Ströndin Heiðrún og Stefán með dóttur sinni.
Ströndin Heiðrún og Stefán með dóttur sinni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Heiðrún Ósk Ólafsdóttir fæddist 7. september 1981 á Sjúkrahúsinu á Akureyri. „Ég ólst upp í þorpinu á Akureyri, var í Síðuskóla alla mína tíð og held að æska mín hafi verið ósköp hefðbundin.“ Heiðrún fór oft í sveitina til afa og ömmu á Hofi í Arnarneshreppi. „Við frændsystkinin vorum mikið í sveitinni og það var oft fjör og glatt á hjalla.“ Hún segir að sumrin hafi að mestu liðið í leik en þau fengu að hjálpa aðeins til. „Við fengum að gefa kúnum og rákum svo kýrnar. En svo vorum við bara mest að leika okkur og það var mjög gaman.“

Heiðrún Ósk Ólafsdóttir fæddist 7. september 1981 á Sjúkrahúsinu á Akureyri. „Ég ólst upp í þorpinu á Akureyri, var í Síðuskóla alla mína tíð og held að æska mín hafi verið ósköp hefðbundin.“ Heiðrún fór oft í sveitina til afa og ömmu á Hofi í Arnarneshreppi. „Við frændsystkinin vorum mikið í sveitinni og það var oft fjör og glatt á hjalla.“ Hún segir að sumrin hafi að mestu liðið í leik en þau fengu að hjálpa aðeins til. „Við fengum að gefa kúnum og rákum svo kýrnar. En svo vorum við bara mest að leika okkur og það var mjög gaman.“

Heiðrún byrjaði í Menntaskólanum á Akureyri að loknum grunnskóla og var mjög virk í félagslífinu í skólanum. Hálfnuð í skólanum ákvað hún að færa sig yfir í Verkmenntaskólann á Akureyri og útskrifaðist þaðan um vorið 2001. Meðfram skólanum, alveg frá fjórtán ára aldri, hafði hún unnið í versluninni Hrísalundi sem tilheyrði KEA-samsteypunni og er Nettó-búð í dag. „Mamma var aðstoðarverslunarstjóri þar og við systurnar unnum þar báðar á sínum tíma, má segja að þessi vinnustaður hafi kennt manni að vinna. Það var alltaf gott að geta gengið að þessari vinnu, alltaf pláss fyrir gott fólk og þarna unnu margir skemmtilegir krakkar.“

Þegar hún var orðin stúdent ákvað hún að fara sem „au pair“ til Bandaríkjanna, en ferðin var aðeins öðruvísi en áætlað hafði verið. „Ég lenti í New York 10. september 2001. Daginn eftir var ég að hringja heim í mömmu til að segja henni að ferðin hefði gengið vel og ég væri lent og allt í góðu standi. Á sömu stundu voru flugvélarnar á leiðinni í átt að tvíburaturnunum.“ Hún segir að árásin hafi haft gífurlega mikil áhrif á allt og ástandið í borginni hafi verið skelfilegt. Það endaði með því að hún fór heim fyrr en áætlað var, eða eftir tvo mánuði. „Ég fékk eiginlega enn þá meira áfall þegar ég kom heim og fékk þessa fjarlægð á hryðjuverkin. Svo mikið er víst að ég gleymi því aldrei hvar ég var stödd þennan dag!“

Þegar Heiðrún kom heim fór hún að vinna fulla vinnu í Hrísalundi og síðan á leikskóla í bænum. Þá ákvað hún að fara að mennta sig meira. „Ég hafði alltaf haft áhuga á lögfræði og oft sagt í gegnum tíðina að ég vildi verða lögfræðingur.“ Hún fór í Háskólann á Akureyri og lauk meistaragráðu í lögfræði árið 2010. „Þetta var mjög ný deild þegar ég byrjaði, ég var þriðji árgangurinn sem útskrifaðist. BA-námið var mikið til uppbyggt á heimspeki, alþjóðalögfræði og samanburðarlögfræði, svo var meistaranámið meira íslensk lögfræði.“ Heiðrún skrifaði meistararitgerð sína um málefni barnaverndar, en þau mál eru henni mjög hugleikin og finnst henni þau mjög áhugaverð. „Eftir að ég tók sæti á lista fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 2014 hef ég verið varamaður í Barnaverndarnefnd Eyjafjarðar, þannig að það má segja að þessi málaflokkur þyki mér mjög áhugaverður.“

