Í kosningunum eftir tvær vikur er auðvelt að velja milli ólíkra leiða í efnahagsmálum: raunhæfar aðgerðir eða loftkastala.

Hagstofa Íslands telur að Covid-faraldurinn hafi leitt til annars mesta samdráttar í landsframleiðslu okkar Íslendinga. Vegna faraldursins löguðu stjórnvöld hér og í nágrannalöndunum stjórn ríkisfjármála að nýjum, erfiðum aðstæðum. Nú þegar sést vonandi fyrir endann á sóttvarnahömlum birtast víða vangaveltur um framhaldið, hvort snúið verði til sömu stjórnarhátta og áður eða róið á ný mið.

Hér á landi bendir margt til þess að um hraðan efnahagsbata verði að ræða enda sé haldið rétt á málum. Sömu sögu er að segja um Bandaríkin. Hægari vexti er spáð innan ESB.

Faraldurinn varð til þess að ríkissjóði Íslands var beitt af miklum þunga til að pestin ylli ekki óbætanlegum skaða á efnahagslegum grunnstoðum. Auðveldaði sterk staða ríkissjóðs í upphafi allar ákvarðanir um þetta efni auk bjartsýni Bjarna Benediktssonar, efnahags- og fjármálaráðherra, á að þessi beiting á ríkisfjármálunum leiddi til þess að hjólin færu hratt af stað að nýju þegar slaknaði á hömlunum.

Á undraskömmum tíma hefur atvinnulífið svo tekið kipp eins og sjá má á þjóðlífinu og heyra á öllum ársfundum samtaka og opinberra stofnana sem efnt er til um þessar mundir.

Rannís, rannsóknamiðstöð Íslands, hélt ársfund sinn fimmtudaginn 9. september. Þar fagnaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra því hve vel hefði miðað við fjármögnun rannsókna- og þróunarverkefna á kjörtímabilinu enda hefði ríkisstjórnin sett skýr markmið um það í sáttmála sinn.

Fyrstu og skýrustu umskiptin í íslensku atvinnulífi eftir aðildina að evrópska efnahagssvæðinu (EES) árið 1994 urðu á sviði rannsókna og þróunar. Í áranna rás hafa íslenskir vísindamenn og sérfræðingar svo staðið að öflugum og samkeppnisfærum umsóknum í evrópska rannsóknasjóði.

Á sjö ára fresti er þessum sjóðum sett markmið og lauk einu slíku tímabili í fyrra. Þá greiddu íslensk stjórnvöld 80 milljónir evra í sameiginlega sjóðinn en til Íslendinga og samstarfsmanna þeirra um umsóknir runnu styrkir sem námu um 140 milljónum evra.

Sé litið á þetta sem mælikvarða um gæði rannsókna hér á landi geta þeir sem að þeim vinna vel við unað. Á fáum sviðum eru kröfur um gæði umsókna meiri en þegar sótt er í evrópsku sjóðina. Samkeppnin er gífurlega hörð. Að þessari staðreynd verður að huga á öllum stigum íslenska skóla- og menntakerfisins. Sé slegið af kröfum innan þess bitnar þjálfunarleysi, til dæmis við að þreyta próf, á nemendum síðar þegar reynir á samkeppnishæfni og úthald.

Sé litið á hlutfall útgjalda til rannsókna og þróunar miðað við verga landsframleiðslu er Ísland nú í 7. sæti meðal Evrópulanda. Hallgrímur Jónasson, forstjóri Rannís, sagði á ársfundinum að nú mætti eygja að því markmiði yrði náð að útgjöld vegna þessa málaflokks yrðu 3% af landsframleiðslu.

Þegar peningastefnunefnd kynnti vaxtaákvörðun sína 25. ágúst 2021 sagðist Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri afar bjartsýnn á efnahagshorfur til skamms tíma. Að einhverju leyti gæti farsóttin reynst „blessun í dulargervi“. Ferðaþjónustan hætti að vera jafn yfirgnæfandi og áður þar sem aðrar greinar sæktu í sig veðrið. Taldi hann að nú hæfist nýtt framfaraskeið þjóðarinnar.

Vegna þessara orða er nærtækast að líta til hugverkaiðnaðarins svonefnda, fjórðu stoðar efnahags- og atvinnulífsins, rannsókna, þróunar og nýsköpunar.

Í fyrra námu útflutningstekjur hugverkaiðnaðar um 158 milljörðum króna – 103% meira en árið 2013. Hlutdeild hugverkaiðnaðar í útflutningstekjum fór úr 7,4% í nær 16%.

Þetta má meðal annars rekja til þess að nú fá fyrirtæki endurgreiðslu úr ríkissjóði til að standa undir hluta rannsókna- og þróunarkostnaðar.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir nýsköpunarráðherra lýsir þessum endurgreiðslum sem einni stærstu stuðningsaðgerð sögunnar við nýsköpunarstarf fyrirtækja hér á landi.

Árið 2020 var endurgreiðsluhlutfallið 35% í stað 20% áður. Þá hækkaði þak á endurgreiðslum úr 600 milljónum í 1.100 milljónir króna. Rannís telur að fjárstreymi úr ríkissjóði til stuðnings við rannsóknir, þróun og nýsköpun muni af þessum sökum aukast úr 5,2 milljörðum króna fyrir árið 2019 í um 10 milljarða fyrir árið 2020.

Ekkert af þessu gerist af sjálfu sér. Stjórnmálamenn verða að móta stefnu og taka ákvarðanir um framkvæmd hennar. Vilji til að stofna til opinberra útgjalda til stuðnings framtaki einkaaðila sem uppfylla gegnsæ opinber skilyrði verður að vera fyrir hendi.

Hvati af þessu tagi á ekki aðeins við um nýsköpun. Hann snýst til dæmis einnig um endurgreiðslu á virðisaukaskatti til þeirra sem fá iðnaðarmenn til að endurbæta eigið húsnæði sitt.

Á þessum stuðningi er ekki eðlismunur og fjárstuðningi við bændur, sjálfstæða atvinnurekendur, til að tryggja skynsamlega nýtingu lands og búsetu í því öllu.

Á þeirri ráðstöfun skattfjár sem hér er lýst og áformum Pírata um að taka milljarða að láni til tilraunastarfs með svonefndum borgaralaunum er hins vegar reginmunur. Svo að ekki sé minnst á tilboð Sósíalistaflokksins um „stóru húsnæðisbyltinguna“, byggingu 30 þúsund íbúða á tíu árum.

Hér hafa kjósendur skýrt val í kosningunum eftir tvær vikur á milli raunhæfra aðgerða í þágu þjóðarhags og yfirboða í anda lýðskrums. Ríkisstjórnin tók skynsamlegar efnahagsákvarðanir vegna faraldursins og vonandi verður framhald á þeim að honum loknum.

Björn Bjarnason bjorn@bjorn.is

Höf.: Björn Bjarnason bjorn@bjorn.is