„Ef við lítum bara á þróunina síðustu viku og svo núna yfir helgina þá getum við sagt það að kúrfan sé klárlega niður á við,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir en 26 greindust með kórónuveiruna innanlands á sunnudag.

„Ef við lítum bara á þróunina síðustu viku og svo núna yfir helgina þá getum við sagt það að kúrfan sé klárlega niður á við,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir en 26 greindust með kórónuveiruna innanlands á sunnudag. 16 voru í sóttkví við greiningu, eða rúm 60%.

Átta manns liggja á sjúkrahúsi, sem er fækkun um einn frá deginum áður. Enginn er á gjörgæslu. Þrjú smit greindust á landamærunum, þar af er beðið eftir mótefnamælingu í einu tilviki.

629 eru í einangrun, sem er fækkun um 58 milli daga. 1.349 manns eru í sóttkví og er það fækkun um 114.

418 eru í einangrun á höfuðborgarsvæðinu en næstflestir eru í einangrun á Suðurnesjum, eða 96 talsins. Þar er fjölgun um fimm á milli daga. Á höfuðborgarsvæðinu nemur fækkunin aftur á móti 47 manns.

Byrjað verður að framkvæma hraðpróf í húsnæði Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á Suðurlandsbraut 34 í dag. Sérstök aðstaða hefur verið útbúin fyrir hraðprófin en þau eru ætluð fyrir fólk sem gert er að sæta smitgát í stað sóttkvíar. Þá fer fólk í hraðpróf á fyrsta degi og síðan aftur á fjórða degi. Þegar neikvæð niðurstaða úr seinna hraðprófinu liggur fyrir er smitgát aflétt.