Leifsstöð Bandaríkjamenn voru langflestir þeirra erlendu ferðamanna sem komu til landsins í ágúst.
Leifsstöð Bandaríkjamenn voru langflestir þeirra erlendu ferðamanna sem komu til landsins í ágúst. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Ríflega 264 þúsund farþegar flugu með vélum Icelandair í seinasta mánuði, margfalt fleiri en í ágústmánuði á seinasta ári þegar tæplega 80 þúsund farþegar flugu með félaginu.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Ríflega 264 þúsund farþegar flugu með vélum Icelandair í seinasta mánuði, margfalt fleiri en í ágústmánuði á seinasta ári þegar tæplega 80 þúsund farþegar flugu með félaginu.

Tölurnar endurspegla feykilega sveiflu sem átt hefur sér stað í farþegaflutningum frá því veirufaraldurinn reið yfir á seinasta ári.

Í ágústmánuði voru farþegar Icelandair í millilandaflugi rúmlega 241 þúsund talsins samanborið við um 67 þúsund í ágúst í fyrra en þeir voru 195 þúsund í júlí síðastliðnum.

Farþegum sem fljúga með Icelandair heldur áfram að fjölga að því er fram kemur í mánaðarlegum flutningatölum fyrir ágústmánuð sem Icelandair Group birti í Kauphöll í gær. 45 þúsund fleiri farþegar flugu með vélum Icelandair í ágúst en í júlímánuði og rúmlega 170 þúsund fleiri flugu með félaginu í millilandaflugi í seinasta mánuði en í sama mánuði á seinasta ári.

Einnig hefur orðið veruleg fjölgun í innanlandsfluginu þar sem farþegum fjölgaði um rúmlega 80% á milli ára samkvæmt upplýsingum félagsins. Farþegar í innanlandsflugi voru 22.600 samanborið við 12.400 á sama tíma í fyrra.

Um 200 brottfarir á viku

Haft er eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair Group, í tilkynningu félagsins í gær að tekist hafi að byggja leiðakerfið hratt upp á undanförnum mánuðum þrátt fyrir krefjandi aðstæður.

„Við jukum flugið frá um 30 brottförum á viku frá Keflavík í maí í um 200 brottfarir á viku í ágúst. Sem það flugfélag sem flytur flesta ferðamenn til landsins þá hefur þessi hraða uppbygging skipt sköpum fyrir íslenska ferðaþjónustu á undanförnum mánuðum en við fluttum yfir 150 þúsund ferðamenn til landsins í sumar,“ segir hann.

Bandaríkjamenn skera sig úr

Fjölgun ferðamanna varð meiri í sumar en spáð hafði og yfir allt árið er nú gert ráð fyrir að þeir verði um 680 þúsund sem sækja landið heim. Bandaríkjamenn skera sig þar úr og eru fjölmennastir en brottfarartalning Ferðamálastofu í ágústmánuði bendir til að þeir hafi verið um 38% allra erlendra brottfararfarþega í seinasta mánuði.

„Hlutfallsskipting gefur til kynna að brottfarir erlendra farþega frá Íslandi í ágúst hafi verið um 88,1% af heildarbrottförum,“ segir í umfjöllun Ferðamálastofu en staðfestar tölur Isavia um heildarfjölda brottfara frá Íslandi eru væntanlegar síðar í vikunni.

Fjöldi flugfélaga heldur uppi áætlunarflugi til og frá Íslandi. Í gær voru t.a.m. skráð 52 flug á vegum 13 flugfélaga til Keflavíkurflugvallar og 54 brottfarir.

Hjá Icelandair var fjöldi farþega til Íslands 145 þúsund í seinasta mánuði samanborið við tæplega 53 þúsund í ágúst á seinasta ári. Farþegar frá Íslandi voru 24 þúsund en þeir voru um 13 þúsund í sama mánuði í fyrra.

Þá hefur tengifarþegum haldið áfram að fjölga en þeir voru 72 þúsund í ágúst samanborið við aðeins um 13 þúsund í ágúst í fyrra og um 51 þúsund í júlí á yfrstandandi ári samkvæmt upplýsingum félagsins.

65-75% af áætlun ársins 2019

Haft er eftir Boga Nils að þegar félagið kynnti nýverið vetraráætlunina var gert ráð fyrir áframhaldandi sókn með 160 brottförum á viku til 25 áfangastaða.

„Þannig verður áætlunin um 65-75% af áætlun ársins 2019. Uppbyggingin heldur því áfram með það að markmiði að ná stöðugleika í fluginu á ný og við munum áfram nýta þann sveigjanleika sem félagið býr yfir til að laga flugáætlun okkar að aðstæðum hverju sinni og grípa þau tækifæri sem gefast á hverjum tíma hér eftir sem hingað til,“ segir hann.