Baldur Arnarson baldura@mbl.is Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, telur rétt að endurskoða hömlur á erlendri fjárfestingu lífeyrissjóða. Varða þær gjaldeyrisáhættu af fjárfestingunni.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, telur rétt að endurskoða hömlur á erlendri fjárfestingu lífeyrissjóða. Varða þær gjaldeyrisáhættu af fjárfestingunni.

Þetta kemur fram í skýrslu Más fyrir fjármálaráðherra en nokkrir þingmenn óskuðu eftir greiningu á stöðu sjóðanna í hagkerfinu.

Már bendir á að síðustu tvo áratugi hafi sjóðirnir farið úr því að vera tæplega 80% af landsframleiðslu í rétt rúmlega 180%. Spyr svo hvort sú mikla sjóðsöfnun muni grafa undan markmiðum um ávöxtun með því að þrýsta niður ávöxtun á fjármagni.

Svarið er að litlar líkur séu á því ef sjóðirnir fjárfesta erlendis. Án erlendra fjárfestinga verði raungengi og eignaverð hærra en ella hér á landi sem aftur geti verið „varasamt með tilliti til efnahagslegs og fjármálalegs stöðugleika“.

Analytica vann skýrslu fyrir ráðherra um lántökur ríkissjóðs.

Niðurstaðan var að skuldastaða ríkissjóðs verði orðin sjálfbær við lok ríkisfjármálaáætlunar (2022-26) en að skuldasöfnun í takt við árin 2021-2024 sé ósjálfbær til lengdar. Nettóskuldir ríkissjóðs muni aukast um 1.300 ma. árin 2020-2026 (sjá graf).

Þá telur Analytica lítið svigrúm fyrir Seðlabankann til að greiða fyrir hallareksturinn með peningaprentun, enda gæti slíkt valdið verðbólgu.

Hvað snertir svigrúm til erlendrar lántöku, í því skyni að fjármagna hallann á ríkissjóði, sé ekki sjálfgefið að slík lántaka þurfi að hafa áhrif á gengi krónunnar. Það sé enda háð mótvægisaðgerðum sem geti jafnað út áhrifin á krónuna í báðar áttir.

Loks telur Analytica góðar líkur á að ríkið muni geta sótt sér fjármagn þessi hallaár. Því verki sé nær lokið í ár og horfur góðar næsta ár.