Aðalsteinn Gunnarsson
Aðalsteinn Gunnarsson
Eftir Aðalstein Gunnarsson: "Hvetjum alla flokka og frambjóðendur til að bjóða upp á meira bindindi því neysla áfengis og annarra vímuefna stefnir lýðheilsu samfélagsins í voða."

Framboð á bindindi á undir högg að sækja miðað við hve áfengisiðnaðurinn hefur náð mikilli markaðssetningu. Almenningi er talin trú um að áfengi sé eðlilegur hluti af lífi okkar, hluti af leiknum. Við skulum staldra við og spyrja okkur sjálf „hver sagði að áfengi væri fjör“? Kosningar eru fram undan og við hvetjum alla flokka og frambjóðendur til að bjóða upp á meira bindindi því neysla áfengis og annarra vímuefna stefnir lýðheilsu samfélagsins í voða. Mikið er rætt núna um álag á heilbrigðiskerfið vegna Covid-19-faraldurs. Talað er um að svo margir komi inn á spítala að ekki náist að meðhöndla þá nógu hratt og stíflur myndist. Svo margir séu að smitast að ekki séu næg úrræði til að veita þeim bestu meðferð. Sóttvarnalæknir með sínum sérfræðingum bendir á hvernig má draga úr neikvæðum afleiðingum faraldursins og hefur ítrekað hefur bent á að forvarnir séu svarið. Undanfarin ár hafa sérfræðingar einnig rætt um afleiðingar áfengisneyslu á heimsvísu sem faraldur. Hvaða viðbrögð verða þegar almenningur áttar sig á að 1 af hverjum 6 fær ekki viðunandi meðferð við sínum vanda og að léleg meðferð viðheldur vandanum. Áfengi hefur gríðarlega neikvæð áhrif á þá sem neyta þess og þá sem eru í kringum neytandann á svo marga vegu svo sem félagslegan og fjárhagslegan. Áætlað er að þjóðfélagsleg byrði af neyslu áfengis og annarra vímuefna sé í dag um 130 milljarðar. Það er margfalt meira en hagnaður ÁTVR af sölu áfengis (30 milljarðar) sem þýðir að samfélagið í heild er að niðurgreiða raunverulegan kostnað af neyslu ákveðinna einstaklinga.

Undanfarið er mikið búið að dásama áfengi. Búin hefur verið til ákveðin rómantík í kringum áfengisframleiðendur sem eiga erfitt með rekstur um þessar mundir og það verði að bjarga þeim. Að sjálfsögðu vita allir áfengisframleiðendur að áfengi er engin venjuleg neysluvara heldur vímuefni (eiturlyf) og að það er ekki á vísan að róa með sölu þess. Markaðssetningin á áfengi er mjög villandi því almenningur má alls ekki vita hvað er raunverulega í flöskunum því þá myndu neytendum fækka stórlega. Áfengi tengist flestum lífsstílssjúkdómum samtímans. Áfengi er krabbameinsvaldandi og tengist fjölda tegunda krabbameins.

Áfengisneyslan er öðruvísi nú en fyrir 32 árum. Nú er neysla áfengis almennari en áður. Allt tal um að menningin sé svo miklu betri eftir að áfengisframleiðendur fengu að selja hér bjór er afvegaleiðing umræðunnar. Heilbrigðiskerfið, löggæslukerfið og félagslega kerfið eru að kikna undan álagi vegna áfengisneytenda. Neysla áfengis á mann var um 4 lítrar áður en sala bjórs var leyfð 1989 en er í dag um 8 lítrar. Áfengisiðnaðurinn á Íslandi sér að hægt er að auka söluna til muna, samanber önnur lönd. Samfélög í kringum okkur keppast við og eru samt að minnka neysluna. Íslendingar nota núna meira áfengi en Grænland sem er góðum árangri forvarna þar að þakka.

Talsmenn áfengisiðnaðarins keppast við að gera grín að þeim sem benda á spár um aukningu á neikvæðum afleiðingum aukins frelsis áfengisiðnaðarins. Stjórnmálamenn tala sumir þeirra máli. „Hér tala menn um að allir munu vera á húrrandi fylleríi“ eru orð þingmanns sem gerði lítið úr varnaðarorðum þeirra sem standa vörð um lýðheilsu þjóðarinnar. Stjórnmálamenn eru sumir að gæla við hugmyndir um að frelsa vímuefnaiðnaðinn enn frekar með því að auka aðgang að öðrum vímuefnum. Þeir benda á hvernig sumt gekk fyrir sig í Portúgal, Hollandi og Sviss en tala ekki um það sem ekki heppnaðist eins vel. Það er erfitt að bera saman forvarnir hér þar sem neyslan er tífalt minni.

Að sjálfsögðu eigum við að leggja okkar af mörkum sem samfélag til að draga úr neyslunni og stysta leiðin er að við drögum sjálf úr neyslunni. Við vörum við þegar illa upplýstir aðilar halda því fram að áfengisneysla hjálpi okkur í gegnum Covid-19-faraldurinn en staðreyndin er sú að áfengi veikir ónæmiskerfið, eykur kæruleysi og hindrar að við náum faraldrinum fyrr niður. IOGT á Íslandi bendir á að aukið aðgengi að áfengi eykur neyslu og þar með neikvæðar afleiðingar áfengisneyslunnar, enginn getur þrætt fyrir það enda sýna rannsóknir það. Ekki bara fyrir einstaklinginn heldur samfélagið allt.

Höfundur er framkvæmdastjóri IOGT á Íslandi.

Höf.: Aðalstein Gunnarsson