Guðmunda Magnea Friðriksdóttir til heimilis í Reykjanesbær, fæddist  í Ystabæ að Látrum í Aðalvík 5.janúar 1925. Hún lést á Hrafnistu, Nesvöllum 23.ágúst 2021.

Foreldrar hennar voru Friðrik Finnbogason f.1879 d.1969 og Þórunn María Þorbergsdóttir f.1884 d.1975. Guðmunda var yngst af 17 systkinum sem nú eru öll látin.

Hinn 27.maí 1950 giftist hún Valgeiri Sigurðssyni frá Reykjavík. Foreldrar hans voru Sigurður Jósef Ólafsson f.1898 d.1948 og Áslaug Jóhannsdóttir f.1900 d.1964.

Guðmunda og Valgeir bjuggu í Keflavík allan sinn búskap, lengst af á Hátúni 5. Þau áttu 8 börn.

1.    Laila Jensen f. 1946, gift Sigurði Halldórssyni f.1945. Börn þeirra: a)Brynja, f.1966. b) Magnús, f.1969. c) Valgeir f.1969, d.1970. Þau eiga 4 barnanabörn og 4 barnabarnabörn.

2.    Sigurður f. 1949, kvæntur Bjarneyju Gunnarsdóttur f.1951. Börn þeirra: a)Valgeir, f.1977. b) Gunnar, f.1978.

3.    Óli Þór f.1951, kvæntur Elínu Guðjónsdóttur f.1952. Börn þeirra: a) Ásta, f.1968. b) Valgeir, f.1971. c) Elín María, f.1978. d) Áslaug, f.1980, d.2000. Þau eiga 6 barnabörn og 1 barnabarnabarn.

4.    Áslaug f.1952, gift Robert D Williams f.1954. Börn þeirra: a) Katrín, f.1972, faðir hennar er Garðar Tyrfingsson, b) Robert Daniel, f.1977. c) Marianna Patricia, f.1981, d.2010.

5.    Friðrik Már f.1953. Var kvæntur Ingigerði Guðmundsdóttur, f.1954, d.2016. Börn þeirra: a) Ingi Garðar, f.1973. b) Guðmunda Magnea f.1979. c) Sandra Dögg, f.1989.  Hann á 5 barnabörn.

6.    Gunnar Valgeir f.1957, kvæntur Cristinu Bodinger-de Uriarte, f.1955.

7.    Herborg f.1963, gift Guðjóni Guðmundssyni. Börn þeirra: a) Ingimundur, f.1990. b) Eyþór, f.1995. Þau eiga 2 barnabörn.

8.    Guðrún f.1966



Guðmunda eða Mumma eins og hún var kölluð, fæddist og ólst upp að Látrum í Aðalvík. Hún gekk þar í barnaskóla en þurfti að gera hlé á námi þar sem hún veiktist af  mænuveikinni og þurfti að jafna sig eftir þau veikindi.  Hún flutti til Akureyrar til að klára nám frá Gagnfræðaskóla Akureyrar og útskrifaðist 1945 með hæstu einkunn. Hún flutti síðan til Keflavíkur og starfaði í verslunum þar áður en hún hóf búskap og eignaðist sín börn og var hún heimavinnandi húsmóðir eftir það, þar sem barnahópurinn var stór. Hún starfaði í mörg ár við ýmis félagsstörf, sérstaklega hjá Sjálfsbjörg á Suðurnesjum og í Kvenfélaginu.



Útför Guðmundu fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag 7.september 2021 kl. 13.

Streymt verður frá útför: https://www.facebook.com/groups/gudmunda

Hlekk á streymi má finna á
https://www.mbl.is/andlat

Í dag kveðjum við okkar ástkæru mömmu. Hún var alveg einstök kona og erum við ekki þau einu sem segja það. Höfum heyrt það frá ýmsu fólki í gegnum árin.
Mamma var yngst af 17 systkinum og komust 14 þeirra til fullorðinsára. Það gat oft verið erfitt að búa og alast upp í einangruninni í Aðalvík þar sem samgöngur í næstu þéttbýli voru ekki alltaf greiðfærar og eina leiðin var sjóleiðin. Mamma talaði samt alltaf vel um æsku sína og uppeldið þar, sagði okkur margar góðar sögur af ömmu, afa, systkinum sínum og öðru samferðafólki. Tengslin við Aðalvík voru órjúfanleg og hún ljómaði alltaf þegar við vorum að tala um víkina fögru. Við systkinin höfum farið ófáar ferðir þangað og skiljum við vel hvað hún var að meina.

Hér er stutt ljóð sem hún orti um Aðalvíkina.



Er Aðalvíkin opnar sig

er það segin saga

að allt er geymt og engu gleymt

sem gerðist forðum daga.



