Anna Guðný Sigurbergsdóttir fæddist í Reykjavík 28. apríl 1935. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli 26. ágúst 2021.

Foreldrar Önnu voru Valgerður María Guðnadóttir, f. á Óspaksstöðum í Hrútafirði 28. október 1894, d. 17. júlí 1966, og Sigurbergur Sigurbergsson, f. í Fjósakoti í Meðallandi 18. maí 1892, d. 26. ágúst 1981.

Systkini Önnu voru: Margrét, f. á Seltjarnarnesi 8. apríl 1921, d. 13. september 2001, Guðrún, f. í Breiðholti við Reykjavík 20. desember 1922, d. 2. maí 2006, Haraldur, f. 12. mars 1928, d. 27. október 2014 og Steindór, f. í Reykjavík 21. júní 1930, d. 18. október 1935.

Eftirlifandi eiginmaður Önnu er Tómas Símonarson, f. 25. júlí 1934. Foreldrar Tómasar voru Sigríður Björg Tómasdóttir, f. í Neskaupstað 19. september 1906 og Símon Eyjólfsson, f. 3. nóvember 1913 í Merkinesi, Höfnum. Anna og Tómas gengu í hjónaband 19. apríl 1958. Börn þeirra eru: 1) Valur Tómasson, f. 2. júlí 1957, eiginkona hans var Jónína Dagný Hilmarsdóttir, f. 25. apríl 1954, d. 19. janúar 2019. 2) Sigríður Björg Tómasdóttir, f. 1. apríl 1971, maki Atli Jósefsson, f. 29. febrúar 1972, börn þeirra: Tómas, f. 29. desember 2004, Ásdís María, f. 26. október 2007. 3) Berglind María Tómasdóttir, f. 9. ágúst 1973, eiginmaður Sæmundur Ari Halldórsson, f. 18. maí 1981, börn þeirra: Anna Signý, f. 27. september 2009, Sigríður Lára og Svanfríður Lilja, f. 20. desember 2012. Sonur Berglindar og Atla Rafns Sigurðarsonar: Sigurbjartur Sturla Atlason, f. 26. september 1992, maki Steinunn Arinbjarnardóttir, f. 24. september 1994. Sonur Tómasar og Sigrúnar Ingimarsdóttur er Daði Tómasson, f. 5. febrúar 1957, maki Anne Marina Bardtrum, f. 11. febrúar 1964. Dætur Daða og Piu Løve Sørensen: Sara Løve, f. 25. ágúst 1984, Sandra Løve, f. 23. apríl 1988.

Anna ólst upp í Reykjavík fyrstu árin þar til fjölskyldan flutti búferlum í Arnarbælishverfi í Ölfusi þar sem foreldrar hennar stunduðu búskap. Hún gekk í barnaskóla í Hveragerði. Á unglingsárum flutti hún til Reykjavíkur þar sem hún lauk landsprófi og síðar stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík en þaðan útskrifaðist hún árið 1954. Hún lagði stund á þýskunám í Heidelberg að loknu stúdentsprófi.

Anna vann hjá skrifstofu Ríkisspítalanna og Olíufélaginu á fyrri hluta starfsævinnar. Hún var heimavinnandi í um 10 ár. Á síðari hluta starfsævinnar vann hún lengst af á skrifstofu heimspekideildar Háskóla Íslands.

Anna verður jarðsungin frá Áskirkju 7. september 2021 kl. 13.

Streymt verður frá útförinni:

https://hljodx.is/index.php/streymi2

Hægt er að nálgast streymið á:

https://www.mbl.is/andlat

Mamma var hlý og góð kona, skarpgreind og skemmtileg. Það var gott að leita til hennar og gaman að ræða við hana um heima og geima. Á góðum samverustundum var kaffibollinn aldrei langt undan og bakkelsi á boðstólum, heimabakað.

Mamma var húsmóðir af gamla skólanum, átti alltaf til kökur og var þar fyrir utan dugleg að baka pönnukökur og skonsur fyrir gesti og gangandi. Maturinn var hefðbundinn, lambasteik í hádeginu á sunnudögum, fiskur á mánudögum. Auðvitað var þetta algjört dekur, þvotturinn birtist samanbrotinn og straujaður á æskuheimilinu og það var alltaf til alls konar góðgæti í ísskápnum.

