Flott „Þetta er eitt af flottustu verkum leikbókmenntanna,“ segir Marta Nordal um Happy Days.
Flott „Þetta er eitt af flottustu verkum leikbókmenntanna,“ segir Marta Nordal um Happy Days. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Við kynnum þrjár nýjar uppfærlur til leiks þetta árið auk þess sem sýningar frá fyrra leikári halda áfram, enda eiga þær mikið inni þar sem aðeins var hægt að nýta hluta salarins meðan samkomutakmarkanir giltu,“ segir Marta Nordal, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar. „Við erum byrjuð að sýna gamanleikinn Fullorðin eftir Árna Beintein Árnason, Birnu Pétursdóttur, Vilhjálm B. Bragason og leikhópinn sem við Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir leikstýrðum. Til að byrja með sýnum við hér fyrir norðan, en uppfærslan fer suður í vor þar sem hún verður sýnd í Þjóðleikhúskjallaranum í mars og apríl. Sýningar eru einnig hafnar á samstarfsverkefninu Tæringu eftir Vilhjálm B. Bragason í leikstjórn Völu Ómarsdóttur sem sýnt er í Hælinu, setri um sögu berklanna á Kristnesi í Eyjafjarðarsveit. Nú í september hófust aftur einnig sýningar á fjölskyldusýningunni Benedikt búálfi eftir Ólaf Gunnar Guðlaugsson í leikstjórn Völu Fannell.

Fyrsta frumsýning á nýju verki þetta leikárið verður í janúar þegar Skugga-Sveinn eftir Matthías Jochumsson fer á svið í Samkomuhúsinu á Akureyri. „Með hlutverk Skugga-Sveins fer Jón Gnarr, en í öðrum hlutverkum eru María Pálsdóttir, Sunna Borg, Vilhjálmur B. Bragason, Árni Beinteinn Árnason og Þórdís Björk Þorfinnsdóttir,“ segir Marta, sem mun leikstýra Skugga-Sveini . Um tíma stóð til að Ólafía Hrönn Jónsdóttir færi með titilhlutverkið, en að sögn Mörtu gekk það ekki upp vegna anna leikkonunnar þegar verkefni færðust til vegna kófsins.

Verkið tekið nútímatökum

„Þegar það lá ljóst fyrir hugsaði ég uppsetninguna upp á nýtt og fékk þá Jón Gnarr inn í sýninguna, sem var stórkostleg gjöf. Jón Gnarr býr yfir miklum húmor, en Skugga-Sveinn þarf að vera skemmtilegur. Á sama tíma er Jón Gnarr eins og náttúruafl sem fer í allar áttir, sem hentar þessu hlutverki og leikriti,“ segir Marta og tekur fram að leikritið kalli á fersk tök. „Jóni Gnarr fylgir mikill ferskleiki,“ segir Marta og bendir á að hann sé að útskrifast af sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslans sem sé dæmi um ferskleika og nálgun og frjóa hugsun.

„Uppfærslan verður ekki aðeins óður til Matthíasar heldur ekki síður Sigurðar Guðmundssonar listmálara sem gerði leiktjöldin fyrir frumuppfærslu verksins á sínum tíma, sem geymd eru á Þjóðminjasafninu. Við erum að daðra við íslenskan menningararf en líka kúrekana. Þetta er óður til gamla leikhússins, en verkið er tekið tökum nútímaleikhússins,“ segir Marta og vísar þar meðal annars til nútímadramatúrgíu. „Ég fer höndum um handritið, stytti og breyti. Þetta verk er auðvitað barn síns tíma. Þetta er naíft verk sem einkennist af ákveðinni heiðríkju sem er sjarmerandi í eðli sínu. En það er auðvitað skrifað inn í allt aðra leiklistarhefð en nú ríkir. Þannig hefði Matthías aldrei skrifað verkið svona ef hann væri að skrifa það í dag þar sem önnur dramatúrgía er ríkjandi. Kúnstin er því að nýta verkfæri nýja leikhússins án þess að spilla þeim tæra tóni sem einkennir verkið,“ segir Marta. Leikmyndina hannar Kristján Garðarsson arkitekt, Björg Marta Gunnarsdóttir hannar búninga, Sævar Helgi Jóhannsson útsetur alla tónlistina upp á nýtt og semur nýja tónlist þar sem við á við texta eftir Vilhjálm B. Bragason.

