Veðurstofan gerði ráð fyrir því í gær að hlaupvatn úr Eystri-Skaftárkatli kæmi fram við Eldvatn í nótt eða snemma í morgun. Eftir það eykst rennslið jafnt og þétt og nær líklega hámarki við þjóðveg 1 seint annað kvöld eða aðfaranótt fimmtudags.

Veðurstofan gerði ráð fyrir því í gær að hlaupvatn úr Eystri-Skaftárkatli kæmi fram við Eldvatn í nótt eða snemma í morgun. Eftir það eykst rennslið jafnt og þétt og nær líklega hámarki við þjóðveg 1 seint annað kvöld eða aðfaranótt fimmtudags. Vaxa fór í ánni við Sveinstind upp úr hádegi í gær og miðað við fyrri hlaup nær hlaupið hámarki þar rúmlega 30 klukkustundum síðar.

Hlaup úr báðum kötlunum

Skaftárkatlarnir eru tveir í vestanverðum Vatnajökli. Hlaup úr Vestari-Skaftárkatli hófst um síðustu mánaðamót og var óvissustigi almannavarna lýst yfir vegna þess 1. september. Hlaup úr vestari katlinum eru alla jafna mun minni en úr þeim eystri.

Skaftárhlaup eins og þau koma fram í dag hófust árið 1955, að því er segir á vef Veðurstofunnar. Síðan þá er vitað um 58 jökulhlaup í Skaftá. Venjulega hleypur úr hvorum katli um sig á tveggja ára fresti.

Í hættumati vegna jökulhlaupa í Skaftá, Skaftárkatlar – saga og þróun 1938-2018 (vedur.is), eftir Magnús Tuma Guðmundsson, Eyjólf Magnússon, Þórdísi Högnadóttur, Finn Pálsson og Cristian Rossi, er rakin þróun Skaftárkatla síðustu átta áratugina. Þar kemur m.a. fram að heimildir séu um lítil hlaup aftur á 18. öld. Eystri-Skaftárketill var tiltölulega lítill allt fram á fimmta áratug 20. aldar en á tímabilinu frá 1940 til 1970 þróuðust Skaftárkatlar úr því að vera lítið jarðhitasvæði yfir í að verða eitt öflugasta jarðhitasvæði landsins.

Vestari-Skaftárketill var ekki til 1945 en sást fyrst á loftmyndum árið 1960. Hann var farinn að nálgast núverandi stærð um 1970. „Þróunin skýrir af hverju Skaftárhlaup voru lítil en nánast árviss á fyrri hluta 20. aldar. Þau áttu upptök undir Eystri-Skaftárkatli og stækkuðu mjög samfara vexti ketilsins um miðja öldina. Hlaupa úr vestari katlinum fór að gæta um 1970. Umtalsverðar breytingar urðu á Eystri-Skaftárkatli 2020-2015 þegar hann víkkaði til suðausturs, vesturs og norðurs,“ segir í skýrslunni.

Þá kemur þar fram að afl jarðhitans hafi vaxið úr fáum hundruðum megavatta (MW) 1940 upp í 1.400-1.600 MW 1970 og haldist svipað síðan. Víkkun Eystri-Skaftárketils 2010-2015 er ekki talin stafa af auknu jarðhitaafli. Hún eigi skýringu í tilfærslu uppstreymissvæða jarðhitans undir katlinum. Höfundar skýrslunnar segja erfitt að segja til um þróun næstu ára en engar vísbendingar séu um að það dragi úr jarðhita á svæðinu. gudni@mbl.is