Landskjörstjórn hefur auglýst mörk norður- og suðurkjördæma í Reykjavík fyrir komandi þingkosningar. Hafa mörkin breyst frá kosningunum 2017 og ber þar hæst að hluti Grafarholts færist í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Landskjörstjórn hefur auglýst mörk norður- og suðurkjördæma í Reykjavík fyrir komandi þingkosningar. Hafa mörkin breyst frá kosningunum 2017 og ber þar hæst að hluti Grafarholts færist í Reykjavíkurkjördæmi norður. Áður hefur hverfið nær eingöngu verið í suðurkjördæminu. Kjörstaður verður áfram í Ingunnarskóla fyrir alla íbúa hverfisins.

Frá vestri til austurs skiptir Hringbraut, Miklabraut, Ártúnsbrekka og Vesturlandsvegur kjördæmunum þar til komið er að Víkurvegi. Grafarholtshverfi skiptist milli suður- og norðurkjördæmis um Reynisvatnsveg í austur að Jónsgeisla og Jónsgeisla að Krosstorgi. Þaðan eru mörkin dregin austur eftir Gvendargeisla og Biskupsgötu að Reynisvatnsvegi og að landamörkum Reykjavíkurborgar. Kjalarnes tilheyrir Reykjavíkurkjördæmi norður eins og áður. Kosið verður á 23 stöðum í Reykjavík hinn 25. september og bætast fimm nýir kjörstaðir við; Frostaskjól, eða KR-heimilið, Höfðatorg, Álftamýrarskóli, Foldaskóli og Rimaskóli.