Dagmál Farið er yfir samgöngumál og ferðaþjónustu í þætti dagsins.
Dagmál Farið er yfir samgöngumál og ferðaþjónustu í þætti dagsins. — Ljósmynd/Hallur
Karítas Ríkharðsdóttir karitas@mbl.is Samgöngur eru lífæð samfélaga og hafa áhrif á alla fleti þess; verðmætasköpun, öryggi og aðgengi að þjónustu.

Karítas Ríkharðsdóttir

karitas@mbl.is

Samgöngur eru lífæð samfélaga og hafa áhrif á alla fleti þess; verðmætasköpun, öryggi og aðgengi að þjónustu. Um þetta eru Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar, Hildur Sverrisdóttir, aðstoðarmaður ferðamálaráðherra og frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins, og Álfheiður Eymarsdóttir, oddviti Pírata í Suðurkjördæmi, sammála.

Samgöngur og ferðaþjónusta eru til umræðu kosningaþætti Dagmála í dag, sem er jafnframt síðasti þátturinn þar sem einstök kosningamálefni eru tekin fyrir.

Hraðinn hefur tvöfaldast

„Við erum stödd núna við lok kjörtímabils þar sem framkvæmdahraðinn í samgöngum hefur tvöfaldast, eftir að hafa staðið í stað í rúman áratug,“ segir Líneik Anna, sem jafnframt hefur átt sæti í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis á kjörtímabilinu og er eini sitjandi þingmaðurinn frá Austurlandi.

„Það skiptir máli að nýta sem best verkfæri og þekkingu um land allt að það sé samfella,“ segir Líneik og bætir við að viðhalda þurfi því framkvæmdastigi sem nú er.

Hafna alfarið gjaldtöku

Álfheiður Eymarsdóttir segir Pírata hafna gjaldtöku af notkun samgöngumannvirkja og hugmyndafræðinni að þeir borgi sem noti. Að samgönguinnviðir séu grunninnviðir samfélagsins og þó að til séu dæmi um vel heppnaðar samvinnuframkvæmdir (PPP) í samvinnu stjórnvalda og einkaaðila, líkt og Hvalfjarðargöng, sé það ekki endilega almennt.

Fagna Höfuðborgarsáttmála

Allar fagna þær þó Höfuðborgarsáttmálanum, um uppbyggingu stofnvega, almenningssamgangna og hjólreiðarstíga á höfuðborgarsvæðinu, og að loksins hafi kyrrstaða verið rofin sem ríkt hefur um það. Hildur segir þó bæði skynsamlegt og eðlilegt að sjálfstæðismenn hafi gert fyrirvara við uppbyggingu borgarlínu til að byrja með og að forsenda þess að hægt væri að fallast á uppbygginguna hafi verið að opinbert félag myndi stýra henni en ekki meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur.

Í þættinum er tekist á um Vaðlaheiðargöng, fjármögnun samgönguáætlunar, stefnumótun og flugvallamál.

„Ég hefði ekki getað ímyndað mér fyrir rúmu ári síðan að ég myndi sitja hérna núna og segja: staðan er bara ágæt,“ segir Hildur um stöðu ferðaþjónustunnar á Íslandi, eftir fall heils flugfélags og heimsfaraldur. Hún þakkar seiglu fólksins í iðnaðinum fyrst og fremst en einnig stuðningi stjórnvalda.

Líneik bendir á áskorun Norður- og Austurlands að laða til sín ferðamenn og mikilvægi þess að viðhalda og fjölga gáttum inn í landið.

Álfheiður segir Pírata telja tímann ekki hafa verið nýttan í heimsfaraldri til stefnumótunar í ferðaþjónustu en Hildur segir opinbera stefnumótun í málaflokknum hafa staðist tímans tönn. Stefna í gjaldtöku við og á ferðamannastöðum sé enn óútfærð.