Talar sterkt til samtímans

„Í apríl frumsýnum við í Samkomuhúsinu Happy Days eftir Samuel Beckett þar sem Edda Björg Eyjólfsdóttir fer með hlutverk Winnie,“ segir Marta og tekur fram að samningar við leikstjóra og aðra listræna stjórnendur séu þar á lokametrunum. „Þetta er eitt af flottustu verkum leikbókmenntanna, en snilli verksins felst ekki síst í því hversu opið það er til túlkunar,“ segir Marta og bendir á að verkið sé klassískt í þeim skilningi að það geti talað til áhorfenda á öllum tímum. „Í verkinu er tekist á við lífið, dauðann, hnignun og tilgangsleysi. Mér finnst verkið tala ótrúlega sterkt inn í okkar tíðaranda,“ segir Marta og vísar þar meðal annars til þess hvernig persóna verksins þjáist af ákveðinni afneitun á aðstæðum sínum þar sem hún er grafin í sandhrúgu á sviðinu.

„Framsetning verksins er ótrúlega myndræn og sterk, sem gaman verður að útfæra hér í Samkomuhúsinu,“ segir Marta og tekur fram að ekki spilli fyrir að í ár eru 60 ár liðin frá því verkið var heimsfrumsýnt. „Það hefur aðeins einu sinni áður verið sett upp á Íslandi, fyrir mörgum árum, og þá var ekki notuð þýðing Árna Ibsen, en hann þýddi sem kunnugt er öll verk Becketts.“

Síðasta frumsýning leikársins verður á Túskildingsóperunni eftir Bertolt Brecht sem Ólafur Egill Egilsson leikstýrir í maí. „Þar erum við í samstarfi við Þjóðleikhúsið og Listaháskóla Íslands, en um er að ræða lokaverkefni nemenda af leikarabraut LHÍ. Eins og síðustu ár verður lokaverkefnið frumsýnt í Samkomuhúsinu á Akureyri og fer í framhaldinu í Þjóðleikhúsið.“

Nutum þess að vera smá

Ekki er hægt að sleppa Mörtu án þess að forvitnast um hvernig rekstur leikhússins standi átján mánuðum eftir að heimsfaraldur braust út með tilheyrandi samkomutakmörkunum. „Leikfélag Akureyrar er hluti af Menningarfélagi Akureyrar. Við höfum náð að vinna ótrúlega vel úr þröngri stöðu sem ríkt hefur síðustu mánuði til þess að lágmarka skaðann sem hlaust af samkomutakmörkunum og -banni. Við stöndum því ágætlega. Þar er tvennt sem kemur til. Við erum ekki með mikið af fastráðnu starfsfólki eins og stóru leikhúsin tvö í höfuðborginni. Við vorum heldur ekki með jafnstórar sýningar sem þurfti að leggja til hliðar. Fyrir vikið gátum við sýnt í gegnum allt kófið þegar samkomubanni var aflétt og samkomutakmarkanir tóku við, þótt vissulega kæmust færri gestir í salinn,“ segir Marta og vísar þar til sýninganna Fullorðin og Benedikt búálfur sem sýndar voru síðasta vetur. „Við nutum þess því í raun að vera smá og mjög sveigjanleg. Á sama tíma tilheyrir Leikfélag Akureyrar stærri heild þar sem er tónlistarsvið. Meðan kófið ríkti og ekki mátti spila fyrir gesti í húsi fóru hér fram upptökur fyrir Netflix og Disney sem skilaði Menningarfélagi Akureyrar auðvitað tekjum.“

Að lokum nefnir Marta að Leiklistarskóli Leikfélags Akureyrar dafni vel, en hátt í 100 nemendur á grunnskólaaldri stunda þar nám undir stjórn Maríu Pálsdóttur skólastjóra. „Í sumar buðum við, í samstarfi við Akureyrarbæ, í fyrsta sinn upp á götuleikhús fyrir ungmenni á aldrinum 16-25 ára. Það heppnaðist svona ljómandi vel undir stjórn Önnu Richardsdóttur gjörningalistakonu og Auðar Aspar Guðmundsdóttur leikmyndahönnuðar. Götuleikhúsið er vonandi komið til að vera hér.“