[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Golf Kristján Jónsson kris@mbl.is Patrick Cantlay stóð uppi sem sigurvegari í PGA-mótaröðinni í golfi á þessu keppnistímabili. Hann varð í efsta sæti stigalistans eftir að hafa unnið tvö síðustu mótin í FedEx-úrslitakeppninni.

Golf

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Patrick Cantlay stóð uppi sem sigurvegari í PGA-mótaröðinni í golfi á þessu keppnistímabili. Hann varð í efsta sæti stigalistans eftir að hafa unnið tvö síðustu mótin í FedEx-úrslitakeppninni. Nú síðast The Tour Championship á sunnudagskvöldið.

Þar með er Cantlay orðinn milljarðamæringur fyrir þrítugt. Hvort sem það var takmark í sjálfu sér eða ekki. Hann er 29 ára gamall og fékk 1,9 milljarða í verðlaunafé fyrir að hafna í efsta sæti stigalistans. Þá á eftir að bæta við öðru verðlaunafé á árinu en á ferlinum hefur Cantlay unnið sér inn rúma 2,8 milljarða. Er það einungis á síðustu árum. Hann sigraði í fyrsta skipti á móti í PGA-mótaröðinni árið 2016 en velgengni hans hófst fyrir alvöru þegar hann sigraði á Memorial árið 2017. Mótinu sem Jack Nicklaus stendur fyrir í Ohio.

Á síðustu tveimur árum eða svo hefur Cantlay sýnt að hann stendur þeim allra bestu í heiminum ekki langt að baki. En hann hafði þó ekki unnið nægilega oft í mótaröðinni til að flokkast með þeim bestu. Hann hafði unnið þrjú mót þegar árið 2021 gekk í garð en nú eru þau orðin sex. Cantlay hefur heldur ekki sigrað á neinu risamótanna fjögurra í íþróttinni. Þar hefur hann ekki blómstrað enn sem komið er en hans besti árangur er 3. sæti á PGA-meistaramótinu árið 2019. Mörgum þykir Cantlay mjög áhugaverður afreksmaður. Ekki síst vegna þess að hann hefur upplifað talsvert mótlæti innan vallar sem utan.

Framtíðin virtist björt

Á háskólaárunum varð hann besti kylfingurinn í háskólagolfinu í Bandaríkjunum og var lengi í efsta sæti á heimslista áhugakylfinga. Framtíðin virtist björt og þegar hann var nýbyrjaður að spreyta sig á atvinnumannamótum náði hann að skila inn skori upp á 60 högg á Travellers Championship. Var Cantlay þá enn áhugamaður og er það besta skor áhugamanns frá upphafi í PGA-mótaröðinni. Þegar leiðin virtist greið á toppinn í íþróttinni meiddist hann illa í baki og var meira eða minna frá keppni í þrjú ár.

„Á yngri árum gekk mér mjög vel. Í uppvextinum tók ég stöðugum framförum á golfvellinum og lífið varð sífellt betra. Síðar þegar ég glímdi við mótlæti varð ástandið eins slæmt og það gat orðið. Um tíma leið mér verr en nokkurn tíma, fyrr eða síðar. En mér tókst að komast í gegnum það. Hafandi farið í gegnum erfiðleika finnst mér ég vera betri manneskja. Fyrir vikið hef ég betri sýn á lífið og tilveruna. Ég er afskaplega þakklátur fyrir að vera í þeirri stöðu sem ég er í, einmitt vegna þess að það var ekki skrifað í skýin. Sérstaklega ekki á þeim tímapunkti þegar ég íhugaði alvarlega að láta staðar numið í golfinu og fara aftur í nám. Um leið og maður er fullur þakklætis þá fylgir því einnig góð tilfinning að sjá allt puðið skila árangri,“ sagði Cantlay í samtali við Sky Sports þegar sigurinn var í höfn en hann er nú í 4. sæti heimslistans.

Ef til vill þykir einhverjum Cantlay vera fulldramatískur í tilsvörum ef mótlætið snýst einungis um meiðsli. Nokkuð sem svo margir íþróttamenn lenda í. En erfiðleikarnir voru meiri en svo. Fyrir rúmum fimm árum var Cantlay með líflítinn vin sinn og kylfusvein, Chris Roth, í fanginu. Höfðu þeir verið að ganga yfir götu í Newport Beach í Kaliforníu þegar keyrt var á Roth. Ökumaðurinn brunaði í burtu og Roth var úrskurðaður látinn skömmu síðar á sjúkrahúsi. Var hann 24 ára gamall.