Mamma fékk mænuveikina þegar hún var 10 ára og þurfti að vera ein að heiman í einhverja mánuði í endurhæfingu, á Ísafirði og í Reykjavík. Hún fékk mikla hryggskekkju í kjölfarið, var fötluð og þurfti að aðlaga sig að því en lét það ekki aftra sér í neinu ef hún gat. Hún hefur örugglega lært að vera mjög þolinmóð þegar hún fékk mænuveikina og sagði oftar en ekki: Maður gerir bara gott úr því sem maður hefur.
Hún flutti til Keflavíkur til ömmu og afa, þar sem mörg systkini hennar bjuggu einnig, því þar var nóg af atvinnu að fá á þeim árum. Mamma vildi verða kennari og ætlaði að flytja til Reykjavíkur og fara í Kennaraskólann en á þeim tíma var mjög erfitt að fá herbergi á leigu og síðan kynnist hún pabba.
Þau kynntust á skíðasvæði nálægt höfuðborginni þar sem mamma var að heimsækja systur sína sem þar vann árið 1946 og fljótlega fæddist fyrsta barnið en þau hófu ekki búskap fyrr en síðar og giftust árið 1950. Þau bjuggu á nokkrum stöðum í Keflavík en fjölskyldan stækkaði ört og flutti að lokum á Hátún 5 sem pabbi byggði og þar ólumst við systkinin upp. Það var mikið líf og fjör á stóru heimili, mamma alltaf til staðar heima og pabbi vann mikið. Það hafa verið sagðar margar sögur, sérstaklega af eldri systkinum sem slógust oft, en við hin yngri vorum mun rólegri, kannski sem betur fer fyrir mömmu. Við fórum fljótt að hjálpa til á heimilinu og þótti það sjálfsagt að hjálpa til með yngri systkinin og heimilisverkin.
Mamma var róleg að eðlisfari, alltaf glöð, kát og brosmild. Það var gott að heimsækja hana og spjalla um daginn og veginn. Hún las alltaf mikið, hinar ýmsu bókmenntir og fylgdist vel með því sem var að gerast í samfélaginu og líka það sem var að gerast erlendis.
Hún hikaði ekki við að vera nýjungagjörn í eldamennsku og prófaði ýmsar uppskriftir og auðvitað voru áhrif líka frá Vellinum (herstöðin á Miðnesheiði) og við fengum að njóta þess. Það var alltaf heitur matur í hádeginu og á kvöldin, þegar við vorum að alast upp.
Það var oft mjög gestkvæmt á heimilinu. Systkini hennar sem bjuggu í Keflavík voru mörg í næstu götum við okkar og ef mamma var ekki heima þegar við komum úr skólanum, þá gat maður oftast fundið hana hjá þeim.
Mamma var líka spákona, spáði í bolla og oft þegar við komum heim var hún að spá í bolla fyrir einhvern og maður fylgdist hugfanginn með því sem var sagt. Hún var einstaklega lunkin að ná til fólks og fá það til að segja frá sínu og líka okkur systkinin Það var ekki hægt að leyna neinu fyrir henni. Hún veiddi ýmislegt upp úr okkur með bollanum og vissi hvað við vorum að hugsa eða skipuleggja. Yfirleitt fór maður mjög sáttur frá henni með spádóminn og ekki spillti fyrir ef hún spáði fyrir ferðalögum eða peningum, hvað þá bæði. Aðrir sem komu til mömmu í sömu erindagjörðum hafa sagt okkur í gegnum árin að margt sem hún spáði fyrir hafi ræst og örugglega hafa langflestir farið glaðir frá henni eftir heimsóknina.
Það var mikil réttlætiskennd í mömmu, hún mátti ekkert aumt sjá og oftar en einu sinni sagði hún að það væri leiðinlegt ef við litum öll eins út og hefðum sömu skoðanir, þá hefðum við um ekkert að tala.
Mamma hafði gaman af að ferðast og voru þau pabbi mjög dugleg að fara í tjaldútilegur með okkur á sumrin. Hún var þú búin að taka til allt þegar pabbi kom úr vinnu á föstudögum og þá var ekið af stað þangað sem góða veðrið var. Þegar eldri systkinin voru flutt að heiman fóru yngstu systurnar með þeim í sumarbústaðaferðir og oft fylgdu einhver af barnabörnunum með. Síðan voru þau mjög dugleg að fara árlega í sólina og hitann í útlöndum, sérstaklega til að stytta veturinn þegar pabbi var hættur að vinna. Þau fóru líka í ferðir með eldri borgurum, dags- og helgarferðir og tóku þátt í ýmsu starfi Félags eldri borgara á Suðurnesjum.
Mamma og pabbi fluttu í Hornbjarg, sem eru íbúðir fyrir aldraða á Kirkjuvegi, þegar við vorum öll flutt að heiman og bjuggu þar, þar til pabbi lést fyrir 10 árum og þá flutti mamma á hjúkrunarheimili. Fyrst fór hún á Garðvang í Garðinum og síðan á Hrafnistu Nesvöllum þar sem henni leið mjög vel og fékk einstaklega góða umönnun allan sinn tíma þar. Hún sagði að manni liði verst sjálfum ef maður væri alltaf að kvarta þegar við spurðum hana hvort henni liði vel þar. Hún kom alltaf með svo góð svör við ýmsum spurningum og ekki var annað hægt en að vera sammála henni.
Það eru margar sögur sem rifjast upp um mömmu hjá okkur systkinum en hún var hógvær kona sem vildi ekki láta hefja sig upp á stall.
Því viljum við leyfa henni að eiga lokaorðið. Hún átti það til að semja eða yrkja um ýmislegt og viðeigandi að það fjalli um hennar æskuslóðir í Ystabæ í Aðalvíkinni, þangað sem hún fór sína síðustu ferð árið 1997.



Komin er á kæran stað

Kannski hefur ekkert breyst

Þankabrotin þyrpast að

Því þú getur alveg treyst

Ystibær er alltaf kær

og enginn fær því neinu breytt

Signir okkur sólin skær

og sýnist ekki vanta neitt

Logn og blíða, lygn sjór

Leysist þokan fjöllum úr

Fjallahringur fagur stór

Funheitt úti og engin skúr




Takk elsku mamma fyrir allt. Minning þín lifir áfram hjá okkur.

Þín


Laila, Sigurður, Óli Þór, Áslaug, Friðrik Már, Gunnar, Herborg og Guðrún Valgeirsbörn.