýmislegt í bollanum en best ef hún spáði fyrir ferðalögum eða peningum, hvað þá bæði.

Það var mikil réttlætiskennd í henni, mátti ekkert aumt sjá og oft sagði hún að það væri leiðinlegt ef við litum öll eins út og hefðum sömu skoðanir, þá hefðum við um ekkert að tala.

Þau pabbi voru mjög dugleg að fara í útilegur með okkur á sumrin og líka í sumarbústaðaferðir með yngstu systurnar. Þá fylgdu oft barnabörnin með líka.

Hún og pabbi fóru síðan oft í sólina til útlanda þegar pabbi var hættur að vinna.

Mamma og pabbi fluttu síðan í íbúðir fyrir aldraða í Hornbjargi við Kirkjuveg og bjuggu þar, þar til pabbi lést fyrir 10 árum. Þá fór hún á hjúkrunarheimili, fyrst á Garðvang og síðan á Nesvelli þar sem henni leið mjög vel. Hún sagði að manni liði verst sjálfum ef maður væri alltaf að kvarta ef hún var spurð hvort henni liði vel þar.

Margar sögur rifjast upp um hana hjá okkur systkinum en hún var hógvær kona, því leyfum við henni að eiga síðasta orðið og viðeigandi að það sé um æskuslóðirnar í Aðalvíkinni.

Komin er á kæran stað

kannski hefur ekkert breyst.

Þankabrotin þyrpast að

því þú getur alveg treyst.

Ystibær er alltaf kær

og enginn fær því neinu breytt.

Signir okkur sólin skær

og sýnist ekki vanta neitt.

Logn og blíða, lygnur sjór,

leysist þokan fjöllum úr.

Fjallahringur fagur stór

Funheitt úti og engin skúr.

Takk elsku mamma fyrir allt. Minning þín lifir hjá okkur.

Meira á www.mbl.is/andlat

Þín

Laila, Sigurður, Óli,

Áslaug, Friðrik,

Gunnar, Herborg

og Guðrún.

Elsku amma, nú er komið að kveðjustund.

Það er margs að minnast, elsku amma, við áttum svo margar samverustundir og mun ég varðveita þær. Mikið vildi ég að við hefðum náð að taka fimm ættliða myndina og þú hefðir fengið að sjá nýja langalangömmuprinsinn, en vegna covid náðist það ekki. Við yljum okkur við að hafa getað hringt til krakkanna á messenger og þú gast séð hann í símanum. Elsku amma, þú varst einstök kona, já kona sem lét ekki segja sér til syndanna; þrátt fyrir fötlun þína varstu fyrirmynd allra. Takk fyrir allt elsku fallega amma. Ég læt fylgja hér með ljóð sem lýsir þér best:

Hér kveð þig amma mín

og kærleikann allan þakka.

Því árin mín og árin þín

áfram runnu í einum pakka.

Ung þú gafst mér trú og traust

það tíðum hef ég fundið.

Þú varst bæði blíð og hraust

brosmild og engum bundin.

Og árin ljúf þau liðu fljótt

já líkast sem í draumi.

En nú var slökkt, komin nótt

og bið nú sett á drauminn.

Nú árin líða, nú brestur þrek

nú ég skoða hvert ég ek.

Það veistu að áttir þú.

Því legg ég líf og önd

ljúfa mín í þína hönd.

Því sáttur þá ég sofna hér

þú munt vaka yfir mér.

Guð geymi þig elsku amma.

Þín

Elín María og fjölskylda.

Líffræðileg móðir mín hún Mumma er látin, 96 ára að aldri, hún var sú síðasta af 17 systkinum frá Ystabæ í Aðalvík til að kveðja okkur. Mumma er konan sem gaf mér líf, fæddi mig og var ég hennar sjöunda barn. Mamma og pabbi misstu dóttur í fæðingu tveimur mánuðum áður en ég fæddist og þá tók mumma þá ákvörðun að gefa Þobba bróður sínum mig. Hún var með mig á spítalanum í sjö daga, hugsaði um mig og sýndi ótrúlegan styrk þegar hún fór með mig heim og afhenti foreldrum mínum mig. Mumma og Geiri maðurinn hennar eignuðust átta önnur börn og hafa þau öll sýnt mér mikla umhyggju og vináttu alla tíð. Mamma mín hún Dilla sagði alltaf að Mumma væri sterkasta kona sem hún hefði kynnst.

Stutt var á milli heimila okkar og mikill samgangur alla tíð. Mumma fann hluti á sér og var vel tengd inn í aðra heima. Sagt var að hún hefði þriðja augað og var fátt meira spennandi þegar ég var unglingur en að fara á Hátún 5 og láta spá fyrir mér og vinkonum mínum.

Faðir minn, Þorbergur, bar meiri virðingu fyrir Mummu systur sinni en öllum öðrum. Þegar hann þurfti aðstoð með eitthvað bað hann hana ætíð að spá fyrir sig og var alltaf sáttur við niðurstöðuna. Þau systkinin voru mjög náin alla tíð og áttu sérstaklega fallegt samband.

Hún hafði ótrúlega gott geðslag, var alltaf kát og kvartaði aldrei né talaði illa um fólk. Mumma var sérstaklega jákvæð og glöð alla tíð. Á Nesvöllum, þar sem hún bjó síðustu árin, kom greinilega í ljós hvað öllu starfsfólkinu þótti sérstaklega vænt um hana og síðustu daga hennar þar komu ótrúlega margir til að kveðja hana.

Mumma var yndisleg manneskja, utan sem innan, og verð ég ævarandi þakklát fyrir að hafa haft hana í mínu lífi. Öllum aðstandendum óska ég heilla og samúðar og bið fyrir því að guð veri með þeim í sorginni.

Með vinsemd og virðingu,

Þórunn María

Þorbergsdóttir.