Meðfram háskólanáminu byrjaði Heiðrún að vinna hjá Kaupþingi sem síðan varð Arion banki og hélt því áfram ári eftir útskriftina. Í Arion banka kynntist hún sambýlismanni sínum, Stefáni Þór, en þau hafa verið saman í 11 ár. „Hann byrjaði að vinna í bankanum sumarið 2009 en við byrjum saman um haustið 2010, kaupum okkur hús 2013 og eignuðumst okkar fyrsta barn 2015 og seinna barnið kom svo í fyrra, árið 2020.“

Heiðrún fékk starf sem lögfræðingur hjá Umboðsmanni skuldara þegar það embætti opnaði útibú á Akureyri og fór svo að vinna hjá sýslumanni við innheimtu skatta í kjölfarið á því. Núna starfar hún sem verkefnastjóri yfir námsbraut lögreglufræði við Háskólann á Akureyri. „Árið 2016 var Lögregluskóli ríkisins lagður niður og menntun lögreglumanna færð upp á háskólastig og Háskólanum á Akureyri falið það verkefni að sjá um menntun lögreglumanna. Starf mitt er mjög fjölbreytt og skemmtilegt, engir tveir dagar eru eins. Ég er í samskiptum við nemendur og kennara, varðandi kennslu, er tengiliður námsbrautarinnar við Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglunnar sem sér um starfsnámshluta námsins, þar sem háskólinn hefur ekki burði til að sjá um verklega kennslu á borð við valdbeitingu eða forgangsakstur lögreglubifreiða allt í að sitja á fundum tengdum fræðasviðinu. Námið er nýtt og því í stöðugri þróun til að gera það betra og erum við m.a. í samstarfi við lögregluskólana á Norðurlöndum og hef ég fengið tækifæri til að heimsækja nokkra skóla og kynnast því hvernig námið fer fram þar. Mér finnst ég í skemmtilegasta starfinu og finnst frábært að fá tækifæri til að taka þátt í að móta námið og koma þannig að menntun lögreglumanna á Íslandi.“

Heiðrún hefur einnig verið virk í félagsmálum. „Ég var á lista fyrir Sjálfstæðisflokkinn í bæjarstjórnarkosningum 2014. Nú ólst ég ekki upp í pólitískri fjölskyldu, en vinkona mín hafði verið á lista áður og stefna flokksins heillaði mig og hentaði mínu lífsmunstri. Síðan hef ég verið talsvert virk innan Sjálfstæðisflokksins á Akureyri.“ Heiðrún er gjaldkeri í fulltrúaráði flokksins og hefur verið á þriðja ár og eins er hún ritari í Vörn, félagi sjálfstæðiskvenna á Akureyri.

Eins og gefur að skilja er kannski ekki mikill tími fyrir áhugamál þegar lítil börn eru á heimilinu og segir Heiðrún að það sé iðulega ansi mikið að gera. „Ég hef alltaf gaman af því að hitta fjölskyldu og vini, en er ekkert í því að klífa fjöll eða hjóla um landið,“ segir hún hlæjandi. „Tengdafjölskylda mín á hús í Lundsskógi í Fnjóskadal og förum við gjarnan þangað á sumrin, þar er dásamlegt að vera og njóta.“

Fjölskylda

Sambýlismaður Heiðrúnar er Stefán Þór Þórðarson viðskiptafræðingur, f. 22.10. 1986, og þau búa á Akureyri. Foreldrar hans eru hjónin Þórður Stefánsson rennismiður, f. 14.11. 1964, og Kristbjörg Þóroddsdóttir, f. 12.4. 1966. Börn Heiðrúnar og Stefáns Þórs eru Amelía Erla, f. 26.7. 2015 og Þórður Ísak, f. 8.1. 2020. Heiðrún á systkinin Brynju Hrönn hjúkrunarfræðing, f. 7.3. 1979 og Jóhann Val (samfeðra) sjómann, f. 24.5. 1972.

Foreldrar Heiðrúnar eru hjónin Ólafur Jakobsson ofnasmiður, f. 11.2. 1949 og Erla Bjarnadóttir, f. 22.11. 1954. Þau búa á Akureyri.