Hjálmar Árnason
Hjálmar Árnason
Eftir Hjálmar Waag Árnason: "Við megum ekki láta það slys henda að þau detti út af þingi. Til þess eru þau of mikilvæg fyrir hagsmuni fólks. Lilju og Ásmund Einar á þingi áfram."

Margir eru þeirrar skoðunar að þau Ásmundur Einar Daðason og Lilja Dögg Alfreðsdóttir hafi sýnt í verki að þau eru áræðnir stjórnmálamenn. Hafi framtíðarsýn og það sem meira er um vert eru reiðubúin að hrinda málum í framkvæmd.

Lilja Dögg, sem menntamálaráðherra, lagði þunga áherslu á að koma starfsnámi á verðugri stall en verið hefur. Árangurinn varð sá að aldrei í sögunni hefur aðsókn í starfsnám verið jafn mikil. Fór langt fram úr björtustu vonum. Sú þróun á eftir að skila sér á svo margan hátt til samfélagsins. Þá varð bylting í málefnum námslána. Langur draumur um námsstyrki í stað lána varð að veruleika og jók þannig á jafnrétti til náms. Eitt af stærri baráttumálum námsfólks varð allt í einu að veruleika. Þessi tvö stórmál, auk fjölmargra annarra, sýna að Lilja Dögg er manneskja sem lætur verkin tala.

Lilju verðum við að tryggja áframhaldandi þingsetu. Málefnin kalla.

Ásmundur Einar hefur aldeilis ekki setið aðgerðalaus á stól barna- og félagsmálaráðherra. Fyrsti barnamálaráðherra í sögu lýðveldisins segir margt um áherslur Ásmundar Einars. Við höfum öll tekið eftir hugsjónaeldi þeim sem brennur innra með honum fyrir málefnum barna. Lengi hefur verið talað um að barnaverndarnefndir ættu að vera skipaðar fagfólki fremur en pólitíkusum. Nú er sú orðin staðreyndin. Fjölmargar aðgerðir sem allar stuðla að auknum réttindum og velferð barna urðu að lögum fyrir forgöngu Ásmundar Daða.

Húsnæðismál hafa gífurlega mikil og oft þung áhrif á fjármál fjölskyldna. Fyrsta íbúð er oft sá baggi er mörgum hefur orðið ofviða og getið af sér sorglegar afleiðingar. Með mýmörgum frumvörpum, sem urðu að lögum, hefur nú staða leigjenda og tekjulágra gjörbreyst. Félagslegt réttlæti er einkenni þeirra aðgerða. Ási hefur lýst því að á næsta kjörtímabili vilji hann taka málefni eldri borgara sömu tökum og hann tók málefni barna á liðnu kjörtímabili.

Mörg mál bíða úrlausnar. Má þar nefna frekari stuðning við námsfólk, börn og barnafólk. Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Ásmundur Einar Daðason bjóða krafta sína til áframhaldandi verka á því sviði. Við megum ekki láta það slys henda að þau detti út af þingi. Til þess eru þau allt of mikilvæg fyrir hagsmuni fólksins. Þess vegna hvet ég alla til að ljá þeim atkvæði sitt í kosningunum nú í september. Það eru hagsmunir okkar allra.

Höfundur er fyrrverandi þingmaður. hjalmarwaag2@gmail.com

Höf.: Hjálmar Waag Árnason