Veðurblíða Mikil aðsókn hefur verið í hvalaskoðunarferðir á Eyjafirði í blíðviðrinu sem hefur verið þar um slóðir.
Veðurblíða Mikil aðsókn hefur verið í hvalaskoðunarferðir á Eyjafirði í blíðviðrinu sem hefur verið þar um slóðir. — Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Sumarið 2021 hefur verið einstaklega hlýtt. Þetta er hlýjasta sumar frá upphafi mælinga á Akureyri, Egilsstöðum, Dalatanga og Grímsstöðum á Fjöllum og það næsthlýjasta í Grímsey og Bolungarvík.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Sumarið 2021 hefur verið einstaklega hlýtt. Þetta er hlýjasta sumar frá upphafi mælinga á Akureyri, Egilsstöðum, Dalatanga og Grímsstöðum á Fjöllum og það næsthlýjasta í Grímsey og Bolungarvík. Á Akureyri hafa mælingar staðið yfir í 141 ár samfellt og 148 ár í Grímsey.

Í tíðarfarsyfirliti Veðurstofunnar, þar sem fjallað er um mánuðina júní, júlí og ágúst, segir að sumarið hafi byrjað í kaldara lagi. Óvenjukalt var á landinu um miðjan júní og það frysti og snjóaði víða í byggð. Gróður tók hægt við sér eftir kalt og þurrt vor.

Í lok júní hlýnaði til muna og við tóku óvenjuleg hlýindi á Norður- og Austurlandi sem héldu áfram nánast óslitið út sumarið. „Það var óvenjusólríkt og þurrt í þeim landshlutum á meðan þungbúnara og tiltölulega svalara var suðvestanlands,“ segir í yfirlitinu.

Dagar þegar hámarkshiti mældist 20 stig eða meira einhvers staðar á landinu voru 57 í sumarmánuðunum þremur og hafa slíkir dagar aldrei verið fleiri (þeir voru 8 í júní, 29 í júlí og 20 í ágúst).

Úrkoman undir meðallagi

Meðalhiti í Reykjavík var 11,0 stig þessa mánuði, sem er 0,2 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en jafn meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhiti sumarmánaðanna þriggja í Reykjavík er í 26. sæti á lista 151 árs. Á Akureyri var meðalhitinn 12,8 stig, 2,3 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en 2,2 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára.

Úrkoma í Reykjavík mældist 121,6 millimetrar, sem er um 75% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoma sumarmánaðanna þriggja 31,9 mm sem er aðeins um 35% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Úrkoma hefur aldrei mælst svo lítil í þessum þremur mánuðum á Akureyri frá upphafi samfelldra úrkomumælinga þar árið 1928.

Sólskinsstundir mældust 362,5 í Reykjavík, 175 færri en að meðaltali 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 629,5 sem er 149 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Mánuðirnir þrír hafa tvisvar verið sólríkari á Akureyri en nú, árin 2012 og 1971.

Fram kemur í tíðarfarsyfirlitinu að óvenjuleg hlýindi voru á landinu öllu í nýliðnum ágúst. Mánuðurinn var sá hlýjasti frá upphafi mælinga á allmörgum stöðvum, t.d. á Akureyri, Stykkishólmi, Bolungarvík, Hveravöllum og Grímsey. Hlýjast var dagana 23. til 25. ágúst. Hæsti hiti mánaðarins mældist 29,4 stig á Hallormsstað þann 24. og er það hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í ágúst. Óvenjuþurrt og sólríkt var á Norðaustur- og Austurlandi, en þungbúið suðvestanlands. Mánuðurinn var hægviðrasamur.