Hreindýraveiðar Ýmsar leiðir eru til að koma bráðinni til byggða.
Hreindýraveiðar Ýmsar leiðir eru til að koma bráðinni til byggða. — Morgunblaðið/Sigurður Aðalsteinsson
Um þriðjungur hreindýra sem leyft er að veiða á þessu ári, um 400 dýr af 1.220, var óveiddur á sunnudaginn var. Þá voru aðeins tíu dagar eftir af veiðitíma tarfa og 15 dagar af veiðitíma kúa. „Það er dálítið mikið óveitt,“ segir Jóhann G.

Um þriðjungur hreindýra sem leyft er að veiða á þessu ári, um 400 dýr af 1.220, var óveiddur á sunnudaginn var. Þá voru aðeins tíu dagar eftir af veiðitíma tarfa og 15 dagar af veiðitíma kúa.

„Það er dálítið mikið óveitt,“ segir Jóhann G. Gunnarsson, sérfræðingur Umhverfisstofnunar á Egilsstöðum. Hann segir að veiðin hafi tekið dálítinn kipp í síðustu viku. Einmuna blíða hefur verið allt þetta veiðitímabil. Tarfaveiðar hófust 15. júlí og veiði á kúm 1. ágúst. Veidd dýr hafa verið væn og vel haldin.

Þrátt fyrir gott veður hafa færri veiðimenn komið á stundum á veiðar en á sama tímabili í fyrra. Þá er áberandi hvað veiðarnar hafa verið mikið um helgar en ekki á virkum dögum. Jóhann kveðst ekki kunna fullnægjandi skýringar á því hvers vegna ekki hefur meira veiðst.

„Ein gæti verið að það voru fá dýr á svæði 2. Þau sem sáust voru flest inni í griðlandinu við Snæfell. Þar var dálítið stór hópur nær allan ágústmánuð. Svo vantar dýr inn á svæði sem sennilega eru lengst suður frá á illveiðanlegum svæðum. Það getur stafað af því að það hafa verið langvarandi suðlægar áttir og dýrin leita upp í vindinn,“ segir Jóhann. Þess má geta að kvótinn á svæði 2 er 275 dýr á þessu ári. Jóhann segir að sér kæmi ekki á óvart ef einhver leyfi brynnu inni. gudni@mbl.is