Valdarán Mamady Doumbouya ofursti ávarpaði Gíneumenn í gær.
Valdarán Mamady Doumbouya ofursti ávarpaði Gíneumenn í gær. — AFP
Mamady Doumbouya, ofursti í her Gíneu og leiðtogi valdaránsins þar, hét því í sjónvarpsávarpi í gær að herforingjastjórnin myndi setja „þjóðstjórn“ á laggirnar til þess að sjá um valdaskipti í landinu.

Mamady Doumbouya, ofursti í her Gíneu og leiðtogi valdaránsins þar, hét því í sjónvarpsávarpi í gær að herforingjastjórnin myndi setja „þjóðstjórn“ á laggirnar til þess að sjá um valdaskipti í landinu. Þá lofaði Doumbouya erlendum fjárfestum að samkomulög og aðrir fjármálagjörningar myndu ekki verða fyrir áhrifum af valdaráninu.

Sagði Doumboya einnig að áfram yrði reynt að ýta undir erlenda fjárfestingu en efnahagur landsins byggir að mestu leyti á námavinnslu.

Sérsveitir á vegum Doumboya handtóku forseta landsins, Alpha Condé, á sunnudaginn, en rót valdaránsins er sögð liggja í þeirri ákvörðun Condés að láta víkja til hliðar skilyrðum stjórnarskrár landsins um hámarkslengd í embætti, svo hann gæti boðið sig fram til forseta í þriðja sinn í fyrra.

Herforingjastjórnin tilkynnti fljótlega eftir valdaránið að hún hygðist víkja hinni umdeildu stjórnarskrá til hliðar, og setti á útgöngubann. Þá leysti herinn upp ríkisstjórn landsins, og skipti út héraðsstjórum og æðstu embættismönnum fyrir liðsforingja í hernum.

Doumbaya hét því í gær að ekki yrði farið í „nornaveiðar“ á embættismönnum eða ráðherrum fyrri ríkisstjórnar, þrátt fyrir að hann sakaði ríkisstjórnina um gríðarlega spillingu og að hafa traðkað á réttindum Gíneumanna.

Alþjóðasamfélagið fordæmdi valdaránið í gær, og kölluðu bæði Afríkusambandið og Sameinuðu þjóðirnar eftir því að Condé, sem varð fyrsti lýðræðislega kjörni forseti landsins árið 2010, yrði sleppt úr haldi þegar í stað. Þá hefur landinu verið hótað með viðskiptaþvingunum, láti herinn valdataumana ekki af hendi.