Richard Gere Myndin er tekin árið 2007.
Richard Gere Myndin er tekin árið 2007. — Reuters
Hefði ég verið spurður um millinafn bandaríska leikarans og hjartaknúsarans Richards Geres árið 2007 hefði ég verið í vandræðum. Ég er ekki viss um að dugað hefði að spyrja salinn, taka burt tvö röng svör eða hringja í vin.

Hefði ég verið spurður um millinafn bandaríska leikarans og hjartaknúsarans Richards Geres árið 2007 hefði ég verið í vandræðum. Ég er ekki viss um að dugað hefði að spyrja salinn, taka burt tvö röng svör eða hringja í vin. Enda þótt ég eigi nokkra sérkennilega vini þá er ég ekki viss um að neinn þeirra viti þetta.

Til allrar hamingju var téð spurning í fjórtán ár á leiðinni til mín; náði loksins í skottið á mér á hótelherbergi úti á landi fyrir skemmstu. Ég kveikti snöggvast á sjónvarpinu áður en ég lagðist til hvílu og á skjánum var breska útgáfan af spurningaþættinum vinsæla Viltu vinna milljón? frá árinu 2007. Og nú vissi ég svarið. Þurfti hvorki að spyrja salinn, taka burt tvö röng svör né hringja í vin. Þurfti ekki einu sinni að sjá möguleikana fjóra. Tiffany! hrópaði ég áður en þeir birtust. Tiffany, maður! Svarið er Tiffany! Tiffany! Veit ekki hvað gestirnir í næsta herbergi héldu.

En hvurs vegna vissi ég þetta nú en ekki árið 2007? Jú, ég rakst á kappann í einhverjum dramaþætti á RÚV tveimur dögum áður en ég tékkaði inn á hótelið og þar sem ég hafði ekki séð hann lengi fletti ég honum til gamans upp á Wikipedíu, hvað hann væri orðinn gamall og þar fram eftir götunum. Þá blasti millinafnið við. En sú heppni.

Orri Páll Ormarsson

Höf.: Orri Páll Ormarsson