Áhugasvið mömmu einskorðaðist þó alls ekki við heimilið, því fer fjarri. Hún fylgdist mjög vel með þjóðmálum alla tíð, hlustaði á fréttir og hún var líka mikill lestrarhestur. Hún kunni ótal vísur frá barnæsku, var áhugakona um íslenskt mál og hafði gaman af því að velta tungumálinu fyrir sér.

Bókaáhugann fékk hún í arf frá móður sinni, Valgerði, og hún skilaði honum áfram til barnanna sinna þriggja. Við vorum öll læs fyrir skólagöngu eftir kennslu hjá henni og í Fossvoginum þótti okkur mikið lán að búa í göngufæri við Bústaðasafn sem var í kjallara Bústaðakirkju, þar var mamma fastagestur og við systur einnig frá unga aldri.

Mamma ól barnæskuna í Ölfusinu og var mikill dýravinur alla tíð. Á ferðum um landið stúderaði hún kýr og fannst reyndar gaman að virða skepnur fyrir sér erlendis, þær voru svo allt öðruvísi en þessar íslensku. Að loknu landsprófi fór hún í Menntaskólann í Reykjavík og þaðan út á vinnumarkaðinn. Mamma og pabbi byggðu sér hús í Fossvogi á fertugsaldrinum og þar bjuggu þau í áratugi, þar var mitt æskuheimili sem var hlýlegt og fallegt, áður höfðu þau búið á Kirkjuteig og Háaleitisbraut.

Eftir að hafa verið heimavinnandi um ríflega tíu ára skeið fór mamma aftur út á vinnumarkaðinn. Fljótlega var hún svo heppin að fá starf á skrifstofu heimspekideildar við Háskóla Íslands. Þar sinnti hún skrifstofustörfum en nýtti um leið tækifærið til að drekka í sig ýmiss konar fróðleik og hitta skemmtilegt fólk, kennara og nemendur.

Mamma hafði svo mikinn áhuga á fólki og kunni vel við sig í margmenni. Hún fylgdist vel með öllum í kringum sig, vildi vita hvað vinir okkar systkina tóku sér fyrir hendur og svo var ekki verra ef hægt var að ættfæra, hún var mikil áhugakona um ættfræði. Hún var líka mjög ættrækin, hugsaði vel um systkini sín og ekki síður tengdafjölskylduna. Þá tók hún fjölskyldu Daða, sonar pabba, afskaplega vel og sinnti þeim einnig af alúð og áhuga.

Þegar fjölgaði í fjölskyldunni var hún boðin og búin að aðstoða, passaði barnabörnin, bauð í mat og kom færandi hendi með pönnukökur í barnaafmælin. Þetta er verðmætt og ég er mjög þakklát fyrir að börnin mín hafi náð að kynnast henni. Við náðum mörgum góðum sumarbústaðaferðum saman frá því að þau fæddust, þeirri síðustu sumarið 2016, en upp úr því fór heilsunni að hraka verulega.

Mamma fékk alzheimer og þá gerðist það smám saman að hún missti tengslin, áttirnar, minnið. Það sem hún mundi lengst voru vísur og lög sem hún lærði í æsku, hún botnaði vísur og tók lengi vel undir lög þegar við sátum saman á Skjóli, hjúkrunarheimilinu sem hún dvaldi á síðustu 18 mánuði.

Takk fyrir allt, elsku mamma, minning þín lifir hjá afkomendum, fjölskyldu og vinum.

Sigríður Björg Tómasdóttir.

Okkar yndislega tengdamóðir, Anna Guðný Sigurbergsdóttir, hefur nú skilið við og eftir standa minningar um fallega, athugula og þolinmóða manneskju sem fór fyrir Kúrlandsfjölskyldunni með bros, umhyggju og forvitni að leiðarljósi. Við vorum teknir inn í fjölskylduna á svipuðum tíma eða um það leyti þegar þau hjónin, Anna og Tómas, voru við það að flytjast á Kirkjusand frá þeim rómaða stað, Kúrlandi 7, endaraðhúsi á fallegum stað í Fossvogi. Þar voru Anna og Tómas frumbyggjar og þar ólust upp þau systkini Sigga, Berglind og Valur. Báðir náðu við hinsvegar í skottið á Kúrlandinu, sem var eins gott, því þannig gátum við betur áttað okkar á þeim fjölda sagna sem yfir okkur dundu af Kúrlandsárum.

