Eiðsgrandi Steypt innbjúg skál safnar hljóðum hafsins og magnar þau upp.
Eiðsgrandi Steypt innbjúg skál safnar hljóðum hafsins og magnar þau upp. — Morgunblaðið/sisi
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Listaverkið Sjávarmál hefur verið sett upp á sjávarkambinum á Eiðsgranda í Reykjavík. Verkið var valið úr sjötíu innsendum tillögum um nýtt útilistaverk í Vesturbænum.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Listaverkið Sjávarmál hefur verið sett upp á sjávarkambinum á Eiðsgranda í Reykjavík. Verkið var valið úr sjötíu innsendum tillögum um nýtt útilistaverk í Vesturbænum. Höfundar listaverksins eru arkitektarnir Baldur Helgi Snorrason og David Hugo Cabo í samstarfi við Andra Snæ Magnason rithöfund.

Niðurstaða dómnefndar, sem birt var í fyrrasumar, er sú að Sjávarmál sé einstakt verk sem skapi spennandi umhverfi og fjalli um aðkallandi viðfangsefni um leið og það uppfylli öll skilyrði samkeppninnar um að auðga mannlíf í Vesturbænum.

Verkið er á Eiðsgranda til móts við Keilugranda, vestan megin við dælustöðina og blasir við hafi. Ekkert annað útilistaverk er á þessu svæði og nýja verkið er talið auka notagildi og aðdráttarafl svæðisins fyrir íbúa og þá sem þar eiga leið um.

Fram kemur í greinargerð dómnefndar að listaverkið Sjávarmál snúi að samskiptum manna við náttúruna og þeim breytingum sem eru að verða á henni. Í listaverkinu sé gömul hljóðmögnunaraðferð úr heimsstyrjöldinni fyrri nýtt til þess að magna upp hljóðin í hafinu. Á þeirri hlið listaverksins sem snýr að hafinu er steypt innbjúg skál sem safnar hljóðum hafsins og magnar þau upp með einföldu endurkasti fyrir þann sem stendur fyrir framan skálina eða situr á verkinu.

„Hljóðspegillinn vísar með skálina í átt að sjóndeildarhringnum og þátttakandinn situr eða stendur fyrir framan verkið og hlustar. Á bakhlið verksins eru greypt öll samheiti sem Íslendingar hafa notað yfir hafið og minnir okkur á 1000 ára samskipti okkar við útsæinn,“ segir í greinargerðinni, en í henni eru talin upp 65 heiti á hafinu.

Á koparplötu á hljóðspeglinum segir m.a. að hann magni ölduhljóðin og hvetji fólk til að hlusta. Ef fram fer sem horfir muni sýrustig hafsins breytast meira á einni mannsævi en síðustu 50 milljónir ára.