[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Listamanninum Willy Petersen fellur helst aldrei verk úr hendi og hann hefur smíðað marga ólíka dýrgripi, fyrst og fremst ánægjunnar vegna.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Listamanninum Willy Petersen fellur helst aldrei verk úr hendi og hann hefur smíðað marga ólíka dýrgripi, fyrst og fremst ánægjunnar vegna. „Ég er alltaf að gera eitthvað og er nú að komast í gang á ný eftir sumarið,“ segir hann og lítur upp frá útskurði á litlum rósakrossi.

Í vor afhjúpaði Willy „Hendur Guðs“, trélistaverk, sem hann gaf Breiðholtskirkju. „Ég er kirkjunnar maður,“ útskýrir hann. „Það er til dæmis ótrúlega margt í þessu listaverki,“ heldur hann áfram og bendir á að heildarsvipur þess, þétt handtak úr mismunandi viði, sé táknrænt á margan hátt. Neðsti hlutinn tákni jörðina og upp af henni rísi Breiðholtskirkja. Hringur þar fyrir ofan tákni guð og heilagan anda og krossinn sé efstur. Allt þetta sé tengt og tengist til himins. „Við höldumst uppi ef við höldumst í hendur og keðjan slitnar ekki en annars hrynjum við niður í hrúgu.“

Ánægjan í fyrirrúmi

Mörg verk Willys tengjast trú og kirkju. Hann hefur til dæmis gert um 80 sentimetra langar nákvæmar eftirlíkingar í réttum hlutföllum af fimm íslenskum kirkjum; Dómkirkjunni, Auðkúlukirkju, Hrepphólakirkju, Mosfellskirkju og Hólakirkju í Eyjafjarðarprófastsdæmi. „Ég smíðaði þessi verk mér til gamans og valdi gamlar kirkjur með mismunandi byggingarstíl,“ segir hann.

Hagleiksmaðurinn áréttar að hann skapi verk fyrst og fremst ánægjunnar vegna, en síðan endi reyndar mörg þeirra í höndum annarra. „Tilefnið kemur allt í einu,“ útskýrir hann og vísar meðal annars á listaverk í Kristniboðssalnum, hringlaga verk sem táknar jörðina.

„Þegar ég hætti að vinna þurfti ég að hafa eitthvað fyrir stafni og byrjaði að skera út í við,“ segir Willy, sem er blikksmiður að mennt og rak lengi fyrirtækið Blikksmiðinn. Hann vinnur við listina í aðstöðu borgarinnar í Norðurbrún og segist hafa verið þar í góðum félagsskap listamanna flesta morgna á virkum dögum í um áratug.

Til að byrja með skar Willy út hillur eins og prýddu mörg heimili í gamla daga áður en fjöldaframleiðsla varð allsráðandi. Síðan hefur hann búið til hvert listaverkið á eftir öðru. Má þar nefna útskorna krossa af ýmsum gerðum, lampa, klukkur, blóm, fugla, kertastjaka og mataráhöld að ónefndum silfurmunum. „Ég er svolítið í gamla hættinum, smíða oft eftir teikningum og rissi eða eftir ljósmyndum sem ég hef tekið af gömlum munum.“ Hann segist hafa farið á tvö kvöldnámskeið hjá Erni Sigurðssyni og síðan hafist handa. „Hér er enginn leiðbeinandi en menn með misjafnlega mikla reynslu og við miðlum henni hver til annars. Þetta er skemmtilegur hópur.“