Alltaf nutum við þess að heimsækja þau hjón á Kirkjusandinn, því eins og þeirra hjóna var háttur, var þar allt í röð og reglu og gengið að flestu sem vísu. Tekið var vel á móti gestum, með hlýju og sætindum sem ekki var komist hjá því að smakka. Barnabörnin tóku að banka upp á hvert af öðru og öllum vel tekið. Langfyrstur kom Bjartur, prinsinn af Kúrlandi, en svo Tómas, Ásdís, Anna Signý, og svo Sigga og Svana. Ófáir kaffibollarnir og kókflöskurnar hafa runnið þar niður við borðstofuborðið sem veit móti Faxaflóa. Það var einmitt þar sem Anna naut sín hvað best. Þar sagði hún sögur af fólkinu sínu, liðnu sem lifandi, ferðalögum þeirra heiða á milli fyrir vestan og baráttu þeirra við fljótin sunnanlands. Anna var ættuð úr Meðallandinu og þangað leitaði hugur hennar svo gjarnan, við sögu komu m.a. Kötlugos, Kúðafljót og kleinubakstur. Allt virtist hún muna og virtist þekkja deili á flestum. Í ofanálag var hún með afbrigðum skýr, vel lesin og skemmtileg í frásögn og öllum ljóst að þar var á ferð fluggreind kona. Eftir að þau hjónin hættu að vinna tóku við mörg góð ár sem einkenndust af samveru með barnabörnum, bóklestri og ferðalögum um víðan völl, frá Korsíku til Kaliforníu.

Skömmu eftir að tók að bera á minnisleysi hjá ömmu sem allt mundi, hófst sársaukafull glíma við erfiðan sjúkdóm sem að lokum tók hana frá okkur. Við erum þakklátir fyrir að börnin okkar hafi náð að kynnast henni og yljum okkur við sögurnar af fólkinu hennar sem eflaust rifjast upp hverjar á fætur annarri næst þegar við eigum leið um Hrútafjörðin, Meðallandið eða Ölfusið.

Atli Jósefsson, Sæmundur Ari Halldórsson.

Á kveðjustundu Önnu blaktir íslenski fáninn í suðrænni golunni hjá okkur í Atlanta og við kertalogann hrannast upp minningar. Við hugsum til baka með þakklæti fyrir að hafa verið svo lánsöm að kynnast Önnu og eftirlifandi eiginmanni hennar, Tómasi Símonarsyni, þegar við fluttum í Kúrlandið.

Strax kom í ljós að betri nágranna var ekki hægt að hugsa sér. Þegar hugsað er til baka eru svo margar minningar sem koma upp í hugann. Eins og t.d. lyktin af skonsubakstrinum, en Anna bakaði bestu skonsur í bænum. Fallegi garðurinn sem var svo snyrtilegur og fínn að ég varð að fara að hafa mig alla við til að verða vini mínum Tómasi ekki til skammar. Eitt vorið, sumarið eftir að mín sumarblóm voru mjög léleg, buðust þið til að kaupa líka fyrir mig þegar þið færuð til Ingibjargar í Hveragerði að kaupa blóm, og varð það síðan árlegur viðburður.

Á svölunum hjá okkur var blóm í potti sem Anna var oft að dást að og ég gleymi aldrei augnglottinu og hlátrinum þegar hún sagðist hafa stolið afleggjara og uppgötvaði að blómið var silki. Þá hlógum við báðar.

Nú að ekki sé minnst á hann Bangsa, köttinn okkar, sem Tómas leit illu auga þegar hann var að atast í fuglahúsinu, en Anna brosti og gaf honum fiskafganga, sem Bangsa þóttu mjög góðir. Já, við vorum öll góðir vinir.

Við eigum góðar minningar frá veru okkar í Kúrlandi og samskiptunum okkar við Önnu og fjölskyldu hennar. Minningarnar eru það dýrmætasta sem við eigum, þær geymast í huganum og ylja okkur um hjartarætur. Þessar ylur er hér í suðrænni golunni.

Kæri Tómas, hugur okkar er hjá þér og þínum ættingjum. Guð gefi þér styrk og blessi minningu Önnu.

Björg Ólafsdóttir og Þröstur Guðmundsson.