Aðalsteinn Smárason fæddist 30. júlí 1977. Hann lést 19. júlí 2021.

Útförin fór fram í kyrrþey.

Á afmælisdeginum hans Alla skrifaði ég eftirfarandi kveðju:

Í dag er afmælisdagurinn hans Alla.

Alli hefði orðið 44 ára í dag, í staðinn fyrir að fagna þeim áfanga með honum fylgdi ég honum til grafar. Alli lést 19. júlí síðastliðinn eftir langa baráttu við illvígan sjúkdóm.

Alli var KR-ingur og Vesturbæingur, við urðum samferða í gegnum Melaskóla og Hagaskóla þar sem vinátta okkar byrjaði fyrir alvöru. Okkur þótti margt skemmtilegra en að læra þannig að við þurftum báðir að taka 10. bekkinn aftur í Réttó, þá var nú gott að hafa stuðninginn hvor hjá öðrum. Við rúlluðum þessu upp með glæsibrag nema við töldum enga ástæðu til þess að mæta í leikfimi, í staðinn fórum við niður í bæ og enduðum alltaf á Nonnabita.

Við eyddum mörgum verslunarmannahelgum saman, fórum til að mynda til Vestmannaeyja og á Akureyri ásamt sumarbústaðaferðunum og það gat verið skrautlegt ástand en rosalega gaman.

Alli hafði mjög smitandi hlátur og hafði gaman af lífinu.

Alli og Raggi mættu upp á fæðingardeild þegar Simmi minn fæddist með Liverpool-galla því auðvitað varð nýfædda barnið að vera í rétta liðinu.

Alli var mjög hjálpsamur og sannur vinur vina sinna, hann hjálpaði mér að standsetja allar íbúðir sem ég hef átt. Núna síðast þegar ég flutti á Selfoss var Alli mættur að hjálpa mér að mála.

Vinátta okkar Alla var þess eðlis að þótt við hittumst ekki oft síðustu ár var alltaf eins og við hefðum bara hist síðast í gær.

Ég hitti Alla síðast í maí, ekki grunaði mig þá að það væri í síðasta skipti sem ég myndi hitta hann. Alli sýndi mér vídeó frá pílumóti þar sem hann og félagi hans voru næstum búnir að slá út bestu mennina á landinu.

Alli skilur eftir sig tvö börn, Benna og Tönyu. Votta ég þeim og fjölskyldum þeirra samúð mína.

Góða ferð í sumarlandið Alli minn, ég veit að pabbi þinn hefur tekið á móti þér.

Takk fyrir vináttuna.

Þinn vinur,

Tómas Jón Sigmundsson (Tommi).

Mig langar í fáum orðum að minnast góðvinar míns Alla sem fór frá okkur allt of snemma. Ég kynntist honum gegnum sameiginlegan áhuga okkar á pílukasti og við náðum strax vel saman. Hann var glaðlyndur, alltaf brosandi og auðvelt að tala við hann. Heyrði hann aldrei tala illa um nokkurn mann. Auk pílunnar vorum við báðir ötulir stuðningsmenn Liverpool FC og fróðleikur hans um liðið og fótbolta almennt var ótrúlegur. Þessi áhugamál okkar leiddu svo til þess að hann kom og spilaði í píluliði sem ég stofnaði hjá Pílufélagi Hafnarfjarðar og mætti hann nær undantekningalaust í hverri viku, alltaf til í að hvetja liðið hvort sem hann var að spila eða ekki. Það er því mikill missir fyrir okkur liðsfélagana sem og mig persónulega að þurfa að kveðja góðan dreng og hans er og verður sárt saknað af okkur öllum. Sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur til nánustu fjölskyldu og vina. Hvíl í friði.

Fyrir hönd píluliðsins Dartmuthers

Þinn vinur

Chris.